Hrafnarnir ráku upp stór augu í vikunni þegar sagt var frá því að Birgitta Jónsdóttir – sem þessa dagana er pólitískur hælisleitandi hjá Sósíalistaflokknum – væri nú komin á lista hjá hinu nýstofnaða framboði Besta borgin.

Tilfærsla Birgittu þyrfti svosem ekki að koma á óvart, enda yrði þetta fimmti flokkur hennar á rúmum áratug. Enn síður kom þó kannski hið rétta á óvart; að nýframboðið hefði skilað inn falsaðri undirskrift, enda komst flokkurinn eftirminnilega í hann krappan þegar oddvitinn Gunnar H. Gunnarsson mætti ósofinn og gagnalaus í ráðhúsið rétt fyrir framboðsfrestinn.

Gunnar segist ekki vita hvernig nafn Birgittu endaði á listanum, en hrafnarnir velta því fyrir sér hvort ástand sem hann lýsti sem „ósofinn og veit bara ekkert hvað ég er að gera“ á fimmta degi vöku hafi haft eitthvað með undirskriftina dularfullu sem fannst á elleftu stundu að gera.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér