*

föstudagur, 13. desember 2019
Týr
5. maí 2019 18:01

Óskalandið

Fyrsti maí kom og leið og enn einu sinni getur stórkapítalið fagnað því að ekki kom hún byltingin.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Haraldur Guðjónsson

Fyrsti maí kom og leið og enn einu sinni getur stórkapítalið fagnað því að ekki kom hún byltingin. Eiginlega alls ekki, þó mönnum hafi ekki öllum litist á blikuna þegar byltingaröflin hófu valdatöku sína í verkalýðshreyfingunni og boðuðu harðvítug verkföll og ofboðslegar kröfur, nánast með meiri áherslu á átökin en ávinninginn.

* * *

En svo var bara samið (takk, Wow!) og samningarnir vonandi viðunandi, þó ekki hafi þeir verið kostnaðarlausir. Hið gleðilegasta við þá - svona fyrir utan það að vinnufriður hélst og ferðamenn ekki flæmdir frá landinu - var þó líkast til það, að með því var steininum velt frá gröfinni og út gekk Salek eins og ekkert hefði í skorist. Mjög páskalegt allt.

* * *

Auðvitað má velta því fyrir sér til hvers allar byltingarnar og hreinsanirnar í verkó voru þá gerðar og fyrri forystumenn settir á sorphaug sögunnar. Voru þetta ekki einmitt samningar að þeirra forskrift?

* * *

Byltingarnar áttu sér samt sem áður stað og þær éta alltaf börnin sín. Það er t.d. stórmerkilegt að lesa umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um 3. orkupakkann, sem það leggst öndvert gegn og telur feigðarflan. Nú er engin goðgá að vera á móti orkupakkanum, hann er umdeilanlegur til og frá. En forsendur ASÍ eru grímulaus andstaða við frjáls markaðsviðskipti og krafa um að þær ef ekki allar „grunnstoðir eigi að vera í samfélagslegri eigu og undanskildar markaðslögmálunum".

* * *

Þarna er auðvitað á ferðinni ákveðinn misskilningur. Nú kann mögulega að vera gríðarleg stemning fyrir því að tilteknar grunnstoðir (orka, vatn, matvæli, skór, húsnæði, flugsamgöngur...?) séu í samfélagslegri eigu, en þá má koma því þannig fyrir eins og víða hefur verið reynt með misjöfnum árangri. En þar með er ekki sagt að ekki megi vera frjáls viðskipti með afurðirnar. Raunar sérstök ástæða til, eins og Trotský sjálfur benti á og hin nýja verkalýðsforysta hlýtur að lesa reglulega.

* * *

Þetta er merkilegra fyrir það, að með þessu kúvendir ASÍ um stefnu, því til þessa hefur það hvatt til þess að raforka lúti lögmálum markaðarins og helst haft af því áhyggjur að samkeppnin verði ekki nógu mikil og að neytendur kunni að gjalda fákeppni. Týr býður spenntur eftir næstu tillögum Drífu Snædal um sovétvæðingu Íslands.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.