Sífellt herja á okkur fréttir um neikvæðar efnahagshorfur hvar sem er í heiminum. Ísland er þar ekki undanskilið. Í þéttriðnu neti alþjóðaviðskipta finna allir fyrir því þegar stórkostleg áföll verða eins og reyndin hefur verið síðustu misserin.

Við heyrum daglega að yfirvofandi sé orkuskortur í álfunni og erfitt geti reynst að tryggja heimilum og fyrirtækjum næga orku á komandi vetri. Það er mikil gæfa að við Íslendingar þurfum ekki að hafa þær áhyggjur enda kyndum við hús okkar með sjálfbærri íslenskri orku og erum þar með komin lengst allra þjóða í orkuskiptum. Fólki er í stöðugt talin trú um að hér á landi sé flest komið á vonarvöl og lífskjör verri en í grannríkjum. Það er hrein firra. Lífskjör á Íslandi eru með því besta sem þekkist á byggðu bóli, sama hvaða mælikvörðum er beitt. Staðreyndir tala sínu máli en fyrir suma er slíkt aukaatriði

Óvelkominn draugur

Nú um stundir lætur gamall draugur að sér kveða, verðbólgan. Fátt er jafn eyðileggjandi og draugurinn sá. Margir þættir eru drifkraftar aukinnar verðbólgu, COVID-faraldur og styrjöld í Úkraínu hafa ýtt undir hækkun afurðaverðs á heimsvísu á sama tíma og húsnæðisverð innanlands er að ná sögulegu hámarki.

Þeir flöskuhálsar og hindranir sem mynduðust í framleiðslukeðjum heimsins í heimsfaraldrinum eru að leysast hver af öðrum. Þá voru ákveðin tímamót í vikunni þegar Úkraínumönnum tókst að koma flutningaskipi með 26.000 tonnum af korni til Tyrklands, en þessi sending var sú fyrsta sem komst leiðar sinnar frá upphafi stríðsins. Ef áfram heldur sem horfir má því vænta að þessi innflutta verðbólga hjaðni á ný á næsta ári.

Eftir stendur innlenda verðbólgan sem hefur fyrst og fremst verið drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði. Til þess að bregðast við þeim verðbólguþrýstingi er annars vegar að draga úr eftirspurn og hins vegar að auka framboð. Seðlabanki Íslands hefur það meginmarkmið að stuðla að stöðugu verðlagi. Til þess hefur bankinn nokkur úrræði en síðustu mánuði hefur bankinn hækkað meginvexti og lækkað hámarks veðsetningarhlutfall meðal annars til þess að draga úr eftirspurn á húsnæðismarkaði.

Til að auka framboð er eina leiðin að byggja meira og byggja hraðar. En að fjölga íbúðum tekur tíma. Besta verkfærið sem hið opinbera getur beitt við aðstæður sem þessar er að einfalda regluverk og vera tilbúin með lóðir til uppbyggingar. Þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk.

Reykjavíkurborg hefur fylgt þeirri stefnu að brjóta ekki nýtt land heldur leggja höfuðáherslu á þéttingu byggðar. Afleiðingin er augljós og æpandi. Ungt fjölskyldufólk leitar út fyrir höfuðborgarsvæðið, til Suðurnesja, Selfoss, Hveragerðis, Ölfuss, Akraness, Borgarness og jafnvel enn lengra eftir skjóli yfir höfuðið. Þessi sveitarfélög eiga hrós skilið fyrir sín snöru viðbrögð, en innviðir samfélagsins, ekki síst samgöngukerfið, verða þá að þróast í samræmi við þessa uppbyggingu.

Kraftmikið fólk með erlendan bakgrunn

Í sumar hef ég eins og margir aðrir landsmenn lagst í ferðalög. Á sumrin vil ég helst ekki fara utan heldur kynnast betur landinu okkar. Í ár heimsótti ég nær alla þéttbýlisstaði landsins, að nokkrum þéttbýliskjörnum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum undanskildum. Ég á þá inni fyrir haustið.

Upp úr stendur hve fólk er kraftmikið og bjartsýnt alls staðar en flest eiga þau sameiginlegt að skortur er á starfsfólki og íbúðarhúsnæði. Ferðaþjónustan hefur tekið kröftuglega við sér og þarf að reiða sig á erlent starfsfólk. Við skulum vera ævarandi þakklát því fólki sem kemur til skemmri eða lengri dvalar hérlendis og leggur mörg mikilvæg lóð á vogarskálar samfélagsins og atvinnustarfseminnar.

Mér þótti til að mynda sérstaklega áhugavert að hitta Thomas, Baska frá Suður-Frakklandi, sem rekur Verzlunarfélagið á Norðurfirði á Ströndum. Hann hefur dvalið þar í nokkur ár, finnst staðurinn alls ekki vera afskekktur og vill hvergi annars staðar vera.

Sömuleiðis var áhugavert að hitta ungan mann sem kominn er alla leið frá Suður-Afríku til Þórshafnar á Langanesi og rekur þar veitingahúsið Báruna. Hann unir vel hag sínum.

Á Seyðisfirði hitti ég listakonuna Monicu frá Prag í Tékklandi sem í sumar rekur upplifunarstaðinn Kiosk. Monica hefur verið með annan fótinn hér á landi í rúm tíu ár og hefur háleitar hugmyndir um að efla enn frekar listalífið á Seyðisfirði.

Þetta eru einungis fáir í hópi þeirra sem ég spjallaði við en eru lýsandi dæmi um fólk sem á uppruna og rætur í ólíkum menningarheimum en sér tækifæri í því að starfa að eigin rekstri á Íslandi og auðga jafnframt mannlíf og umhverfið þar sem það býr.

Fleiri egg í fleiri körfur

Framundan eru kjarasamningaviðræður. Þar hlýtur að verða forgangsmál að vernda kaupmáttaraukningu síðustu ára. Ósjálfbærar launahækkanir gera ekki annað en að fjölga sprekum á verðbólgubálinu. Hlutverk okkar allra er að tryggja að krónan haldi verðgildi sínu. Krafturinn og afkoman í efnahagskerfinu verður að ráða því hvað verður til skiptanna í kjarasamningum.

Óstöðugt verðlag og mikil verðbólga hefur einkennt íslenska hagsögu of oft og of lengi. Hér áður réðu sveiflur í sjávarútvegi mestu um hvernig samfélaginu reiddi af á hverjum tíma. Sjávarútvegur var lengi vel eina útflutningsgreinin en á seinni hluta aldarinnar sem leið bættist við ný stoð, útflutningstekjur af orkuiðnaði. Síðar komu til sögunnar stóraukin umsvif í ferðaþjónustu. Þá er þekkingariðnaður styrk og stækkandi stoð í verðmætasköpun Íslendinga.

Framundan eru krefjandi tímar, óvissutímar. Við erum á ýmsan hátt í betri stöðu en margar grannþjóðir og í góðu færi til að tryggja framúrskarandi lífskjör til framtíðar. Til þess þarf kjark og lausnamiðaða framtíðarsýn.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. ágúst 2022.