*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
18. desember 2020 12:09

Örlítill grenjandi minnihluti

Viðskiptablaðinu er umhugað um varðveislu íslenskrar náttúru en vanda þarf til verka svo taka megi upplýsta ákvörðun um stofnun hálendisþjóðgarðs.

Mikilvægi þess að varðveita íslenska náttúru er nokkuð sem þjóðin er sameinuð um, þjóðgarðurinn ekki.
Andrea Sigurðardóttir

Mikilvægi þess að varðveita íslenska náttúru er nokkuð sem þjóðin er sameinuð um, þótt ólíkar skoðanir séu hvernig staðið skuli að því. Hugmyndir vinstrimanna um stofnun hálendisþjóðgarðs sem tekur til ríflega þriðjungs landsins hafa verið gagnrýndar, en gagnrýnendur hafa vinstrimenn kosið að kalla örlítinn grenjandi minnihluta. Á meðal vælukjóa má til dæmis nefna ýmis sveitarfélög, félagasamtök, útivistarunnendur og orkuframleiðendur, og nú bætist Viðskiptablaðið í grátkórinn.

Svo er helst að skilja að frumvarpi til laga um hálendisþjóðgarð sé einkum ætlað að auka miðstýringu og koma í veg fyrir frekari auðlindanýtingu á svæðinu. Með þjóðgarðinum mun skipulag og stjórnsýsla svæða, sem nú heyra undir lýðræðislega kjörna fulltrúa sveitarfélaganna, færast undir stjórnir og ráð þjóðgarðsins.

Áformin eru í takt við linnulausa útþenslu hins opinbera, en hálendisþjóðgarðurinn kemur til með að verða gríðarlegt bákn. Í stjórnum og ráðum þjóðgarðsins verða að minnsta kosti 65 einstaklingar, auk forstjóra þjóðgarðsins. Þar á meðal verða fulltrúar sveitarfélaga, ýmissa félagasamtaka og embættismenn.

Rekstrarsvæðin verða að minnsta kosti sex, og eiga hið minnsta ellefu manns sæti í stjórn hvers rekstrarsvæðis, þar af einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi sem svæðinu tilheyrir. Þannig mun hvert sveitarfélag koma til með að eiga einn fulltrúa í ellefu manna stjórn svæðisins og því óhætt að fullyrða að sveitarfélög verði því sem næst áhrifalaus um ákvarðanir um eignir sínar innan þjóðgarðsmarka.

Ljóst er að rekstrarkostnaður hins fyrirhugaða bákns verður mikill, en hve mikill er ekki vitað, enda liggur ítarleg fjárhagsáætlun ekki fyrir. Þau fögru fyrirheit að þjóðgarðurinn feli í sér mikla þjóðhagslega hagkvæmi hafa verið harðlega gagnrýnd. Þannig hefur verið bent á að líklega séu tekjumöguleikar fjölmargra svæða ofmetnir. Reynsla af fjármála(ó)stjórn þeirra þjóðgarða sem nú þegar eru í rekstri gefur síst tilefni til bjartsýni og ef að líkum lætur koma skattgreiðendur til með að borga brúsann.

Þá vekur athygli hve mikið vald, sem áður var dreift á sveitarfélögin og nokkur hundruð kjörna fulltrúa þeirra, færist í raun á hendur eins ráðherra. Ráðherra fær töluvert ákvörðunarvald í krafti laganna, sem eftirláta honum að ákvarða með reglugerðum um veigamikil hagsmunamál. Þannig kemur hann meðal annars til með að setja reglur um mörk svæða og stækkanir þeirra, efni stjórnunar- og verndaráætlunar og málsmeðferð við gerð og staðfestingu hennar,  gjaldtöku, dvöl, umgengni og umferð, takmarkanir á og skilyrði fyrir atvinnustarfsemi, og lokanir svæða.

Ekki hefur verið framkvæmd víðtæk hagsmunagreining vegna áforma um stofnun þjóðgarðsins og af umsögnum við frumvarpsdrög á fyrri stigum að dæma, virðist mikil óvissa uppi um rekstur og framþróun orkuvinnslu á svæðinu, en um tveir þriðju hlutar raforkuvinnslu eru á miðhálendinu auk þess sem um það liggja flutningslínur. Nú þegar orkuskipti eru í farvatninu á alþjóðavísu og Ísland þar í lykilstöðu með allar sínar endurnýjanlegu orkuauðlindir, auk þess sem vindorka er enn nánast ónýtt auðlind hér á landi, er mikilvægt að tryggja að orkuvinnslu séu ekki of þröngar skorður settar.

Vert er að leiða hugann að því hvort ekki megi ná fram markmiðum um umhverfisvernd og friðlýsingu viðkvæmra svæða með vægari og hagkvæmari leiðum. Ef markmiðið er að loka og koma í veg fyrir auðlindanýtingu á ákveðnum svæðum á hálendinu, ætti einfaldlega að vera hægt að ná þeim fram með friðlýsingum, án þess að svæðið í heild sinni sé stofnanavætt. Þannig gæti skipulag og stjórnsýsla að öðru leyti heyrt undir sveitarfélögin sjálf, enda eðlilegast að íbúar á hverju svæði geti haft raunveruleg áhrif á ákvarðanir er varða þeirra nærumhverfi.

Viðskiptablaðinu er að sjálfsögðu umhugað um íslenska náttúru og varðveislu hennar, en bendir á að kapp er best með forsjá. Mikilvægt er að ítarlegri greiningar liggi fyrir með ákvörðun um stofnun hálendisþjóðgarðs, ekki síst hvað varðar fjármögnun stofnunar og reksturs þjóðgarðsins, alla þá mikilvægu hagsmuni sem undir eru og hvort markmiðum lagasetningarinnar og sáttum hagsmunaaðila megi ná fram með öðrum hagkvæmari leiðum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.