*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Leiðari
8. júlí 2021 19:35

Óskabörn þjóðarinnar

Hversu vel tekst að hlúa að sprotunum okkar og stuðla að vexti þeirra mun hafa mikil áhrif á verðmætasköpun, og þar með lífskjör landsmanna, til framtíðar.

epa

Þegar kórónukreppan skall á hrikti duglega í sotðum íslensks efnahagslífs og hefur hún þjónað sem áminning um mikilvægi þess að hagkerfi þjóðarinnar hvíli á fjölbreyttum stoðum – ekki síst fjölbreyttum útflutningsgreinum – svo að dreifa megi áhættu þjóðarbúsins sem mest. 

Fyrir farsóttina sá fólk vissulega fram á að sveiflur gætu orðið í ferðaþjónustu hér á landi, en sennilega voru þau ekki mörg sem ímynduðu sér að greinin myndi svo gott sem leggjast af í einu vetfangi. Þrátt fyrir að flestar aðrar greinar héldu velli í faraldrinum, og jafnvel blómstruðu, voru afleiðingar hennar miklar, aðallega vegna þess hve mikið vægi ferðaþjónusta hefur í íslenska hagkerfinu. Þetta hefur orðið til þess að umræða um þau tækifæri sem felast í íslensku hugviti hefur fengið byr undir báða vængi. Ólíkt flestum útflutningsgreinum okkar byggir hugvit ekki á takmörkuðum náttúruauðlindum og eru möguleikarnir því ótakmarkaðir. Í þessu samhengi er óhætt að mæla með lestri skýrslu Viðskiptaþings „Hugsum stærra“.

Það hve vel okkur tekst að hlúa að sprotunum okkar og stuðla að vexti þeirra mun hafa mikil áhrif á verðmætasköpun, og þar með lífskjör landsmanna, til framtíðar. Mikil gróska er til staðar í íslensku hugviti, en til þess að sprotarnir geti vaxið og dafnað þurfa þeir aðgengi að fjármagni. Í viðtali í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar bendir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, á að sparnaðarstig hér á landi sé það hæsta í heiminum og hve þýðingarmikið það sé fyrir íslenskt efnahagslíf að hinn mikli sparnaður megi nýtast sem fjárfesting í nýsköpun. Þannig megi best stuðla að því að íslenskir sprotar vaxi og dafni hér á landi, líkt og Össur og Marel hafa gert, og við njótum öll uppskerunnar.

Viðskiptablaðið tekur heilshugar undir orð Marinós. Öflugur hlutabréfamarkaður getur stutt við vöxt nýsköpunarfyrirtækja, líkt og hann hefur gert í tilfellum Marels og Össurar. Á þeim tíma þegar þessi óskabörn þjóðarinnar voru skráð á hlutabréfamarkað var þátttaka almennings á markaðnum umtalsvert meiri en hún hefur verið undanfarin ár. Sem dæmi nam velta Marels um 410 milljónum króna þegar félagið var skráð á markað hér á landi árið 1992 en velta félagsins hefur vaxið ævintýralega síðan þá og á síðasta ári nam hún vel á annað hundrað milljarða.

Í þessu samhengi hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með hverju vel heppnaða hlutafjárútboðinu á fætur öðru undanfarið. Þátttakendur í útboði Icelandair voru um 9 þúsund, í útboði Síldarvinnslunnar um 7 þúsund, Íslandsbanka um 24 þúsund, í Play tæplega 5 þúsund og loks tæplega 3 þúsund í útboði Solid Clouds. Þetta hefur leitt af sér stóraukna þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði, en samkvæmt nýjustu tölum frá Nasdaq verðbréfamiðstöð eiga yfir 32 þúsund einstaklingar hlut í félagi sem er skráð í íslensku kauphöllina, eða um 9% af heildaríbúafjölda Íslands. Til samanburðar voru einstaklingarnir um 8 þúsund í lok árs 2019, eða um 2,5% af íbúafjölda.

Tvö þessara félaga, Play og Solid Clouds, eru á leið á First North vaxtarmarkaðinn. Hve vel tókst til að virkja almenning til þátttöku í útboðum félaganna vekur vonir um að fleiri vaxtarfélög sjái tækifæri í því að sækja fjármagn á markaðinn og að almenningur sjái sömuleiðis áfram tækifæri í fjárfestingum í nýsköpun. Vaxtarmarkaðir hafa verið að sækja í sig veðrið í mörgum þeirra landa sem við viljum helst bera okkur saman við og ljóst er að öflugur íslenskur vaxtarmarkaður getur gegnt lykilhlutverki í samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum greinum.

En með sama hætti og íslenskt efnahagslíf þarf að gæta þess að vera ekki með of mörg egg í sömu körfunni er ástæða til þess að minna á að það sama gildir um fjárfesta. Fjárfesting í hlutabréfum felur í sér áhættu og því er mikilvægt að huga að góðri dreifingu sparnaðar til þess að lágmarka hana. Fyrir þau sem ekki hafa mikla reynslu eða þekkingu á mörkuðum er ætíð skynsamlegt að sækja sér ráðgjöf og þá gæti verið vert að skoða þann möguleika að fjárfesta einfaldlega í sjóðum og fela þannig sérfræðingum að fjárfesta sparnaðinum í dreifðum eignum. Í því getur jafnframt falist töluvert fjárhagslegt hagræði, enda ber einstaklingur sem sinnir sjálfur kaupum og sölu bréfa sinna ákveðinn kostnað við hver viðskipti sem sjóðir gera ekki, auk þess sem einstaklingurinn þarf að greiða fjármagnstekjuskatt af hagnaði við hverja sölu, en sjóðir ekki.

Hvað sem því líður vonar Viðskiptablaðið að áhugi almennings á hlutabréfamarkaði haldi áfram að vaxa og megi til framtíðar verða liður í því að efla nýsköpun, auka fjölbreytileika stoða íslensks efnahagslífs og bæta lífskjör hér á landi enn frekar. Það verður spennandi að fylgjast með vegferð þeirra fjölmörgu sprota sem eru að skjóta rótum og hvort þeirra á meðal leynist ekki næsta óskabarn þjóðarinnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.