Frumburður minn er fjögurra ára og kominn á það sem líklega er kallað „buff og Capri Sun"-tímabilið. Í minni æsku voru allir bara með húfu og drukku Svala, svo að margt er líkt, að undanskildum blessuðum papparörunum.

Umhverfismál hafa verið eitt heitasta mál atvinnulífsins á undanförnum árum og í kapphlaupi fyrirtækja um að standa sig best á sviði umhverfismála vill kappið hins vegar stundum bera fegurðina ofurliði. Fyrirtæki eiga það nefnilega til að stökkva á eftir því sem þau telja að gangi mest í augu neytenda frekar en það sem skiptir raunverulega mestu máli í rekstri þeirra.

Eitt þessara mála er pappírspokarnir sem mörg fyrirtæki hafa tekið í notkun. Rannsókn danska umhverfis- og matvælaráðuneytisins sýndi að pappírspokar þyrftu margfalt meiri orku og fleiri auðlindir til framleiðslu en plastpokarnir.

Til að pappírspokinn reynist umhverfisvænni þarf að nota hann að lágmarki 43 sinnum og lífræna bómullarpoka þarf að nota 20.000 til að hafa ekki verri áhrif á jörðina en einnota plastpoki sem flokkaður er á réttan hátt.

Það er í lokaorðum setningarinnar hér á undan sem hundurinn liggur grafinn. Plast er ekki alslæmt heldur ræðst allt af því hvað við gerum við það. Hérlendis getur t.d. Pure North Recycling endurunnið plast að fullu með umhverfisvænum orkugjöfum, hið svokallaða hringrásarhagkerfi í sinni tærustu mynd.

Ég er því ekki sannfærður um að þessi papparör sem sonur minn og önnur börn eiga það til að naga í sundur löngu áður en djúsinn er búinn, okkur foreldrunum til ómældrar gleði og ánægju, nú eða þau rör sem ég fæ og eiga það til að breytast í pappírsdrullu áður en minn drykkur klárast, séu raunverulega þetta mikilvæga umhverfismál sem af er látið.

Pistlahöfundur er Steinar Þór Ólafsson, samskiptasérfræðingur.