*

fimmtudagur, 2. apríl 2020
Leiðari
5. janúar 2019 11:09

Óveðursský á nýju ári

Stjórnmálaóvissa er með mesta móti, stjórnlaust Brexit yfirvofandi, Þýskaland leiðtogalaust, Frakkland í uppnámi og Ítalía púðurtunna.

epa

Ýmsar blikur eru á lofti í upphafi nýs árs. Hér á skeri horfum við fyrst og fremst til vinnumarkaðarins, en við blasir að ekki verður þrautalaust að ná samningum á þeim vettvangi. Sú óvissa mun hafa áhrif á stjórnmál, atvinnu- og efnahagslíf. Það er þó ekki svo að það sé aðeins að þykkna upp yfir Íslandi. Þegar horft er til þróunar í efnahagslífi heimsins er nær að tala um að óveðursskýin hafi hrannast upp og sú ókyrrð mun óhjákvæmilega hafa áhrif á Íslandi líka.

Nú þegar á fyrstu dögum ársins hafa sveiflur á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum verið með allra mesta móti. Þeirra var raunar þegar farið að gæta undir lok nýliðins árs, en nær hvarvetna gætti verulegra lækkana á ársvísu og á Wall Street hinnar mestu frá dögum Kreppunnar miklu. Það er ekki óeðlilegt að þar eigi sér stað leiðrétting eftir töluverðan vöxt á mörgum mörkuðum undanfarin ár, en þessar miklu sveiflur nú bera vott um einstaklega óljóst verðmat og óvissu um framtíðina.

Þar veldur stóraukin sjálfvirkni í verðbréfaviðskiptum örugglega miklu, en talið er að um 85% viðskipta á Wall Street séu sjálfvirk. Sú vélvirkni gerði vafalaust sitt til þess að blása í hlutabréfabólu liðinna ára, þegar aðrir fjárfestingarkostir hafa verið mun ófélegri, en hún getur ekki síður valdið skyndilegum kollsteypum nú þegar svartsýnin sækir í sig veðrið.

Pólitísk óvissa vestanhafs bætir ekki úr skák. Trump forseti og Seðlabanki Bandaríkjanna takast nú á, en demókratar, sem í gær öðluðust meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hugsa honum þegjandi þörfina. Hin bandaríska aflvél efnahagslífs heims kann því vel að hiksta eða drepa á sér fyrr en varir.

Hinum megin Atlantshafs er ástandið engu skárra. Stjórnmálaóvissa þar er með mesta móti, stjórnlaust Brexit yfirvofandi, Þýskaland leiðtogalaust, Frakkland í uppnámi og Ítalía púðurtunna. Þá er ótalinn vandinn af völdum flóttafólks og ólöglegra innflytjenda, sem ýmislegt bendir til þess að kunni að blossa upp að nýju á þessu ári, efnahagsörðugleikar á suðurjaðri álfunnar og aukin spenna milli hinna gömlu ríkja Evrópusambandsins og nýfrjálsra ríkja í austurhluta þess.

Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því öllu, en hugsanlega hafa þær dregið athyglina frá brestum í efnahagslegum undirstöðum og þá ekki síst á evrusvæðinu.

Evran fagnar 20 ára afmæli á þessu ári, en það er litlu öðru að fagna en því afreki að hún skuli enn þrauka. Það eru litlar sem engar líkur á öðru en að það muni hún áfram gera, en kostnaðurinn af því er að verða óbærilegur, bæði í mælanlegum stærðum og hinum óræðari. Allt frá því að fjármálakreppan skall á fyrir rúmum áratug hefur Evrópusambandið brugðist við henni með smáskammtalækningum og gegndarlausri peningaprentun (sem Bandaríkin eru engan veginn saklaus af heldur). Á sama tíma hefur vöxtur í efnahagslífinu verið sáralítill og atvinnuleysi víða orðið nær óviðráðanlegt. nú þegar hefðbundinnar niðursveiflu er að vænta í efnahagslífinu er vopnabúrið hins vegar nánast tómt eftir þrengingar undanfarinna ára. Þar kann því að fara verulega illa með aukinni félagslegri ólgu, en ekki má finna minnsta pólitískan stuðning við það í nokkru ríki ESB, að auka fjármálalega samþættingu þess með skuldabandalagi, sameiginlegum fjármálum eða því líku. Það mun kalla á mikla stjórnlist í Brussel að ráða bug á því og hún er þar af fremur skornum skammti þessa dagana.

Það er því allra veðra von úti í heimi, en litla Ísland getur hins vegar státað af því að vera betur búið undir áföll en oftast áður og ekki síður en velflest ríki í kringum okkur. Það væri því mikill ábyrgðarhlutur að stefna því ástandi í hættu eins og sumir forystumenn í verkalýðshreyfingunni virðast hafa einsett sér. Því víst er um að sama hversu vel Ísland er undir efnahagsþrengingar búið, að það mun ekki fara varhluta af veðrabrigðum heimsins.

Stikkorð: ESB Wall Street Trump Brexit
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.