Það er fagnaðarefni að Alþingi hafi loks tekist að rjúfa þá kyrrstöðu sem hefur ríkt um virkjunarmál um árabil með samþykkt breytinga á svokallaðri rammaáætlun.

Breytingarnar fela í stuttu máli helst í því að hægt er að setja þá orkukosti sem eru í nýtingarflokki í gegnum leyfisveitingaferli stjórnsýslunnar, s.s. virkjunarleyfi. Þá ber sveitarfélögum að horfa til rammans við útfærslu á skipulagi og þá breyta skipulagi í samræmi við flokkun orkukosta.

Þarna er verið að stíga mikilvægt skref í átt að því að stjórnvöld takist á við hin mikilvægu verkefni sem felast í orkuskiptum með raunsæjum hætti. Eins og fram kom í skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum sem kynnt var í mars þarf að auka raforkuframleiðslu hér á landi um 124% frá því sem nú er hið minnsta ef ná á markmiðum stjórnvalda um full orkuskipti og að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum og jarðefnaeldsneytislaust Ísland ef ekki á að koma til stórfelldrar skerðingar á lífskjörum hér á landi.

Að óreyndu mætti halda að það væri víðtækur stuðningur meðal landsmanna að ráðist verði í orkuskipti hér á landi með það að markmiði að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum og efla lífskjör og standa vörð um lífsgæði á sama tíma. Íslenska þjóðin er í einstakri stöðu til þess að flétta saman þessi göfugu markmið.

En ekki eru allir sannfærðir. Þannig hafa félagasamtökin Landvernd talað fyrir því að ráðist verði í orkuskipti án þess að raforkuframleiðsla verði aukin. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið eru í raun og veru að leggja til endalok hagvaxtar og að markmið um efnahagslega framþróun verði lögð til hliðar. Enn aðrir myndu segja að þetta væri ígildi þess að landsmenn sættu sig við þau lífskjör sem voru í boði á sjöunda áratugnum.

Málflutningur Landverndar snýr með öðrum orðum að því að hægt sé að nýta raforkuna sem stórnotendur nota nú til orkuskipta innanlands. Sum stjórnmálaöfl og jafnvel einstaka embættismaður í orkugeiranum hefur einnig talað fyrir þessu sjónarmiði. Þessi röksemdafærsla heldur engu vatni.

Raforka er meðal stærstu útflutningsgreina Íslands og ein meginstoða efnahagslífs hér á landi. Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þær gera okkur kleift að kaupa hinar ýmsu nýlenduvörur. Til dæmis rafbíla og rafknúin skip og flugvélar þegar fram líða stundir. Ef Ísland tekur þá ákvörðun að láta af raforkusölu til orkusækins iðnaðar eru engar líkur á því að nægur gjaldeyrir verði til skiptanna til að flytja inn öll rafknúnu farartækin sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Og það sama gildir um þau aðföng sem Íslendingar flytja til landsins til uppbyggingar lífskjarasóknar landsmanna. Enn fremur verður að hafa í huga að samhliða orkuskiptum fiskveiðiflotans eykst útflutningur í raun á raforku enn frekar og þá í formi próteins.

Það er löngu tímabært að sú kyrrstaða sem ríkt hefur um orkuöflun um árabil verði rofin. Að öllum líkindum hafa mörg tækifæri farið nú þegar forgörðum þegar kemur að því að nýta vistvæna raforkuframleiðslu til uppbyggingar og eflingar græns iðnaðar. Samþykkt rammaáætlunarinnar þokar þessum málum í rétta átt. En að sama skapi er ljóst að langt ferli er framundan áður en hægt verður að ráðast í frekari virkjunarframkvæmdir. Það er mikil-vægt að hafa í huga að rammaáætlunin var aldrei hugsuð sem áætlun um vernd eingöngu – þetta er áætlun um vernd og nýtingu. Ef eingöngu og alfarið á að horfa til verndar er rammaáætlunin komin langt út fyrir upphaflegt markmið sitt.

Það er gleðilegt að tekist hefur að afstýra því.

Í framhaldinu er tímabært að umræða um orkuskipti haldist í hendur um hvernig tryggja eigi efnahagslegan framgang hér á landi og bætingu lífskjara til frambúðar. Um það hlýtur að ríkja breið pólitísk sátt þegar allt kemur til alls. Lítið en mikilvægt skref var stigið í þeim efnum á Alþingi í gær.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu 16. júní 2022.