*

föstudagur, 16. apríl 2021
Óðinn
3. febrúar 2021 07:20

Orkuveitan og planið um hækkun gjaldskráa

Óðinn veltir því fyrir sér hvort planið um endurreisn fjárhags OR hafi kannski á endanum verið plan um að pissa í skóinn sinn.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Bjarni Bjarnason.

Orkuveita Reykjavíkur virðist vera orðin að einhverju furðufyrirbæri. Þetta fyrrum stolt Reykvíkinga sem áður færði borgarbúum rafmagn og heitt og kalt vatn á bestu kjörum sem völ var á virðist ekki gera nokkuð annað en að okra, klúðra og koma sér í klandur. Sem enginn virðist ætla að taka ábyrgð á.

                                                                               ***

Skipuritið og lögin

Orkuveitan er einhvers konar stjórnar- og eignarhaldsfélag utan um dótturfélög, sem ýmist eru í samkeppnisstarfsemi á markaði, eins og Orka náttúrunnar (ON) og ON Power, eða sérleyfisstarfsemi í þjónustu við almenning, eins og Veitur, og eiga samkvæmt lögum að vera fyllilega aðskilin.

                                                                               ***

Skipurit Orkuveitunnar lýsir því vel hvernig fyrirtækin, eins og ON, Veitur, Gagnaveitan og Carbfix eru í raun einhvers konar deildir innan Orkuveitusamsteypunnar þar sem stjórnarhættir og stefna ganga þvert á dótturfélögin. Þetta fyrirkomulag eitt og sér vekur upp spurningar um hvernig stjórnarhættir geti í raun samræmst framkvæmd raforkulaga en í mörgum greinum laganna er talað um bókhaldslegan aðskilnað á ólíkri starfsemi.

                                                                               ***

Tökum dæmi úr 7. gr. raforkulaga frá 2003, nr. 65 27. mars,   um starfsemi og skyldur vinnslufyrirtækis:

                                                                               ***

„Heimilt er vinnslufyrirtæki að stunda sérleyfisstarfsemi en óheimilt er því að niðurgreiða vinnsluna með sérleyfisstarfseminni eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu. Vinnslufyrirtæki skulu í bókhaldi sínu halda reikningum fyrir vinnslustarfsemi aðskildum frá annarri starfsemi. [Starfræki vinnslufyrirtæki jarðvarmaorkuver sem bæði vinnur raforku og aðra orku, svo sem heitt vatn eða gufu, skal fyrirtækið í bókhaldi sínu halda reikningum vegna vinnslu raforku aðskildum frá reikningum vegna annarrar vinnslu. Sé hitaveita sem hefur einkaleyfi til starfsemi sinnar háð orkuöflun frá slíku jarðvarmaorkuveri ber því skylda til að afhenda hitaveitu varmaorku í samræmi við þarfir hennar til að sinna skyldum sínum og afkastagetu jarðvarmaorkuversins...]."

                                                                               ***

Nánar um þetta síðar.

Aftur til fortíðar - um hálfa öld?

Orkuveitan hefur ítrekað sent frá sér tilkynningar um yfirvofandi heitavatnsskort vegna kulda. Árni Gunnarsson, fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur, rekur í tveimur merkilegum greinum í Fréttablaðinu fyrir áramót þá ótrúlegu stöðu að Orkuveitan geti ekki fullnægt hitaþörf almennings í þekktum kuldatíðum sem ganga yfir landið og standa yfir í nokkra daga.

                                                                               ***

Árni bendir á að rúm hálf öld er síðan heitavatnsskortur varð í Reykjavík, þar til nú. „Takið eftir nú er árið 2020. Síðast tæmdust miðlunargeymar Hitaveitunnar 4. janúar 1968, fyrir meira en hálfri öld. Spurt er, hvernig getur það staðist að aflgeta Hitaveitunnar nægir nú ekki til að standa undir álagi þegar frost er úti samfellt í nokkra daga? Á sama tíma hefur veitan aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeislaðri svo ekki sé minnst á þá sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu langt umfram þarfir hitaveitunnar. Eigendur Hitaveitunnar eiga rétt á að vera upplýstir um hvers vegna hún hefur hafnað í þessari ótrúlega slæmu stöðu að geta ekki í kuldatíð fullnægt hitaþörf notenda. Þessi staða er uppkomin, þrátt fyrir að gjaldskrá hitaveitunnar er nú hærri borin saman við helstu hitaveitur landsins. Sú var tíðin að gjaldskrá Hitaveitunnar var lægst."

                                                                               ***

Engin fullnægjandi svör hafa fengist við þessum spurningum.

Ónýtt orkuveituhús?

Orkuveituhúsið fór á sínum tíma langt fram úr áætlunum með tilheyrandi innfluttum sænskum hallartrjám og grænmetisþvottavélum. Nú þarf að gera húsið upp fyrir milljarða króna vegna myglu og rakaskemmda. Margir starfsmenn urðu að hverfa frá vinnu og eins og fullyrt var í Kveiksþætti í Ríkisútvarpinu í nóvember höfðu umkvartanir þeirra um veikindi vegna raka litlu skilað og að þeim hafi mætt fálæti af hálfu stjórnenda. Húsið var „selt" fjárfestum sem tóku enga áhættu af ástandi hússins. Orkuveitan  leigði svo  húsið og má teljast fordæmalaust að leigutaki beri ábyrgð á viðhaldi og viðgerðum á eign og þá sérstaklega ytra byrði húss.  Orkuveitan eignaðist húsið að lokum aftur. Hvað ætli þessir snúningar allir hafi kostað félagið?  Var salan á orkuveituhúsinu ekki í raun útgáfa á óhagstæðu skuldabréfi fyrir Orkuveituna?

                                                                               ***

Tíu vikna „stormur í vatnsglasi"?

Allt ætlaði um koll að keyra í Orkuveitunni á tímum Metoo þegar konu í stjórnunarstöðu var sagt upp störfum. Þáverandi framkvæmdastjóri ON var rekinn fyrirvaralaust að því er virðist fyrir það eitt að hafa sent brandara í tölvupósti um spandex í hjólreiðum á konur í fyrirtækinu. Staðgengill hans var sömuleiðis sendur í leyfi, sem ekkert tilefni var til, og forstjórinn þurfti tímabundið frá að hverfa til að koma á starfsfriði í húsinu. Fyrrverandi borgarritari var ráðinn til að setja í gang allsherjar rannsókn á starfsmannamálum og vinnustaðamenningu Orkuveitunnar, sem lauk með einum halelúja fundi í beinni útsendingu, að hætti R-listans sáluga, um að allt hafi þetta verið „stormur í vatnsglasi" sem stóð þó yfir í 10 vikur. Brottrekinn framkvæmdastjóri ON fékk ekki að snúa aftur, sem hafði þó samkvæmt rannsókninni staðið rétt að uppsögn stjórnandans sem stormurinn fór um.

                                                                               ***

Umhverfisslys í Andakílsá?

Umhverfisslys varð í Andakílsá þegar fyrirvaralaust var hleypt úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar ON um botnlokur með tilheyrandi tjóni á lífríki árinnar og laxveiði. Orkustofnun komst að því að ON hefði brotið vatnalög með tæmingu lónsins. Laxveiðin virðist að vísu hafa verið endurvakin með farsælum aðgerðum Hafró, SVFR og landeigenda en hvað ætli það hafi kostað almenning í Reykjavík?

                                                                               ***

Árbæjarlón tæmt?

Orkuveitan virðist vera komin með sérstakt blæti fyrir tæmingu lóna og tók sig til á síðasta ári, án samráðs eða samtals við Árbæinga, að tæma Árbæjarlón í Elliðaárnar þannig að eftir stendur aur og leðja í hjarta Ábæjar þar sem áður var fjölbreytt fuglalíf. Engin skýring hefur fengist á þeim asa öllum og af hverju ekki mátti ræða málið við nágranna og íbúa svæðisins og ná sáttum um þetta mál.

                                                                               ***

Saurgerlamengun í sjósundi?

Enn eitt umhverfisslysið varð hjá Orkuveitunni þegar bilanir í skólpdælustöð í Vesturbæ Reykjavíkur urðu til þess að gígantískt magn af skólpi með tilheyrandi heilsuspillandi saurgerlamengun flæddi óhindrað í sjóinn og við fjörur Ægisíðu þar sem leikskólabörn rannsaka lífríkið og sjósundog brettafólk hefst við. Það sem alvarlegast er að Orkuveitan vissi vel af þessu en tilkynnti ekki um þetta þannig að leikskólabörnum og öðrum stóð hætta af. Það var ekki fyrr en nágrannar fóru að undrast gríðarlegan fjölda fugls, aðallega mávs, sem upp komst um málið.

                                                                               ***

Háskóli Íslands á floti?

Vatn Orkuveitunnar sem nemur heilli Laugardalslaug rann óhindrað í um klukkutíma inn í fjölmargar byggingar Háskóla Íslands á dögunum þar sem starfsemi hundraða nemenda hefur raskast og tjón nemur hundruðum milljóna króna.

                                                                               ***

Eitt er að lögn gefi sig en annað snýr að viðbrögðunum, hvernig gat vatnið flætt óhindrað allan þennan tíma áður en skrúfað var fyrir? Þekkingarleysi og viðvaningsháttur Veitna virtist svo fullkomnaður þegar félagið hélt því fram í tilkynningu að það væri á verksviði tryggingafélaga að skera úr um bótaábyrgð en ekki Veitna. Það er ekki tryggingafélaga að skera úr um bótaábyrgð í svona málum, tryggingafélög skera úr um hvort þau bæti tjón samkvæmt tryggingum. Það kann svo að vera hlutverk dómstóla að skera úr um bótaábyrgðina ef aðilar ná ekki saman.

                                                                               ***

Virðist þetta vera í annað sinn á skömmum tíma sem stór vatnsæð í Reykjavík fer í sundur en ein aðalæð hitaveitunnar í Reykjavík fór í sundur við Bústaðaveg fyrir aðeins ári síðan sem olli heitavatnsleysi í öllum Vesturbænum.

                                                                               ***

Hvað veldur? Getur verið að þessar bilanir allar tengist niðurskurði í nauðsynlegu viðhaldi og fjárfestingum? Leiðir það okkur að „Planinu" svokallaða.

„Plan" um að pissa í skóinn sinn?

Í ljósi þessara endurteknu bilanna í veitukerfum borgarbúa má rifja upp að árið 2017 hrósuðu stjórnendur Orkuveitunnar sigri yfir að „Planið" um endurreisn fjárhags félagsins hefði gengið upp, meðal annars með því hafa skorið niður fjárfestingar og frestað viðhaldi í innviðum um 20 milljarða króna. Var „Planið" hjá Orkuveitunni á endanum kannski bara plan um að pissa í skóinn sinn?

                                                                               ***

Annað sem stjórnendur Orkuveitunnar hrósuðu sér fyrir var að hafa „leiðrétt" gjaldskrár um yfir 10 milljarða og töluvert umfram upphaflegar áætlanir. Það voru auðvitað ekkert annað en hækkanir.

                                                                               ***

Eins og sést á óháðum verðsamanburði milli raforkusala á Aurbjörg.is er ON núna með nær hæsta raforkuverðið á markaðnum 8,10 kr./kWst. og 13% hærra en lægsta verðið, sem Íslensk orkumiðlun býður á 7,15 kr./kWst. Svipaða sögu er að segja af veituhlutanum en eins og fyrrverandi yfirverkfræðingurinn bendir á er sú gjaldskrá hærri en hjá mörgum öðrum hitaveitum landsins.

                                                                               ***

Var gjaldskrá Orkuveitunnar á stóriðju Norðuráls hækkuð á sama tíma?

Niðurgreiðir sérleyfi stóriðju?

Eins og hefur komið fram í ársreikningum hefur Orkustofnun ítrekað hafnað skiptingu Orkuveitunnar á sameiginlegum kostnaði dótturfélaga sinna þar sem bæði er framleidd raforka, sem að langmestu fer til stóriðju Norðuráls, og heitt vatn fyrir íbúa. Vekur það upp margar spurningar. Er sérleyfisreksturinn, eins og heita vatnið, að styðja við afkomu samstæðunnar vegna bágrar afkomu samkeppnishluta ON? Vitað er að raforkuverð í samningum Orkuveitunnar við Norðurál er tengt álverði, sem hefur sveiflast mjög, verð hefur verið lágt undanfarin misseri og umtalsvert lægra en væntingar stóðu til þegar samið var. Er tryggt að rekstrareiningar Orkuveitunnar, sem eru að veita almenningi þjónustu eins og heitt vatn, séu ekki að niðurgreiða raforkuverð til stóriðju í landinu?

                                                                               ***

Starfsmannavæðing stjórna?

Starfsmenn Orkuveitunnar hafa verið skipaðir í stjórnir dótturfélaganna, sem sinna ólíkum hlutverkum eins og ON í samkeppnisrekstri rafmagns og Veitur í sérleyfisrekstri vatns og innviða. Í dótturfélögunum sitja starfsmenn Orkuveitunnar í meirihluta, sem allir heyra undir sama forstjórann. Sama fjármáladeildin virðist hafa umsjón með öllum félögunum. Er þetta í samræmi við lög?

                                                                               ***

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu?

Samkeppniseftirlitið hefur nú hafið formlega rannsókn á ON um sölu, uppsetningu og þjónustu á hleðslustöðvum og hleðslum fyrir rafbíla. Ísorka, sem selur hleðslustöðvar, sendi kæru í á annað hundrað liðum og sakar ON um að nota markaðsráðandi stöðu á raforkumarkaði til að koma sér í einokunarstöðu á miðlun rafmagns til rafbíla. Af hverju er opinbert þjónustufyrirtæki að standa í slíkum samkeppnisrekstri?

                                                                               ***

Dráttarvextir dregnir gegnum dómsmál?

Síðasta sumar var Orkuveitan dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúi Glitnis 740 milljónir króna auk dráttarvaxta, sem að mati Viðskiptablaðsins gera kröfuna nær því að vera þrír milljarðar króna! Við það bætist málskostnaður samkvæmt dómsorði, 15 milljónir króna, málskostnaður Orkuveitunnar vegna starfa lögmanns félagsins í málinu og kostnaður vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem getur numið tugum milljóna króna. Lífeyrissjóðir og aðrir hafa fyrir löngu samið í sambærilegum málum. Hver eru rökin fyrir því að Orkuveitan er að reka svona mál fyrir dómstólum í yfir átta ár með tilheyrandi áhættu og kostnaði?

                                                                               ***

Hvað er að frétta úr Ráðhúsi Reykjavíkur?

Þess má geta að Brynhildur Davíðsdóttir hefur verið formaður stjórnar Orkuveitunnar frá 2016 og setið í stjórn frá 2010. Og Bjarni Bjarnason hefur verið forstjóri í að verða 10 ár. Það þýðir því lítið fyrir það ágæta fólk að vísa á forvera sína.

                                                                               ***

Er nema von að spurt sé. Hvert er aðhald og hver er ábyrgð borgarstjórans Dags B. Eggertssonar og meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, eiganda Orkuveitunnar, sem hefur verið undir forystu sömu stjórnmálaflokka í 10 ár? Er rekstur og þjónusta Orkuveitunnar og dótturfélaga hennar við almenning bara einkamál Bjarna Bjarnasonar forstjóra og starfsmanna hans? Og úr því að spurt er um aðhald, hefur einhver frétt til áhuga minnihlutans í borgarstjórn á þessum málum?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.