*

mánudagur, 17. júní 2019
Týr
1. febrúar 2019 10:18

Pálmar

„Nú má auðvitað ræða um skynsemi þess að koma fyrir pálmum þar á hjara veraldar.“

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður dómnefndarinnar sem valdi sigurverkið.
Haraldur Guðjónsson

Þrotlausum fundarhöldum almannatengsladeildar ráðhússins lauk loks í vikunni, en þar náðist einróma niðurstaða um hvernig taka mætti fókusinn af braggavandræðum borgarstjóra. Því hefur verið brugðið á það snjallræði að planta tveimur pálmatrjám í Vogunum, í þar til gerðum glerkrukkum, sem geta orðið borgarbúum umræðuefni um nokkurra missera skeið.

* * *

Nú má auðvitað ræða um skynsemi þess að koma fyrir pálmum þar á hjara veraldar. Það er ekki gefið, um 140 milljónir króna áætla menn, því þar á túndrunni verður auðvitað að búa almennilega um þá, með innbyggðri loftslagsstýringu, sérhannaðri lýsingu til þess að lifa bæði af vetrarmyrkur og sumarbirtu, sjálfvirka vökvun og svo framvegis. Af fyrri framkvæmdum er sennilega óhætt að gera ráð fyrir að kostnaðurinn verði nær 300 milljónum og þá er ótalinn rekstrar- og viðhaldskostnaður, svo sjálfsagt slagar reikningurinn hátt í milljarð í lok næsta áratugar. Ef vel er að pálmatrjám hlúð geta þau hæglega náð 80 ára aldri, svo lesendur geta sjálfir reiknað uns þá verkjar í veskið.

* * *

Auðvitað er alls ekki víst að svo fari. Ef litið er til fyrri afreka borgarstjórnar á sviði lifandi umhverfislistar sést að líftími þeirra er mun skemmri, því Reykjavíkurborg hefur það nánast að reglu að gefast upp á svona skrauti. Það hefur verið slökkt á hinni fallegu Fyssu í Laugardalnum í áratug og allur ferðamannafansinn megnaði ekki að fá Orkuveituna til þess að kveikja á gervihvernum Strók í Öskjuhlíð aftur.

* * *

Að sögn hugmyndasmiðsins er markmiðið að pálmarnir skjóti „rótum í köldu og hrjóstrugu landi - rétt eins og fólk frá framandi slóðum sem hefur sest hér að". Það er frekar fyrirsjáanlegt að þeir visni eða verði viðhaldsleysi að bráð. Verða góð skilaboð fólgin í því? Eða hinu, að hafa til sýnis niðursoðnar nýlenduvörur á heimskautsjaðri? Verður nýjum og nýtum Íslendingum það til ánægju eða hughreystingar?

* * *

Ef borgaryfirvöldum er mjög í mun að ljá hverfum borgarinnar suðrænan blæ væri mun hagkvæmara að koma þar fyrir gervipálmum fyrir brot af kostnaðinum, fyrir nú utan hitt hvað plöntur úr gerviefnum væru miklu táknrænni fyrir borgaryfirvöld. En svo má auðvitað gera þetta einfaldara og áskilja í borgarskipulagi að við hvert hús skuli vera bleikur plastflamingó. Það væri borgarstjóra fullkomin arfleifð um ókomna tíð.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is