*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Leiðari
26. janúar 2017 12:36

Óréttlát leiðrétting

„Á þessum síðum hefur því alltaf verið haldið fram að leiðréttingin hafi verið hið mesta glapræði.“

Haraldur Guðjónsson

Töluvert hefur verið gert úr niðurstöðum skýrslu um leið­ réttinguna svokölluðu í fjölmiðlum síðustu daga. Samkvæmt henni rann stór hluti fjárhæðarinnar, sem í heild hljóðaði upp á um 72,2 milljarða króna, til þeirra efnamestu í íslensku samfélagi. Munu um 30% fjárhæðarinnar hafa runnið til tekjuhæsta tíu prósents þjóðarinnar og að um 86% hennar hafi farið til tekjuhærri helmings Íslendinga.

Þetta þykir mörgum hið versta mál og nú hafi verið endanlega sannað hversu skelfileg ákvörðun það var að ráðast í þennan gjörning.

Á þessum síðum hefur því alltaf verið haldið fram að leiðréttingin hafi verið hið mesta glapræði. Má sem dæmi vitna í leiðara Við­ skiptablaðsins frá 22. maí 2014, þar sem sagði að búast mætti við því að viðskiptajöfnuður við útlönd myndi versna og að verðbólga myndi aukast. „Siðrænu afleiðingarnar gætu hins vegar orðið illvígari þegar til lengri tíma er litið. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað sagt að aðgerðin sé ekki fordæmisgefandi og að þegar næsta hrun kemur muni fólk ekki geta búist við því að ríkið felli skuldir þess niður. Það þarf gríðarlega bjartsýni á mannlegt eðli til að trúa þessu,“ sagði jafnframt í leiðaranum.

Þessi gagnrýni stendur enn, þótt aðrir þættir hafi haft dempandi áhrif á verðbólguþróun. Eftirgjöf skulda með þessum hætti er vont fordæmi og á það sama við um 110% leiðina svokölluðu eða skuldaeftirgjöf Hæstaréttar í gengislánadómunum. Þegar gefinn er afsláttur af því að fólk greiði til baka skuldir sem það hefur stofnað til er hætt við að það skapi óæskilega hvata til framtíðar.

Sést þetta einna best á því hvernig bandarískir – og reyndar alþjóðlegir bankar – hafa hegðað sér á síðustu áratugum. Stjórnvöld notuðu öll tækifæri til að forða fjármálastofnunum frá hruni og hlupu ítrekað undir bagga með þeim þegar í harðbakkann sló. Þetta hafði þau áhrif að áhættumat bankanna skekktist verulega. Það sama gæti gerst hér.

Vissulega er engin ástæða til að fagna því að þeir hafi fengið hlutfallslega meira í sinn hlut í leið­ réttingunni sem sannanlega þurftu minnst á henni að halda. En málflutningur sem þessi er villandi og allt að því hættulegur. Því skilja má á þeim sem hann hafa uppi að hefði skipting leiðréttingarfjárins verið önnur og „jafnari“ þá væri þetta allt hið besta mál og stjórnvöldum framtíðarinnar til eftirbreytni.

Í raun er skipting fjárins svo mikið aukaatriði að segja má að hún skipti ekki máli í stóra samhenginu. Leiðréttingin var stórkostlega röng ákvörðun – þótt hún hafi vissulega verið vinsæl meðal kjósenda – og það er hlutverk ábyrgra einstaklinga að ganga úr skugga um að hún verði ekki fordæmi fyrir framtíðina. Með því að einblína á skiptinguna er hins vegar hætt við því að leikurinn verði endurtekinn, en áherslan verði frekar á að sníða af þennan meinta agnúa af fyrri leiðréttingu. Það breytir aldrei þeirri staðreynd að leiðréttingar sem þessar fela í sér tilfærslu fjármagns frá þeim sem ekki fara offari í skuldsetningu til þeirra sem ekki sjá að sér.

Það er raunverulegt óréttlæti.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.