*

sunnudagur, 25. október 2020
Leiðari
16. október 2020 17:15

Orkan og stóriðjan

Er offramboð á raforku framundan á Íslandi næstu árin og hvernig hyggjast ráðamenn og orkufyrirtækin þá bregðast við?

Haraldur Guðjónsson

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur að undanförnu varað við því í viðtali bæði við Fréttablaðið og Morgunblaðið að verulegt offramboð á orku kunni að vera fram undan næstu árin. Um 7,5% af íslenskri raforkuframleiðslu séu ekki nýtt sem stendur þó notkun hennar sé bundin raforkusamningum við stóriðju. Þannig er álver Rio Tinto í Straumsvík keyrt á 85% afköstum og kísilver United Silicon og PCC á Bakka eru lokuð.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skrifaði nýverið grein sem túlka verður sem svar við ummælum Bjarna þó ekki sé minnst á hann í greininni. Þar benti Hörður á að þó ekki sé verið að nýta þessa raforku til vinnslu þá sé Landsvirkjun samningsbundin um að afhenda þá raforku um leið og stóriðjan óskar eftir orkunni og getur því ekki selt öðrum aðilum orkuna á meðan.  Ekki er algengt að forstjórar opinberra orkufyrirtækja takist á í fjölmiðlum með þessum hætti.

Bjarni telur að veruleg hætta sé á að álveri Rio Tinto verði lokað og að það myndi þýða að verulegt offramboð yrði á raforku hér á landi næstu árin og verðfall á raforku til stóriðjunnar. Álverin þrjú nýta um 75% af allri raforku sem framleidd er hér á landi. „ Það er eðli fyrirtækja að þau eiga sitt æviskeið og mér finnst líklegt að það fari að nálgast lokin þar. Hvort sem það verður eftir áramót, eftir fimm ár eða síðar, það veit ég ekki,“ segir Bjarni í viðtali í Morgunblaðinu.

Rio Tinto hefur átt í viðræðum við Landsvirkjun að undanförnu og fer fram á lækkun raforkuverðs, ella verði álverinu lokað. Landsvirkjun hefur sagst vera með góðar tryggingar í samningnum sem gildir fram til ársins 2036 en með endurskoðunarákvæði árið 2024.

Á sama tíma er HS Orka að stækka Reykjanesvirkjun um 30 MW, en Tómas Már Sigurðsson, sem tók við sem forstjóri HS Orku á síðasta ári, var fram að því einn æðsti yfirmaður Alcoa og ætti að vera í góðri stöðu til að skilja hugsanagang álfyrirtækjanna.

Verði af lokun álvers myndi það styrkja stöðu stórnotenda á raforku verulega í samningaviðræðum við orkufyrirtækin. Ákvæði eru um endurskoðun eða endurnýjun samninga allra álveranna á komandi áratug. Samningur Landsvirkjunar við Norðurál rennur út árið 2023, endurskoðunarákvæði er í samningnum við Rio Tinto árið 2024 og við Alcoa árið 2028.  Samningarnir eru hins vegar bundnir trúnaði og því liggur ekki almennilega fyrir hvað felst í þessari endurskoðun. Það er afar óheppilegt að leynd sé um samninga sem skipta Íslendinga svo miklu máli.

Ef Bjarni reynist sannspár og álverið í Straumsvík lokar hefði það að líkindum talsverðar afleiðingar í för með sér fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Norðurál er langsamlega stærsti viðskiptavinur Orkuveitunnar og kaupir vel yfir 70% af þeirri raforku sem Orkuveita Reykjavíkur framleiðir. Stærsti raforkusamningur Norðuráls við Orkuveitu Reykjavíkur rennur út árin 2026-2028 og því munu samningaviðræður væntanlega hefjast á næstu árum. Sennilega er fáheyrt að forstjóri orkufyrirtækis tali niður samningsstöðu fyrirtækis síns með þessum hætti í aðdraganda viðræðna. Ef svo færi að Norðurál myndi hætta að kaupa raforku af Orkuveitunni má búast við því að félagið lendi í verulegum fjárhagsvandræðum enda vart öðrum kaupendum til að dreifa nema stóriðju sem stendur. Því má velta upp hvernig Orkuveita Reykjavíkur er að bregðast við stöðunni.

Í raun má segja að eini raunhæfi kosturinn sem leyst geti álver af hólmi sé sæstrengur. Því er merkilegt að Bjarni minnist ekki á þann möguleika þegar hann talar um áhrif lokunar álversins á orkumarkaðinn og hag Orkuveitu Reykjavíkur sem og annarra orkufyrirtækja.

Það er erfitt að átta sig á hvers vegna sæstrengur er ekki til skoðunar af alvöru meðal opinberra aðila hér á landi á meðan einn stærsti kaupandi á raforku á Íslandi segist vera að íhuga að hætta starfsemi. Sé það raunhæfur kostur ætti það í öllu falli að styrkja samningsstöðu íslenskra orkufyrirtækja gagnvart stóriðjunni í þeim viðræðum sem fara munu fram á næstu árum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.