Óendanlegar tafir á skilum Ríkisendurskoðunar á Íslandsbankaskýrslunni hafa vakið bæði undrun og spennu, ekki þá síst hvort í henni muni felast ábendingar um pólitísk afskipti.

Varla verður þar þó minna fjallað um frammistöðu Íslandsbanka sjálfs, tiltekinna söluráðgjafa að ógleymdri Bankasýslunni, sem þótti hafa misst sjónar á boltanum. Innan úr stjórnsýslunni er maldað í móinn og sagt að skilin á skýrslunni séu mjög eins og við mátti búast, tafirnar megi fremur rekja til alls ógrundvallaðrar, eiginlega óskiljanlegrar bjartsýni hins glænýja ríkisendurskoðanda, Guðmundar Björgvins Helgasonar, á því hversu hratt mætti vinna svo flókna, opinbera skýrslu, hvað þá yfir hásumarið. Ekki hafi bætt úr skák að embættið hafi að undanförnu misst ýmsa lykilmenn og þá hafi verið áfall þegar Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, hætti sérfræðiráðgjöf við úttektina í maí eftir að Bankasýslan gerði skriflega athugasemd við að hann hefði látið sér líka eitthvað um málið á Facebook. Í stað hans var fenginn til ráðgjafar Jón Þór Sturluson, sem mun síður en svo hafa flýtt fyrir vinnslu skýrslunnar.

Margir furðuðu sig raunar á þeirri ráðstöfun, því aðkoma hans væri til þess eins fallin að vekja spurningar um pólitíkina. Jón Þór var eins og menn muna aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, bankamálaráðherra Samfylkingarinnar, í bankahruninu og um störf hans hjá Fjármálaeftirlitinu voru skiptar skoðanir svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Litlar líkur eru taldar á skýrslunni hérna megin mánaðamóta, en enn og aftur er lofað að hún komi „örugglega í næsta mánuði“.Þó eru dæmi um að Jón Þór gerist hamhleypa til verka og má í því samhengi nefna fund hans og Björgvins bankamálaráðherra með Alastair Darling hinn 2. september 2008. Hann stóð stutt yfir enda lá þeim félögum á að komast á tónleika með Sex Pistols í Hammersmith Apollo.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist íViðskiptablaðinu sem kom út 29. september 2022.