Eitt helsta hlutverk fjölmiðla er að segja fólki fréttir: Finna þær, greina hismið frá kjarnanum, spyrja réttu spurninganna og helst að leiða þær til lykta. Ekki almælt tíðindi, áróður eða auglýsingar, heldur fréttir.

Oftast dugir að nota háin heilögu, sem öllum blaðamönnum er kennt þegar þeir stíga sín fyrstu skref á ritvellinum: Hver, hvað, hverjum; hvenær og hvar; hvernig og hversvegna? Stundum finnst manni þó kannski vanta eitt háið í viðbót: „Ha?!“

Það á við þegar maður rekst á fréttir, sem geta verið ágætar svo langt sem þær ná, nema hvað þær ná ekki nógu langt. Vegna þess að það vantar eitthvað í þær, þar hafa verið skildar eftir óspurðar spurningar.

Nú er það auðvitað svo að fréttir eru ekki alltaf tæmdar í einni atrennu. Stundum eru þær enn að gerast þegar fréttirnar eru sagðar, aðrar eru svo flóknar að þær þarf að búta niður, leyfa þeim að eiga eðlilega framvindu og þar fram eftir götum.

En það er verra þegar það er ekkert framhald og spurningarnar augljósu koma aldrei, hvað þá svörin. Stundum getur manni fundist það vera til marks um sérstaka óforvitni eða fattleysi við- komandi blaðamanns, en það er þá á færi annarra miðla að fylgja málinu eftir og spyrja þessara spurninga, sem skildar voru eftir hjá keppinautunum.

En hvað skal segja þegar aðrir fjölmiðlar láta þær líka fram hjá sér fara?

* * *

Fyrir sléttri viku var forsíðufrétt viðskiptakálfs Mogga um verðmæti félagsins Alvogen. Það er flókið mál, sem deilt er um fyrir héraðsdómi, en í skemmstu máli snýst það um að einn af viðskiptafélögum Róberts Wessman sakar hann um að hafa hlunnfarið sig í sérkennilegri eignarhaldsfléttu 2009-10, þar sem verðmæti Alvogen virðist hafa verið mjög á reiki. Þar greinir stefnanda og stefndu á eins og gengur, en aðalfréttin hlýtur þó að vera að félagið var þá metið á ekki minna en 2 milljarða króna, samt var það selt á 1,6 milljónir króna. Stefán E. Stefánsson, blaðamaður Morgunblaðsins, spurðist fyrir um þann mun, en gerði sér að góðu svar um að óvissa hefði ríkt um stöðu hins unga og óreynda félags! Um þann 1.998.400.000 kr. mun er svo ekkert spurt frekar. Það hafa aðrir miðlar ekki heldur gert, sem er með nokkrum ólíkindum.

* * *

Fyrst maður er byrjaður að nota stór orð eins og milljarða og eignarhaldsfléttur blasir Borgunarmálið við, en í Fréttablaðinu í gær mátti lesa um margt ágætar fréttir og fréttaskýringar Ingvars Haraldssonar, þar sem Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, harmaði hlutinn sinn.

Fyrirsögnin var: „Svekktur yfir 57 prósenta ávöxtun“ og upphafið var ekki minna dramatískt:

„Þetta er það vitlausasta sem við höfum gert, að selja þarna, það var hörmung að gera það, eftir á að hyggja,“ segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar […]

Samkvæmt þessu er hið vitlausasta sem Haukur hrekklausi hefur gert á ferlinum, það að selja sjálfum sér, Hauki hrekkvísa, hlut Borgunar í Borgun til Borgunar. Eða eitthvað þannig. Þar hefði vel mátt spyrja frekar.

Vörn Hauks í fréttinni um að hlutur hans hafi raunar minnkað við hlutafjáraukningu fær einnig að standa óhögguð, þó hún sé nánast villandi fyrir lesendur. Umfram allt er það þó þessi staðhæfing í fyrirsögninni, sem hlýtur að vekja frekari spurningar. Þegar menn lýsa 57% gengishagnaði á nokkrum mánuðum sem mesta áfalli ævinnar hlýtur það að vekja frekari spurningar. Meira að segja í hinu íslenska hávaxtaumhverfi er 57% alveg ágætt. Jafnvel á fíkniefnamarkaði þætti það fyrirtak og er áhættan á þeim vettvangi þó líklega meiri.

* * *

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur verið nokkuð í sviðsljósinu í liðinni viku, en í gær skrifaði hann grein um fyrrnefnt Borgunarmál í Fréttablaðið, þar sem fyrrverandi bankamálaráðherrann hafði m.a. þetta að segja:

Það þarf að styrkja lagaumhverfi greiðsluaðlögunar, auka áhættu banka af útlánum og torvelda bönkum að ganga að fólki ef greiðslugeta bregst.

Það var og. Fjölmiðlarýnir sér þó ekki að nokkur fjölmiðill hafi tekið þessa forvitnilegu grein stjórnarandstöðuleiðtogans upp eða spurst fyrir um þessa frumlegu leið til að lækka vaxtakostnað og tryggja fjármálastöðugleika.

* * *

Má ekki treysta því að einhver fjölmiðill leiti svara við þessum áleitnu, augljósu en óspurðu spurningum á næstunni?