Íslensk stjórnvöld hafa sett fram stefnu um að Ísland verði laust við olíu og bensín árið 2040 og jafnframt því orðið kolefnishlutlaust.

Metnaðarfullt markmið sem krefst þátttöku og samstillingar margra aðila og stuðlar að því að markmið um loftslagsmál náist. Sýnin og markmiðið er skýrt en það er ekki nóg, aðilar þurfa að fylkja sér að baki þeirri leið sem á að fara og ryðja þarf hindrunum úr vegi. Þetta er umbreyting sem gerist ekki í einni svipan og á meðan á yfirfærslunni stendur þarf að að veita áfram þjónustu með jarðefnaeldsneyti en á sama tíma undirbúa nýjan orkuveruleika. Gildir þetta bæði um einkabílinn og ökutæki í atvinnurekstri. Það er áhugavert að taka þátt í þessu umbreytingaferli með hag viðskiptavina að leiðarljósi.

Síbreytileiki

Breytingaferlið er komið af stað, löngunin til þess að nýta tækifærin sem skapast er sterk og viljinn til að klára málin fljótt og vel er einnig sterkur. Öll viljum við fá þjónustu hratt og örugglega, okkur líður ekki vel með að þurfa að bíða eftir afgreiðslu. Breytingar sem orkuskipti óneitanlega eru, er veruleiki sem kallar á skilvirka þjónustu. Þar sem umhverfið tekur ekki eingöngu breytingum heldur taka þarfir viðskiptavinarins einnig breytingum frá einum tíma til annars. Þarfir hans sem neytanda jarðefnaeldsneytis breytast þegar hann verður neytandi rafeldsneytis. Með sterkri fyrirtækjamenningu náum við að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina með skilvirkum hætti.

Skilvirkni

Undir lok heimsfaraldursins kviknuðu fljótlega vangaveltur um hvort ráðstefnur og fundir yrðu áfram haldnar yfir netið eða hvort við kæmum aftur meira saman í raunheimum. Við færumst hratt í átt að fyrra horfi okkur líður betur að vera saman en í sundur en það er mikill ávinningur af því að hafa sveigjanleika. Það eru ákveðnir þættir úr þessu fyrra lífi sem gott er að halda í, nýta þá þjálfun sem var svolítið neydd uppá okkur og þann sveigjanleika sem býðst, s.s. með streyminu eða geta sinnt vinnunni frá fleiri en einni vinnustöð – hafa valið. Lipurt streymi upplýsinga innan fyrirtækja hefur góð áhrif á fyrirtækjamenningu og er undirstaða þess að hvatning og þekking komist til skila með skilvirkri þjónustu, betri vinnu og meiri afköstum.

Drifkraftur

Metnaður og ástríða starfsmanna fyrir því að skila góðu starfi er lykill að árangri. Saman sköpum við góðan vinnustað og forsenda fyrir árangri er samtalið á milli aðila. Þátttaka í mótun vegferðarinnar gerir hana svo miklu skemmtilegri og tryggir að við erum öll að hlaupa á sama hraða í sömu átt. Starfsumhverfið þarf að ögrar okkur á jákvæðan hátt þannig að við verðum orkumeiri, getum betur aðlagast því síbreytilega umhverfi sem við störfum í og komið fram með snjallar og einfaldar lausnir fyrir viðskiptavininn. Ánægja starfsmanna skilar ánægðum viðskiptavinum og saman skila þessir þættir betri rekstarniðurstöðu. Forsenda breytingaferlisins sem nú er í gangi er að þessir þættir séu samstilltir.

Sýn

Starfsmenn með sameiginlega sýn stefna af einlægum hug í sömu átt líkt og þjóðin gerir í málefnum sem snertir hana í heild. Þegar sýnin er ekki til staðar er hætt við sóun. Sterkt dæmi um sameiginlega sýn meðal þjóða var þegar Íslendingar lýstu yfir, árið 1944, sjálfstæði frá Dönum sem þá voru hernumdir af Þjóðverjum. Landsmenn voru einhuga í að Ísland yrði sjálfstætt ríki. Því er eins farið innan veggja fyrirtækja, starfsfólk öðlast ekki sameiginlega sýn nema það trúi á hana og best tekst til ef þeir taka þátt í að móta sýnina.

Breytingar voru, eru og verða

Orkan hefur verið í fararbroddi nýrra lausna á olíumarkaði með það markmið að bjóða besta eldsneytisverðið. Við erum eina félagið á Íslandi sem selur alla 5 orkugjafa bensín, dísel, metan, vetni og rafmagn. Tilflutningur verður milli orkugjafa, en alltaf þarf orku og þar verðum við í fararbroti, vel staðsett um land allt. Við munum áfram bjóða aðra þjónustu, s.s. þvotta- og dekkjaþjónustu, veitingaþjónustu auk bílaapóteks félagsins sem nýtur vaxandi vinsælda.

Hópurinn okkar er samstilltur og með skýra sýn. Við einföldum líf viðskiptavina í samvinnu við samstarfsaðila. Við erum þátttakendur í orkuskiptunum sem við trúum að muni stuðla að bættum lífsgæðum. Þróun frá jarðefnaeldsneytinu yfir í endurnýjanlega orku er einstaklega áhugaverð umbreyting sem við ætlum að nálgast á orkumikinn og snjallan hátt.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember.