Hörmungarnar sem fylgja fíkniefnaneyslu hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu. Kastljós RÚV hefur fjallað um ýmsar hliðar fíkniefnaneyslunnar, ekki síst neyslu svonefnds læknadóps með sláandi myndskeiðum og fréttaskýringum. Fátt finnst mér hrikalegra en að sjá fólk sprauta sig líkt og myndskeið í Kastljósinu hafa sýnt. Þetta er nöturlegur veruleiki, svo mikið er víst. Yfirleitt lít ég undan þegar sprautunálarnar eru á lofti. Mér finnst þetta hrikalega ógeðslegt, ef ég á að segja alveg eins og er.

Þrátt fyrir að fræðslustarf sé nú orðið mun almennara en áður og skaðsemi fíkniefna sé almennt viðurkennd - og vitneskja um hana vel undirbyggð með rannsóknum - þá er eftirspurn eftir fíkniefnum ekkert að minnka á heimsvísu. Skýrsla Sameinuðu Þjóðanna um fíkniefnamarkaðinn í heiminum árið 2010 sem var gerð opinber fyrr á árinu er til marks um það. Þar er að finna bestu tölulegu frumgögn um fíkniefnaheiminn og skipulag hans, samantekin á einn stað.

Heroin
Heroin
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Rót vandans?

Skýrslan, sem er um 300 síður, gefur skýra mynd af því sem einhverjir telja eflaust að sé rót vandans. Þ.e. að í henni er að finna upplýsingar um nákvæmar staðsetningar á framleiðslu allra helstu fíkniefna sem seld eru í gegnum skipulagða glæpastarfsemi, þar með talin verksmiðjuframleidd fíkniefni (amfetamín, E-pillur ofl). Það er með öðrum orðum vitað hvaðan efnunum er dreift og hvernig þau koma inn á markaði þar sem neytendur nálgast þau.

Þá vaknar spurningin; af hverju er framleiðslan einfaldlega ekki kæfð niður fyrst það er vitað hvar hún er? Svarið við því er, að það hefði miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir heilu heimshlutana ef framleiðsla yrði minnkuð eða stöðvuð með miklum inngripum, t.d. með hervaldi, á skömmum tíma. Ómögulegt er að draga hratt úr framleiðslu þess vegna. Breytingarnar verða að eiga sér stað á nokkuð löngum tíma.

Auk þess er ekkert sem segir að fíkniefnavandinn hverfi þrátt fyrir að dregið sér úr fíkniefnalandbúnaði, eins og hann er kallaður í Suður-Ameríku, Asíu og Afganistan. Það kemur bara eitthvað annað í staðinn - sem er ekki síður hættulegt og óhollt. Verksmiðjuframleidd fíkniefni ekki síst. Fíknin finnur nýja farvegi, ef svo má að orði komast.

Afganistan

Herion1
Herion1
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Yfir 85% af heróíni og morfíni á rætur sínar að rekja til Afganistan. Framleiðslan þar hefur farið stigvaxandi undanfarin áratug. Þessi efni dreifast þaðan um allan heim með skipulagðri glæpastarfsemi. Umsvifamikil dreifing heróíns til Evrópu og hins vestræna heims er í gegnum Rússland þar sem notkun er einnig mikil. Það sama má segja um Úsbekistan, Túrkmenistan og Kyrgistan. Ekkert virðist geta komið í veg fyrir að heróín komist í gegnum þessi lönd, svo til óhrindað.

Það er eftir miklu að slægjast. Kílóið af hreinu heróíni í Afganistan kostaði í heildsölu frá bændum árið 2008 um 3.000 dollara, samkvæmt skýrslunni. Í Vestur- og mið Evrópu kostaði kílóið hins vegar 44.300 dollara í heildsölu, eða liðlega fimm milljónir króna. Í sölu til neytenda er verðið síðan margfalt hærra og efnið útþynnt að auki í flestum tilvikum. Hagnaðarvonin í þessum viðskiptum er því ævintýralega mikil, einkum ef sami aðili kaupir í heildsölu, flytur inn og selur til neytenda, eins og algengt er með skipulögð glæpasamtök. Á þessum mörkum Asíu og Austur-Evrópu er starfsemin auk þess ekki eins áhættumikil og í Vestur- og mið Evrópu, þar sem eftirlit er þróaðra og allar lögregluaðgerðir markvissari. Á þessum slóðum liggja rætur ópíumfíkniefnaheimsins. Þaðan breiðir hann úr sér yfir Evrópu og Bandaríkin raunar einnig. Íran og Mjanmar, sem er stærsta meginlandsríki Suð-Austur Asíu, eru einnig stór heróínríki. Heróínneysla er nokkuð almenn í þessum annars lokuðu löndum þar sem harðstjórnir ráða ríkjum.

Kókaín-bændur

Kókaín
Kókaín
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þegar kemur að kókaíninu er Suður-Ameríka miðpunkturinn. Þar eru kókaín-bændur raunar virt stétt, eins ótrúlega og það kann að hljóma fyrir okkur Íslendingum. Einkum á það við um Perú, Bólivíu, Venesúela og Kólumbíu. Í síðastnefnda landinu, sem er stærsta framleiðsluland kókaíns í veröldinni, hefur það færst í vöxt að glæpagengi taki yfir búgarða með valdi og sinni framleiðslunni. Fíkniefnaiðnaður í Venesúela er sífellt að vaxa, ef marka má skýrsluna. Sem dæmi má nefna mátti rekja 51% af öllu kókaínsmygli sem komst upp með skipum til Evrópu á árunum 2006 til 2008 til Venesúela.

Hinar siðferðislegu spurningar í kringum fíkniefnaiðnaðinn í Suður-Ameríku hafa lengi snúið að því, hvernig megi tryggja að bændur fái meira í sinn hatt fyrir hvert selt kíló. Framleiðslan sem slík er siðferðislega viðurkennd. Þeir fá í dag um 1,5% af heildsöluverði hvers kílós inn á markað, að því er fram kemur í skýrslunni. Það þýðir að þeir fá smánarbrot af hverju seldu kíló þegar það er komið til neytenda.

Hugsunin á bak við það að reyna að tryggja bændum meiri hlutdeild í söluvirði kókaínsins, er sú að ef bændurnir fá meira til sín þá fer minna af veltunni út í afleidda glæpageira, eins og mansal og vopnasmygl. Með öðrum orðum, þá er framleiðslan viðurkennd sem lífsviðurværi tugþúsunda manna, en menn vilja sporna gegn því að skipulögð glæpastarfsemi breiði úr sér enn frekar.

Bændurnir eru a.m.k. í mörgum tilvikum ósköp venjulegt fólk, sem ekki stundar glæpsamlega iðju - þ.e. ekki samkvæmt viðmiðum og gildum í Suður-Ameríku. Skipulögð glæpastarfsemi hefur víðtækar tengingar, ef marka má skýrsluna. Ágóðinn úr fíkniefnaframleiðslu fer yfir í aðra ábatasama glæpi. Þessa hringavitleysu reyna stjórnvöld að stöðva, með því að standa vörð um fíkniefnalandbúnaðinn - sem síðan viðheldur framboði á fíkniefnum inn á helstu markaði.

Drugs1
Drugs1
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þessu samhliða er spilling innan eftirlitsstofnanna og lögreglunnar viðvarandi vandamál (Fáar kvikmyndir hafa fangað þetta vandamál betur en hin frábæra Traffic , í leikstjórn Steven Soderbergh með Benicio Del Toro og Michael Douglas í aðalhlutverkum.). Ekkert hefur hingað til dugað til þess að útrýma henni.

Kortlagning

Í skýrslunni er tekið fram að kortlagning á þessu risavaxna svarta hagkerfi sem fíkniefnaheimurinn er sé sífellt að verða betri og nákvæmari. Upplýsingar eru áreiðanlegri en áður, en betur má ef duga skal. Sumar þjóðir sinna ekki mikilli upplýsingasöfnun, sem síðan hefur áhrif á heildaryfirsýnina. Iðnaðurinn er talinn velta 200 til 300 milljörðum dollara á ári, eða sem nemur um 35 þúsund milljörðum króna. Þessar tölur eru almennt taldar varlega áætlaðar. Auk þess fer ágóðinn oftar en ekki í aðra skipulagða glæpastarfsemi, sem síðan veltir fíkniefnaágóðanum áfram.

Vandamálin færast einnig til á milli landa, eins og barátta stjórnvalda í Mexíkó síðustu ár er til marks um. Þúsundir hafa látið lífið í bardögum glæpagengja sem berjast um fíkniefnasmyglleiðir til Bandaríkjanna og Evrópu. Þessi barátta stjórnvalda virðist litlu sem engu skila í reynd, samkvæmt skýrslu SÞ. Vandamálin færast yfir landamærin til nágrannaríkja. Þar þrífst ofbeldi og smygl í meira mæli en áður. T.d. hefur kókaínframleiðsla aukist um meira en 100% í Bólivíu á skömmum tíma og morð og líkamlegt ofbeldi hefur aldrei verið meira í Venesúela, en eftir að stjórnvöld í Mexíkó lýstu yfir stríði gegn fíkniefnagengjum og smyglurum.

Stjórnmálamenn í Mexíkó geta sagt; við erum að ná árangri! Og sýnt tölur til vitnis um það. Engin vandamál eru þó að hverfa. Heldur frekar að færast yfir til nágrannaríkjanna, samkvæmt skýrslu SÞ.

Í Bandaríkjunum er allt við sama heygarðshornið, þrátt fyrir nýja tækni og eflingu landamæraeftirlits. Smyglleiðirnar eru helst í gegnum Florida og Miami, líkt og undanfarna áratugi, auk hafnarborga á austur- og vesturströndinni. Um 46% af öllu kókaíni í heiminum fer á markað í Bandaríkjunum en 26% í Evrópu. Aðrir markaðir eru að stækka hratt, m.a. í Asíu, samhliða stækkun þess hóps sem hefur mikla peninga milli handanna.

Töpuð barátta

Það virðist vera fullkomlega útilokað að „sigra" í baráttunni við fíkniefnadjöfullinn - þ.e. að þurrka vandamálið út -  ef mið er tekið af skýrslu SÞ. Það eru margar ástæður fyrir því. En eins og ofan greinir þá vegur líklega þyngst, að það virðist ekki vera hægt að stöðva þennan risavaxna iðnað sem framleiðsla og sala á fíkniefnum er. Viðhorfið gagnvart fíkniefnaframleiðslunni í nærumhverfi ræktunarsvæðanna er líka með þeim hætti, að iðnaðurinn er álitinn landbúnaður fremur en glæpamennska.

Kókaín
Kókaín
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ekkert vegur þó þyngra en sú staðreynd, að ákveðið hlutfall fólks sækist eftir því að neyta fíkni- og vímuefna. Eftirspurnin er því miður alltaf fyrir hendi og á meðan svo er mun framboðið eflaust haldast sömuleiðis. Það er nær útilokað að ætla að ná utan um skipulagða glæpastarfsemi, sem stýrir óbeint eða beint, mörkuðum með fíkniefni  - líka á Íslandi. En það er hægt að kortleggja vandann og vinna gegn honum eftir fremsta megni, eins og skýrsla SÞ er til vitnis um. Því meiri upplýsingar, því betra.

Vandað forvarnarstarf og upplýsingagjöf um skaðsemi fíkniefna virðist vera það eina sem hægt er að gera til þess að sporna gegn þessum vágesti. Eða það finnst mér a.m.k. Ef það er hamrað nógu oft og lengi á því að fíkniefni drepi fólk og rústi fjölskyldulífi hjá hundruðum einstaklinga á hverju ári - svo mið sé tekið af Íslandi - þá kannski síast þetta inn með árunum og minnkar þannig þann hóp sem byrjar neyslu. Þungir dómar, vopnuð stríð og hert landmæraeftirlit hafa ekki unnið á fíkniefnavandanum að neinu marki. Það segir sína sögu um umfang vandans og það heljartak sem fíkniefnaiðnaðurinn hefur á meira en 300 milljónum manna um allan heim.