*

þriðjudagur, 22. september 2020
Óðinn
11. september 2020 07:00

Orkuveitan og áhættutakan

„Það sem er ótrúlegast í málinu er hvers vegna það hefur tekið svo langan tíma.“

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Orkuveita Reykjavíkur gerði á árunum 2002-2008 alls 596 afleiðusamninga við Glitni banka og forverann Íslandsbanka. Afleiðusamningarnir voru gjaldeyrisskiptasamningar og vaxtaskiptasamningar.

* * *

Orkuveita Reykjavíkur er í eigu þriggja sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar (93,6%), Akraneskaupstaðar (5,5%) og Borgarbyggðar (0,9%) en eignarhaldið hefur verið óbreytt frá árinu 2002.

í október 2012 krafðist þrotabú Glitnisbanka með stefnu að Orkuveitan greiddi 747 milljónir króna vegna átta afleiðusamninga sem gerðir voru en höfðu ekki verið uppgerðir. Dómur var loks kveðinn upp í sumar, eða 12 árum eftir gerð samninganna. Niðurstaðan var sú að Orkuveitan ætti að greiða stefnufjárhæðina auk dráttarvaxta.

* * *

Galin áhætta fyrir skattgreiðendur
Málið er athyglivert fyrir margra hluta sakir. Grundvallaratriðið var sú stefna sem var mörkuð fyrir margt löngu að Orkuveitan, sem er að grunni til vatnsveita og síðar hitaveita Reykjavíkur, hefði ráðist í stórfellda virkjanauppbyggingu, tekið gríðarleg erlend lán – með ábyrgð borgarsjóðs að hluta, selt stórnotendum orkuna – aðallega í áliðnaði og jafnvel tekið áhættu af álverði. Það er galið að skattgreiðendur í Reykjavík, Borgarnesi og Akranesi séu látnir taka áhættuna af slíkum áhætturekstri.

* * *

Það er einnig sérstakt athugunarefni hversu margir afleiðusamningar voru gerðir. Það er í sjálfu sér skiljanlegt og eðlilegt að Orkuveitan verji gjaldeyrisáhættu sína í ljósi þess að hún skuldsetti sig upp fyrir rjáfur í erlendri mynt. En samkvæmt dómnum virðist þetta ágæta félag hafa verið komið í starfsemi sem á meira skylt við veðmálastarfsemi en gjaldeyrisvarnir.

* * *

Áhætta áhættunefndar
Í áhættunefnd áttu sæti forstjóri, framkvæmdastjóri, fjármálastjóri, sviðstjóri fjár- og áhættustýringar og sviðstjóri fjármálasviðs fyrirtækisins. Að auki naut hún ráðgjafar frá Askar Capital heitnu.

* * *

Það er ljóst samkvæmt dómnum að Orkuveitan hafði tapað verulega á þessum framvirku samningum eftir að krónan fór að veikjast seint á árinu 2007 og til mars 2008 en þá var fjárkreppan einmitt hafin um allan heim.

Í fundargerð áhættunefndar í mars 2008 segir að gjaldeyrir hafi verið seldur framvirkt og fundarmenn hafi virst telja kauptækifæri í krónunni, enda hefði  hún  veikst  talsvert  gagnvart  erlendum gjaldmiðlum.  Í dómnum segir orðrétt:

„Í skýrslunni komi fram að áhættunefnd stefnda hafi þá virst telja að krónan ætti alveg örugglega eftir að styrkjast hratt á ný og að gengistap stefnda ætti því að ganga til baka.“

Þessi spádómur rættist ekki eins og allir vita og gjaldeyristap Orkuveitunnar varð gríðarlegt á stuttum tíma og hafði mikil áhrif á rekstrarhæfi opinbera fyrirtækisins. Bæði vegna stökkbreytinga á lánum en ekki síður vegna þess að stærstur hluti teknanna var í íslenskum krónum en skuldir að mestu í erlendri mynt.

* * *

Veikar varnir
Það kemur á óvart hversu veikar varnir Orkuveitan hefur í málinu. Þær eru í meginatriðum tvær, samkvæmt fréttatilkynningu Orkuveitunnar eftir dómsniðurstöðu. Að Glitnir hafi framselt kröfuna til ríkisins. Og að fjárhagsstaða Glitnis hafi verið svo bágborin á árinu 2008 að fyrirsjáanlegt væri að Glitnir gæti ekki efnt samningana átta.

Dómurinn féllst ekki á þetta frekar en aðrar varnir Orkuveitunnar. Um fyrra atriðið segir í dómnum að Seðlabankinn hafi staðfest að krafan hafi ekki verið framseld Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um stöðuleikaframlag þrotabús Glitnis frá 10. desember 2015. Lögmaður Glitnis sagði hins vegar að ríkissjóður myndi njóta afraksturs málaferlanna. Sem í lögfræði þýðir allt annað en framsal kröfu.

Orkuveitan lét vinna matsgerð á fjárhagsstöðu Glitnis. Dómurinn, sem var skipaður þremur dómurum – tveimur héraðsdómurum og einum endurskoðanda, jarðsöng þessa matsgerð með eftirfarandi orðum:

„Að mati dómsins verður að horfa til þess að hvernig svo sem raunverulegri fjárhagsstöðu stefnanda [Glitnis] var háttað við téða samningsgerð tókst hann með sama hætti og stefndi á hendur að efna skyldur sínar samkvæmt samningunum. Niðurstöður matsgerðarinnar geta þar af leiðandi engin sjálfstæð áhrif haft á skuldbindingargildi þeirra samninga sem mál þetta snýst um, hvorki við gerð þeirra né síðar.“

Matsgerðin kostaði 190 milljónir króna að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt dómi Hérðasdóms. Það er ótrúleg fjárhæð. Sér í lagi þar sem hún var ekki pappírsins virði samkvæmt dómnum, sama hversu góð hún var, þar sem sönnunargildi hennar um atvik málsins var ekkert.

* * *

Fortíð og nútíð
Það er auðvelt að gagnrýna og enn auðveldara að horfa til fortíðar og segja hvað hefði mátt vera öðruvísi. Það er ekki hlutverk opinberra fyrirtækja að standa í áhætturekstri. Það er fyrst og fremst lærdómurinn af þessu máli. Orkuveitan hefði ekki þurft neinar gjaldeyrisvarnir ef ekki hefði komið til þessarar orkuframleiðslu fyrir stórnotendur. Svo má einnig spyrja sig hvort skiptasamningar Orkuveitunnar hafi ekki verið komnir langt út fyrir tilgang sinn, að verja gjaldeyrisáhættu félagsins.

* * *

En færum okkur til nútíðar. Það sem er ótrúlegast í málinu, sem hefur tekið næstum tólf ár og verið fyrir dómi í átta ár, er hvers vegna það hefur tekið svo langan tíma. Ekki verður betur séð af dómnum að þess sé að mestu vegna endalausra tilrauna Orkuveitunnar til að finna varnir. Það kæmi Óðni verulega á óvart ef Landsréttur snýr dómnum við þar sem niðurstaða dómsins er vel ígrunduð og rökstudd.

* * *

Fjórföldun
En hvað þarf Orkuveitan þá að greiða ef málið tapast á æðra dómstigi? Höfuðstóllinn er 747 milljónir króna. Það eru vissulega miklir peningar. En þegar niðurstaða Landsréttar kemur verður krafan komin yfir þrjá milljarða króna með dráttarvöxtum. Og þá er ótalinn lögmannskostnaður og kostnaður við matsgerðina. Því hefur krafan að minnsta kosti fjórfaldast.

Það má því segja að Orkuveitan haldið áfram að taka mikla áhættu með fé eigendanna. Ef hún tapar þá er skaðinn gríðarlegur vegna hárra dráttarvaxta, sem voru að meðaltali um 12% á tímanum. Ef hún tapar þá verður auðvelt að segja að nær hefði verið, í ljósi veikra varna, að nær hefði verið að greiða skuldina með fyrirvara um niðurstöðu dómstóla og fjármagna kröfuna á miklu mun lægri vöxtum.

* * *

Forstjóri Orkuveitunnar var ráðinn í febrúar 2011. Hann ber því ábyrgð á málinu frá þeim tíma og dómsmálinu allan tímann. Ef málið tapast þá hlýtur hann að sæta ábyrgð og segja starfi sínu lausu.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.