Það virðist vefjast fyrir fréttamönnum Ríkisútvarpsins að auka verði raforkuframleiðslu hér á landi ef orkuskipti eigi ekki að færa lífskjör hér á landi áratugi aftur í tímann. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi í síðustu viku þá virðist fréttastofa Ríkisins upptekin af því að olíunotkun hafi aukist að undanförnu samhliða vaxandi umsvifum í hagkerfinu. Þá velti fréttamaður upp spurningu um hvort ekki væri þörf að fórna hagvexti fyrir minni olíunotkun er hann tók Halldór Þorgeirsson, formann Loftlagsráðs tali.

Það sama var uppi á teningnum í Speglinum í Ríkisútvarpinu á miðvikudaginn í síðustu viku. Þá var rætt við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis- og orkumálaráðherra, eftir ársfund Samorku. Þar spurði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir ráðherra hvort það þyrfti virkilega að auka raforkuframleiðslu til þess að standa undir fyrirhuguðum orkuskiptum. Og bætti svo um betur þegar hún spurði ráðherra hvort ekki þyrfti að leggja til boð og bönn vegna þess að olíunotkun er á ný komin í sömu hæðir og hún var áður en heimsfaraldurinn braust út.

***

Hún vakti ekki sérstaklega mikla athygli frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins á sunnudag. Segir það kannski mörg orð um ástandið í þjóðfélaginu og hversu lítt fréttnæmur galinn fjáraustur stjórnvalda á verðbólgutímum er.

Fréttin fjallaði sem sagt um að áðurnefndur Guðlaugur Þór, umhverfis- og orkumálaráðherra, og ríkisstjórnin hefðu ákveðið að verja einum milljarði í styrki til bílaleigna á árinu. Styrkjunum er ætlað liðka fyrir fjölgun rafbíla í flota bílaleigna.

Þetta verður að teljast undarleg ráðstöfun hjá ríkisstjórn sem rak ríkissjóð með 160 milljarða króna halla í fyrra og útlit er fyrir sambærilega óráðsíu á þessu ári. Þetta vekur einnig upp áleitnar spurningar. Hvers vegna er ríkissjóður að styrkja bílaleigur sem eru margar hverjar stór og öflug fyrirtæki til að kaupa rafbíla í flota sína? Þær hafa til þess að fulla fjárhagslega burði.

Hvað orkuskipti varðar þá er þetta galin aðgerð í sjálfu sér. Eins og lesa má á hinum ágæta vef Orkuskipti skipta bifreiðar ekki miklu máli í hinu stóra samhengi hlutanna þegar kemur að losun jarðefnaeldsneytis hér á landi. Aðeins um 7% losunarinnar koma frá einkabílum. Ríflega helmingur losunar kemur vegna flugvéla og skipaumferð undir fjórðungi og notkun stærri tækja undir 15%.

Þannig að þarna er verið að styrkja blómlegan atvinnuveg sem þarf á engri aðstoð að halda til þess að ná fram markmiðum sem munu litlu máli skipta þegar fram í sækir.

Það er stundum sagt að fjölmiðlar eigi að sýna stjórnvöldum aðhald.

Ljóst má vera að þeir hafa brugðist því hlutverki þegar kemur að hallarekstri ríkisins og áhrifum hans á þróun verðlags og þá verðbólgu sem er nú uppi. Varla líður svo dagur að ekki birtast fréttir um einhvern ráðherra sem er að auka útgjöld til málaflokka af öllum stærðum og gerðum en fátítt er að blaða- og fréttamenn leiti svara við því hvaða áhrif þetta hefur á baráttuna við verðbólguna. Á meðan fjárlagahallinn nemur 4,3% af landsframleiðslu í 6,4% hagvexti þarf enginn að vera hissa á því að engum böndum verði komið á verðbólguna.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 23. mars 2023.