Framboðslistar borgarstjórnarflokkanna eru að taka á sig mynd. Nú er komið í ljós að sömu oddvitar leiða flokkana, sem myndað hafa meirihluta síðustu fjögur. Dagur B. Eggertsson borgar_ stjóri leiðir Samfylkinguna, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir leiðir Viðreisn, Líf Magneudóttir leiðir VG og Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírata.

Um síðustu helgi kom í ljós hver verður oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en það er Hildur Björnsdóttir. Framsóknarflokkurinn, sem yfirleitt hefur átt á brattann að sækja í borginni, fékk Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamann á RÚV, til að leiða flokkinn. Miðflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins, sem í dag eiga allir borgarfulltrúa, eiga eftir að kynna sína framboðslista.

Sveitarstjórnarkosningarnar nálgast óðfluga en þær fara fram laugardaginn 14. maí. Kosningabaráttan í borginni er ekki hafin - ef svo er þá hefur það að minnsta kosti farið framhjá Viðskiptablaðinu. Samkvæmt skoðanakönnunum er fylgi flokkanna á mikilli hreyfingu. Stóru flokkarnir tveir í borginni, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, hafa verið mælast töluvert undir kjörfylgi. Hildur getur huggað sig við að þær voru teknar áður en hún sigraði í prófkjörinu um síðustu helgi en Dagur hefur engar sérstakar afsakanir. Framsóknarflokkurinn er á mikilli siglingu og óhjákvæmilega vaknar sú spurning hvort hann sé að toppa of snemma.

Ljóst er að það stefnir í snarpa kosningabaráttu. Kosningamálin munu fyrst og síðast snúast um íbúðamarkaðinn, samgöngumál og þjónustu við borgarbúa. Viðskiptablaðið telur að fjármál borgarinnar eigi einnig að vera í forgrunni kosningunum enda var fjallað nokkuð ítarlega um þau á þessum vettvangi í byrjun árs.

Stóra myndin er sú að samkvæmt síðasta birta ársreikningi, sem var fyrir rekstrarárið 2020, var afkoma samstæðunnar neikvæð um 2,8 milljarða króna. Þetta er sláandi tala og ekki síst í ljósi þess að Dagur og félagar hans í meirihlutanum höfðu, í fimm ára fjárhagsáætlun, gert ráð fyrir því að afkoman yrði jákvæð sem nemur 16,5 milljörðum. Heildarskuldir og skuldbindingar borgarinnar námu 386 milljörðum í lok árs 2020 og hafa aldrei verið hærri. Hækkuðu skuldirnar um 41 milljarð króna á árinu eða sem nemur 3,4 milljörðum króna í hverjum einasta mánuði. Staða borgarinnar er þannig að í dag skuldar hver borgarbúi um 3 milljónir. Kjósendur hljóta að spyrja sig hvers vegna Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið, af þeim fjórum stærstu á höfuðborgarsvæðinu, sem rekið er með tapi.

Ástandið á fasteignamarkaðnum hefur ekki farið framhjá neinum enda hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um ríflega 22% á síðustu 12 mánuðum. Það er gott fyrir fasteignaeigendur en slæmt fyrir aðra og sérstaklega þá tekjulágu og unga fólkið, sem á eftir að koma sér þaki yfir höfuðið.

Framboð eigna á fasteignamarkaði er í sögulegu lágmarki sem hefur haft þær afleiðingar að í janúar seldust 45% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Þó að íbúðaverð hafi heilt yfir hækkað um 22% þá hefur verð á sérbýliseignum hækkað umtalsvert meira eða um ríflega 27% enda afskaplega lítið verið byggt af slíkum eignum í Reykjavík. Það er helst í Hafnarfirði sem hægt er að fá lóð fyrir sérbýli.

Það er alveg ljóst að sem langstærsta sveitarfélag landsins, ber Reykjavíkurborg mikla ábyrgð á þróun mála á fasteignamarkaði. Ástæðan er augljós - of lítið hefur verið byggt í borginni. Af þessum sökum hlýtur að vekja alveg sérstaka athygli að tekjur af sölu byggingaréttar árið 2020 hafi verið 3,2 milljörðum undir áætlun. Það er alveg ljóst að taka þarf til hendinni í rekstri borgarinnar og koma böndum á báknið.

Samgöngumálin munu verða rædd í kosningabaráttunni og líklega mun borgarlínan fá mestu athyglina. Hildur, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins, lýsti því sem dæmi yfir rétt fyrir prófkjör flokksins að hún væri ósammála útfærslu borgarstjóra á borgarlínunni því hún miðaði að því að þrengja að öðrum samgöngukostum. Viðskiptablaðið er sammála því að sjálfsagt sé að bæta almenningssamgöngur og horfa til framtíðar í þeim málum en fokdýr borgarlína með engum farþegum skilar engu nema samfélagslegu tapi öfugt við t.d. Sundabrautina. Ef borgarlínan á að skila einhverju þá þarf viðhorfsbreytingu hjá borgarbúum gagnvart strætisvögnum og hún verður ekki þvinguð fram af stjórnmálamönnum, sem eiga sér óraunhæfan draum.