Það er óhætt að fullyrða að sátt ríki hér á landi um að öldrunarkerfið grundvallist á jöfnu aðgengi. Aftur á móti virðist vera meiri ágreiningur um hvernig þeim verkefnum er best sinnt. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var sagt frá því að Ísland legði þrefalt meiri áherslu á stofnanaþjónustu í öldrunarkerfinu en Danmörk, en það eru langtum dýrustu úrræðin innan kerfisins. Þá var haft eftir Höllu Thoroddsen, forstjóra Sóltúns, að Danir hefðu tekið ákvörðun um að það væri ekki ríkisins að ákveða rekstrarform öldrunarþjónustunnar, þ.e. hvort hið opinbera eða einkaaðilar sinni þjónustunni.

Það er fyrirséð að kostnaður við öldrunarkerfið muni aukast á næstu árum, ekki síst vegna þess að þeim mun fækka hlutfallslega sem standa undir kostnaðinum þar sem öldruðum mun fjölga hratt á næstu áratugum. Það er því morgunljóst að gera þarf breytingar á kerfinu og breyta áherslum til að mæta komandi áskorunum. Fjölbreytt úrræði og rekstrarform eru lykillinn að framþróun innan kerfisins, en með því má ná fram hagræðingu og auknum gæðum. Að auki getur það dregið úr eftirspurn eftir stofnanaþjónustu, en í dag virðast allir vegir liggja inn á Landspítalann og hjúkrunarheimilin með tilheyrandi biðlistum.

Hið opinbera mun aldrei geta leitt þá vegferð. Aftur á móti getur það skapað umhverfi þar sem nýsköpun og fjölbreytt rekstrarform ná að blómstra. Það liggur í augum uppi að samkeppni um veitingu þjónustunnar stuðlar að auknum gæðum og hagkvæmni. Þá er líka mikilvægt að gerður sé greinarmunur á því hver greiðir fyrir þjónustuna og hver veitir hana. Fé á að fylgja einstaklingnum, sem á að hafa val um hvert hann sækir sína þjónustu.

„Sóltún Heima er úrræði sem býður bæði upp á heimahjúkrun og heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustan er því á hendi eins aðila sem hefur góða heildarsýn yfir þarfir skjólstæðingsins. Þessi þjónusta er ekki niðurgreidd af hinu opinbera og þarf fólk því að greiða fyrir hana úr eigin vasa. Það liggur í hlutarins eðli að fólk þarf því að hafa efni á þjónustunni og hafa þeir efnameiri því fleiri valkosti. Kannanir sýna að Íslendingar vilja ekki hafa velferðarkerfið þannig,“ sagði Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns, í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Það er óhætt að taka undir með Höllu. Hugsanlega skýrist andstaða Íslendinga gagnvart fjölbreyttu rekstrarformi innan velferðarkerfisins af þeim algenga misskilningi að blandað rekstrarform þar sem fé fylgi einstaklingi skapi ójöfnuð og hampi þeim efnameiri. Þetta er afleit rökvilla, þvert á móti tryggir fyrirkomulagið fólki sömu tækifæri til að velja sér þjónustu aðila, óháð fjárhag. Á meðan fé er bundið við opinbera þjónustu, er valið einkum þeirra efnameiri.

Þessi mótstaða er ekki síst merkileg í ljósi þess að almenn sátt virðist ríkja um greiðsluþátttöku hins opinbera hvað varðar dvöl á hjúkrunarheimili, óháð rekstrarformi. Dvalarkostnaður íbúa hjúkrunarheimila er tekjutengdur, þar sem íbúar sem hafa tekjur umfram ákveðið tekjumark greiða hluta af kostnaði á móti hinu opinbera. Í dag er tekjumarkið 107 þúsund krónur, en tekjur umfram það skulu fara í dvalarkostnað. Kostnaðarhlutdeildin verður hæst 475 þúsund krónur, ef tekjur á mánuði ná 582 þúsund krónum eftir skatt, sem gera tæp 82% af tekjum einstaklingsins.

Í því felst jöfnuður að því leyti að aðgengi allra er tryggt, en óréttlæti að því leyti að sá sem greiðir meira fyrir þjónustuna gæti þrátt fyrir það fengið minna fyrir. Einstaklingur sem greiðir tæpa hálfa milljón fyrir dvöl á hjúkrunarheimili gæti allt eins dvalið í herbergi með öðrum, án baðherbergis á meðan einstaklingur sem er rétt við tekjumarkið, en greiðir þó fyrir sína dvöl, gæti dvalið í 40 fermetra herbergi, með baðherbergi, á Ísafold í Garðabæ.

Til að blandað rekstrarform, þar sem fé fylgir einstaklingi, tryggi í senn jafnt aðgengi og réttlæti, þarf greiðsluþátttaka að vera sanngjörn, en jöfn, líkt og tíðkast til dæmis við heilsugæsluþjónustu, þar sem mikil ánægja hefur ríkt um fyrirkomulagið.