Tilefni þessara skrifa er pistill Indriða Þorlákssonar um Örláta söngvarann, sem birtist í vefriti Herðubreiðar þann 16. október sl. og Viðskiptablaðið gerði að frétt á sínum vefmiðli sama dag. Í umræddum pistli er látið að því liggja að sala Arion banka á hlutabréfum í Símanum í ágúst sl. sé gjafagerningur og skuli því skattlagður sem tekjur hjá fjárfestum. Pistlahöfundur áætlar gjöfina að upphæð 720 m.kr. og vitnar þar til ótilgreindra frétta fjölmiðla, sem líklegast fjölluðu um heildarhækkun hluta frá kaupdegi en ekki upphæð örlætagernings. Pistlinum lýkur síðan á því að áætlaðar tekjur ríkis og sveitarfélaga verði um 300 m.kr. sem ættu að skila sér á næstunni.

Það sem kemur undirrituðum mest á óvart við umræddan pistil er að aðili með svo yfirgripsmikla þekkingu á skattamálum ákveði að gera tiltekin málefni ótrúverðug gegn betri vitund, þar sem ekkert liggur fyrir um það að markaðsvirði hlutanna hafi verið hærra en kaupvirði og þvert á móti mætti áætla að kaupvirði sé markaðsvirði nema að annað liggi fyrir í málinu. Síðan er það framsetningin. Pistill Indriða hefst á því að sölu Arion banka á hlutabréfum í Símanum er jafnað við „endurkomu fjármálasukks fyrri ára“ og að bankinn sé hér augljóslega að kaupa sér inneign hjá áhrifamönnum. Engin sérstök tilgreining er á því hver tengsl sölunnar eru við framangreinda endurkomu og/eða hvaða inneign bankinn er að „kaupa sér“. Látum liggja á milli hluta að það sé óábyrgt að tengja þessi atriði saman án rökstuðnings en þegar litið er til framsetningarinnar er ljóst að hún er gerð í þeim eina tilgangi að gera söluna ótrúverðuga með vísan í „meinta spillingu“ pistlahöfundar.

En svo að kjarna málsins. Umfjöllun Indriða varðar það að gjöf kunni að vera skattskyld og er alls ekki fundið að því enda liggur það ljóst fyrir að gjöf getur verið skattskyld. Hins vegar ákveður pistlahöfundur, þvert gegn betri vitund verður að telja, að um gjöf hafi verið að ræða og vitnar hann sér til stuðnings ótilgreindar fréttir fjölmiðla. Undirritaður hefur hins vegar hvergi séð slíka umfjöllun og gefur sér að tilvitnaðar greinar fjölmiðla hafi fjallað um að heildarhlutirnir hafi hækkað um 720 m.kr. frá kaupdegi. Þessu tvennu er ekki saman að jafna og verður því ekki útboðsgengi (hvað þá síðara tíma markaðsgengi) notað sem skattstofn fyrir kaupum sem gerðust fyrr. Þetta veit Indriði en finnst engu að síður rétt að rita pistil um „væntan tekjustofn“ vegna sölunnar.

Framangreind framsetning er undirrituðum ekki að skapi. Hún er til þess eins að ala á illu umtali og hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Undirritaður hefur enga hugmynd um markaðsvirði hluta í Símanum á þeim degi er Arion banki seldi hlutina en ljóst er að enginn verður tekjustofninn af þessari sölu nema einsýnt sé að markaðsvirði bréfanna hafi verið hærra en kaupvirði á kaupdegi. Við mat á því þarf að huga að ýmsu. Á þeim tíma sem kaupin fóru fram var félagið óskráð og auk þess tóku tilteknir fjárfestar á sig sölubann á hlutunum í rúmlega 12 mánuði. Undirritaður ætlar ekki að reyna að verðleggja félagið á kaupdegi en telur líklegt að áður en salan hafi farið fram hafi legið fyrir verðmat óháðs aðila. Reynist það verðmat vera hærra en kaupvirði er klárlega um afslátt að ræða. Reynist afslátturinn óútskýrður er um gjöf að ræða. Um það erum við Indriði líklegast sammála.

Þá má heldur ekki gleyma því að kaup tiltekinna fjárfesta fyrir útboð á markaði geta verið til þess fallin að treysta ásýnd félagsins og orðið til þess að endanlegt markaðsgengi í útboðið verði hærra en ef þeirra nyti ekki við. E.t.v. höfðu tilboðsgjafar meiri áhuga á félaginu og lögðu meira traust til félagsins eftir að ljóst var að tilteknir fjárfestar voru reiðubúnir að kaupa í félaginu með sölubanni allt til janúar 2017.

Uppbyggileg umræða og/eða umfjöllun um það í hvaða tilvikum sala geti fallið undir gjöf – líkt og ef ákveðið væri að veita framkvæmdastjórum og starfsfólki tiltekinn afslátt frá endanlegu söluvirði á markaði – er leiðbeinandi umræða eða þátttaka í umfjöllun sem ég kalla frekar eftir af sérfræðingum þessa lands en ekki sleggjudómar í skjóli sérfræðiálits og framsetning sem elur á úlfúð og sundurlyndi.