*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Leiðari
19. apríl 2019 10:28

Óvissa á húsnæðismarkaði

Á að afnema 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán um næstu áramót eða ekki?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti tillögur ríkisstjórnarinnar í byrjun mánaðarins.
Haraldur Guðjónsson

Þegar kjarasamningar á almennum vinnumarkaði, svokallaðir lífskjarasamningar, voru undirritaðir í byrjun mánaðarins, birti ríkisstjórnin yfirlýsingu um aðgerðir til stuðnings samningnum. Þar á meðal eru fjölmargar aðgerðir eða kannski öllu heldur tillögur í húsnæðismálum, sem eiga að auðvelda ungu fólki og tekjulágu að koma sér þaki yfir höfuðið.

Í yfirlýsingu stjórnvalda segir meðal annars að farið verði í víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum og uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis. Draga á úr vægi verðtryggingar og ný neytendalán eiga að miðast við vísitölu án húsnæðisliðar. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að ríkisstjórnin muni vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög. Þarna er búið að taka risapakka inn því í skýrslu, sem átakshópurinn skilaði í janúar, voru 40 tillögur. Þar á meðal eru ansi róttækar tillögur sem snúa að sveitarfélögunum. Þær merkilegustu lúta að ýmsum kvöðum, sem lagðar eru á sveitarfélög um að tiltekið hlutfall byggingarmagns á tilgreindum svæðum skuli eyrnamerkt almennum íbúðum, félagslegum íbúðum eða öðrum leiguíbúðum.

Þessu til viðbótar skilaði starfshópur félagsmálaráðherra 14 tillögum í húsnæðismálum tveimur dögum eftir að kjarasamningarnir voru undirritaðir og tillögur ríkisstjórnarinnar kynntar. Hvort sú tímasetning var tilviljun eða ekki er spurning því eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er ekki endilega víst að þessar tillögur starfshóps félagsmálaráðherra séu samtvinnaðar kjarasamningsgerðinni. Tillögur átakshópsins eru það hins vegar sannarlega.

Þá tillögu, sem mesta athygli hefur fengið, er reyndar hvorki að finna í skýrslu átakshópsins né starfshóps félagsmálaráðherra heldur er hún í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar „um markviss skref til afnáms verðtryggingar“. Var sú yfirlýsing hluti af kjarasamningspakkanum. Þessi tillaga snýr að verðtryggðum íbúðalánum og hefur því líklega meiri áhrif á húsnæðismarkaðinn en flestar ef ekki allar tillögur átakshópsins og starfshóps félagsmálaráðherra.

Í yfirlýsingunni um verðtrygginguna segir: „Frá og með ársbyrjun 2020 verði óheimilt að veita verðtryggð jafngreiðslulán til neytenda til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Rökin fyrir þessu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána að verðbótum er bætt við höfuðstól lánsins og greiðslu þeirra frestað þannig að eignamyndun verður hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast.“

Ef menn lesa þessa klausu vandlega þá er þarna sleginn varnaglinn „nema með ákveðnum skilyrðum“. Útskýra þarf hvað felst í þessum orðum. Á að afnema 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán um næstu áramót eða ekki? Eins og staðan er í dag þá er alveg ótrúlega margt óljóst sem snýr að húsnæðismarkaðnum og það er ekki gott. Í Viðskiptablaðinu í dag bendir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, á að það sé óábyrgt að leggja fram óljósar tillögur, sem byggi á takmörkuðum upplýsingum því slíkt geti sent misvísandi skilaboð á markaðinn og haft áhrif á verðmyndun. Sem dæmi segir hann að ef lánstími á verðtryggðum jafngreiðslulánum verði lækkaður úr 40 árum í 25 geti það dregið úr kaupgetu fólks og haft áhrif til lækkunar á eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins. Segir hann að þetta geti því aukið enn á þá kólnun sem hafi verið á húsnæðismarkaðnum á undanförnum mánuðum.

Viðskiptablaðið bendir hins vegar á hina hlið peningsins. Ef 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán verða bönnuð um næstu áramót getur vel verið að margir hugsi með sér að þeir ætli að nýta tækifærið og tryggja sér slíkt lán á meðan það er mögulegt. Þetta gæti haft áhrif til hækkunar húsnæðisverðs til skamms tíma.

Eins og rakið hefur verið hér þá liggja nú 54 tillögur á borði ríkisstjórnarinnar sem snúa að húsnæðismarkaðnum og eru þá bara taldar tillögur átakshópsins og starfshóps félagsmálaráðherra. Í stjórnarráðinu og ráðuneytum vinna menn vonandi hörðum höndum við að forgangsraða, skilgreina þörfina og meta áhrif tillagnanna á húsnæðismarkaðinn. Nauðsynlegt er að fá þetta allt saman á hreint sem allra fyrst.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.