

Hrafnarnir glöddust mikið þegar bóluefni við kórónuveirunni barst til landsins, enda í áhættuhóp og með þeim fyrstu að fá efnið. Það runnu hins vegar á þá tvær grímur þegar undarlegustu hlutir fóru að gerast í kjölfarið.
Í fyrstu var ekki um aðrar aukaverkanir að ræða en örlítil eymsli eftir stunguna. Þegar heim var komið stigu hrafnarnir hins vegar á legókubb, sem eins og allir landsmenn vita er með því versta sem komið getur fyrir nokkurn mann, nú eða fugl. Sársaukinn linaðist þó nokkuð þegar þeim varð litið á símann og við blasti tilkynning um að þeir hefðu unnið hótelgistingu og ársbirgðir af ostum í samfélagsmiðlaleikjum stórfyrirtækja.
Hrafnarnir hafa að sjálfsögðu tilkynnt Lyfjastofnun um þessar óvæntu uppákomur í kjölfar bólusetningarinnar, en eftirláta sérfræðiáliti samfélagsmiðlanna að draga ályktanir um orsakasamhengi þar á milli.
Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.