*

mánudagur, 13. júlí 2020
Leiðari
5. október 2018 18:28

Óþægilegur samhljómur

Stóra spurningin núna er hvernig hinum tveimur stóru flugfélögunum mun reiða af – Icelandair og WOW.

Aðsend mynd

Hlutirnir gerast hratt í flugheiminum um þessar mundir. Erfið fjárhagsstaða WOW air og Icelandair hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðan í sumar. Svo gerist það á mánudaginn að Primera Air sendir frá sér tilkynningu um að félagið sé farið í greiðslustöðvun.

Þótt vitað sé að rekstrarumhverfi flugfélaga sé erfitt um þessar mundir kom tilkynning Primera Air nokkuð á óvart og þá sérstaklega vegna þess að tiltölulega lítið hafði verið fjallað um félagið í þessu samhengi, þ.e. að það væri að glíma við mikinn rekstrarvanda. Tveimur dögum áður en tilkynningin barst birti Viðskiptablaðið frétt þar sem fram kom að Primera Air hefði hagnast um 105 milljónir króna í fyrra samanborið við um 600 milljóna króna hagnað árið 2016. Vissulega er þetta mikill samdráttur í hagnaði en út úr þessum tölum var ekki hægt að lesa að félagið væri á leið í greiðslustöðvun.

Tilkynning Primera Air kom líka á óvart vegna þess að fyrir einungis þremur vikum sagði Andri Már Ingólfsson, eigandi félagsins, að Primera Air væri að ljúka langtímafjármögnun upp á ríflega fimm milljarða króna. „Langtímafjármögnun þessi er á móti hagnaði af sölu flugvéla sem félagið fékk á einstökum kjörum frá Boeing og er litið á þetta sem brúarfjármögnun þar til hagnaður er innleystur. Verið er að klára skuldabréfaútgáfu vegna þessa ásamt fjármögnun frá viðskiptabanka félagsins,“ sagði Andri Már í viðtali í Fréttablaðinu 12. september.

Yfirlýsingar sem þessar minna óþægilega á umræðuna í tengslum við endurfjármögnun bankanna í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Að þessu sögðu er ágætt að halda því til haga að hér er ekki verið að spá nýju hruni heldur benda á samhljóminn.

Miðað við fréttir síðustu vikna er alveg augljóst að íslensku flugfélögin glíma við rekstrarvanda. Þá er eðlilegt að leita skýringa á því. Skýringin liggur ekki í fækkun ferðamanna til landsins því þrátt fyrir allt fjölgaði þeim örlítið í sumar samanborið við síðasta sumar. Þá er rekstrarmódel flugfélaganna ekki bundið við íslenska ferðamannamarkaðinn eingöngu. Stór hluti af þeirra tekjum er vegna ferðamanna sem eru á leið á milli Evrópu og Bandaríkjanna og fyrir þá er Keflavík bara stoppistöð. Á þessum markaði eru íslensku félögin í grimmri samkeppni við stór erlend félög.

Þótt það hljómi ekki vel fyrir neytendur þá virðist augljóst að verð á farmiðum er orðið það lágt að félögin ráða illa við það. „Í vetur hafa fargjöld aldrei verið lægri í sögunni, bæði í Evrópu og yfir Atlantshafið,“ segir Andri Már í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.

Stóra breytan í rekstri flugfélaganna er samt olíuverð. Þróun olíuverðs er eitthvað sem stjórnendur flugfélaga hafa náttúrlega enga stjórn á. Í janúar 2016 kostaði olíutunnan (Brent) 28 dollara en núna kostar hún 85 dollara. Á tveimur og hálfu ári er olíuverð búið að hækka um 200%.

Stóra spurningin núna er hvernig hinum tveimur stóru flugfélögunum mun reiða af – Icelandair og WOW. Sú staðreynd að WOW hafi verið með útsölu á farmiðum fyrir síðustu helgi en tilkynnt síðan eftir helgi að félagið muni ekki fljúga á þrjá áfangastaði um nokkurra mánaða skeið í vetur sýnir hvað hlutirnir eru að gerast hratt.

Á þessu nokkurra mánaða tímabili sem um ræðir þarf félagið að fella niður ríflega 430 flug og endurgreiða því fólki sem keypti fyrir nokkrum dögum miða á útsölu til þessara áfangastaða.

Í tengslum við olíuverðið er áhugavert að í fjárfestakynningu WOW frá því um miðjan ágúst kemur fram að 1% hækkun eldsneytis lækki EBITDAR (afkoma fyrir vaxtagreiðslur, vaxtatekjur, skattgreiðslur, afskriftir og leigugreiðslur) um 1,6 milljónir dollara. Frá því um miðjan ágúst hefur olíuverð hækkað um 15%, sem þýðir að EBITDAR hefur lækkað um 24 milljónir dollara á einum og hálfum mánuði. Til þess að setja þessa tölu í samhengi þá hljóðaði skuldabréfaútboð WOW, sem lauk 18. september, upp á 50 milljónir evra eða 58 milljónir dollara.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.