Hrafnarnir rákust á undarlega fréttatilkynningu á Vísi í gær. Í henni sagði frá opinberum fundi í hliðarveröld þar sem að Halla Hrund Logadóttir er orkumálaráðherra Íslands í ráðuneyti Ólafs Ragnars Grímssonar.

Orkumálastofnun sendi sum sé frá sér tilkynningu um að Halla Hrund orkustjóri hafi átt opinberan fund með  Santiago Cafiero utanríkisráðherra Argentínu til að ræða loftslagsmál og orkuskipti. Fram kemur í frétt Vísis að orkustjóri hafi ekki látið duga að ræða þessi mál við utanríkisráðherrann heldur hafi hún enn fremur ákveðið að móðga hann með því að strá salt í sár sem stafa af erfiðu atviki úr knattspyrnusögu Argentínu. Hrafnarnir þykjast vissir um að slíkt framferði stangist á háttvísireglur utanríkisráðuneytisins en þær eiga augljóslega ekki við þennan hliðarveruleika þar sem Halla Hrund er orkumálaráðherra Ólafs Ragnars.

MBL0311563
MBL0311563

Í þeim hliðarveruleika hefur orkumálaráðherra meðal annars það hlutverk að vera sendill félagasamtaka. En fram kemur í frétt Vísis að erindi Höllu hafi meðal annars verið að afhenda argentínska utanríkisráðherranum bréf frá Arctic Circle. Þá skrifaði Halla Hrund einnig undir samstarfssamning við argentínska ráðherrann um orkumál.

Hrafnarnir hafa til þessa haldið að starf orkustjóra gengi fyrst og fremst út á að veita eða hafna beiðnum um virkjunarframkvæmdir og hafa eftirlit með orkustarfsemi. Nú er komin skýring á því hversu mikill dráttur hefur verið á slíkum afgreiðslum hjá Orkumálastofnun. Orkumálastjóri er upptekinn enda í fullu starfi sem ráðherra í umboði Ólafs Ragnars Grímssonar.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.