*

föstudagur, 30. júlí 2021
Huginn og muninn
4. apríl 2020 10:02

Óvænt áhrif heimsfaraldursins

Á þessum óvissutímum gerist sá fáheyrði atburður að Vilhjálmur Birgisson og Samtök atvinnulífsins eru sammála.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Haraldur Guðjónsson

Enn á ný er verkalýðsleiðtoginn ofan af Skaga, Vilhjálmur Birgisson, kominn í slag við forseta ASÍ. Frægar eru rimmur hans og Gylfa Arnbjörnssonar, fyrrverandi forseta ASÍ en eins og margir muna reyndi Vilhjálmur nokkrum sinnum að steypa Gylfa af stóli.

Nú er Vilhjálmur kominn í hart við Drífu Snædal, sem tók við forsetaembættinu fyrir tæpu einu og hálfu ári. Er Vilhjálmur ósáttur við að að ASÍ hafi lagst gegn því að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð yrði lækkað tímabundið úr 11,5% í 8% til að koma til móts við fyrirtækin í landinu og auka þannig atvinnuöryggi fólks. Vilhjálmur er svo ósáttur við afstöðu ASÍ að hann hefur sagt af sér sem varaforseti sambandsins. Á Facebook í vikunni ritaði hann: „Hef ég með miklum trega sent forseta ASÍ bréf þar sem fram kemur að ég segi af mér sem 1. varaforseti ASÍ.“

Það er reyndar afar áhugavert að sú leið sem Vilhjálmur hefur talað fyrir er samhljóða tillögu Samtaka atvinnulífsins. Kórónufaraldurinn er að hafa mun víðtækari áhrif en hrafnana grunaði því þeim rekur ekki minni til þess að Villi og SA hafi áður verið sammála. 

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.