*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Óðinn
9. september 2019 18:00

Peningamál, hagvöxtur og Pence

Þeir sem stjórna Hvíta húsinu í dag hafa áttað sig á því að líklega voru mistök að hverfa algjörlega frá Íslandi árið 2006.

Varaforseti Bandaríkjanna Mike Pence fundaði á dögunum með ráðamönnum og tók þátt í viðskiptaþingi í Höfða.
epa

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birtist í ritinu Peningamálum er gert ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár. Það er nokkru minni samdráttur en spáð var í maí, en þá var spáð 0,4% samdrætti. Munurinn skýrist að mati Seðlabankans á þróttmeiri einkaneyslu og hærra framlagi utanríkisviðskipta en spáð var í maí. 

Peningamál voru birt á miðvikudaginn í síðustu viku. Í fyrradag birti Hagstofan hins vegar leiðréttingu á hagvaxtaútreikningum sínum. Seðlabankinn byggði einmitt þjóðhagsspá sína á því að hagvöxtur næmi 1,7% á 2. ársfjórðungi. Raunin er sú að að hagvöxturinn var 2,7% á tímabilinu og hagvöxtur fyrstu sex mánuði þessa árs 0,9%.

Öllum verða á mistök og rétt er að fyrirgefa flest hver. En Hagstofan hefur nú ítrekað gert mistök við hagvaxtarútreikning sinn, sem geta haft mikil áhrif á efnahagslífið, áætlanagerð, fjárfestingu og neyslu. Bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa haldið mjög að sér höndum um og eftir fall Wow air, sem er skiljanleg og réttmæt varúð, en getur verið fullmikið af því góða þegar á daginn kemur að óþarflegar og rangar hrakspár skutu þeim enn frekar skelk í bringu og mistök Hagstofunnar hafa þannig alið af sér önnur mistök allra þeirra, sem tóku mark á útreikningum hennar. Því er ákaflega mikilvægt að opinberar upplýsingar um stöðu og horfur í efnahagslífinu séu sem réttastar. Hagstofan hlýtur að leggja mikla áherslu á það á næstunni.

Burtséð frá þeim mistökum telja margir að óveðurský hafi hrannast upp í íslensku efnahagslífi upp á síðkastið. En er það raunin?

Samdrátturinn, sem allir kepptust við að spá í vor, virðist með leiðréttingu Hagstofunnar vera orðinn að engu. Að minnsta kosti litlu sem engu. Og hefði mögulega ekki verið neinn ef almenningur hefði haft réttar upplýsingar við höndina.

Verðbólga jókst í kjölfar lækkunar á gengi krónunnar fyrir ári og náði hámarki í 3,7% í desember. Hún mældist 3,4% á öðrum ársfjórðungi en minnkaði í 3,1% í júlí. Verðbólguvæntingar hafa lækkað. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verðbólga verði komin í 2,9% á síðasta fjórðungi ársins og í 2,5% (verðbólgumarkmið Seðlabankans) á fyrri hluta næsta árs og eitthvað undir markmiðinu á seinni hluta ársins. Þessu ræður Seðlabankinn í raun sjálfur með sinn risastóra gjaldeyrisvaraforða að vopni. Fróðlegt verður að sjá nálgun hins nýja seðlabankastjóra við þau viðfangsefni.

Atvinnuleysi jókst við fall Wow air og mældist 3,4% í lok júlí samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Samkvæmt þeim virðist atvinnuleysi hafa hætt að aukast mjög fljótlega eftir fall WOW air. 

Verð sjávarafurða hefur hins vegar hækkað töluvert að undanförnu og er það vegna mikillar eftirspurnar á erlendum mörkuðum. Horfur eru á meiri verðhækkunum sjávarafurða á þessu ári en lítillega minni á næstu tveimur árum

Olíuverð hefur farið lækkandi undanfarnar vikur og er komið undir 60 dali á tonnið. 

Í Peningamálum Seðlabankans er hagstæð þróun sjávarafurðaverðs og lækkun olíuverðs sögð ástæða þess að viðskiptakjör bötnuðu um 1,7% milli fjórðunga á fyrsta fjórðungi ársins. Gerir bankinn ráð fyrir að viðskiptakjör standi nánast í stað í ár en batni á næsta ári, aðallega vegna lægra olíuverðs og stöðugs gengis krónunnar.

Fleira er jákvætt að finna. Hrein staða við útlönd er nú jákvæð um 628 milljarða króna. Fyrir fimm árum var staðan neikvæð um rúma 200 milljarða króna. Þetta þýðir að Íslendingar eiga meiri eignir erlendis en þeir skulda, en það er gjörbreyting frá því sem áður var. Árið 2008 var hún til að mynda neikvæð um 2.200 milljarða króna. Það var ekki allt betra í gamla daga. 

Eru Bandaríkin að fá kvef? Hins vegar eru væringar á erlendum mörkuðum þessa dagana. Viðskiptastríð Donalds Trump við Kínverja gæti hæglega haft afleiðingar fyrir heimsbúskapinn, sem gætu aftur smitast til Íslands. Það er rétt að gefa því gaum, en staða íslensk efnahagslífs hefur þrátt fyrir það sjaldan verið betur varin en einmitt nú.

Trump hugsar um fátt þessa dagana en að ná endurkjöri sem forseti. Sumir telja að hann þurfi að eiga í stríði við einhvern til að ná endurkjöri og viðskiptastríð verði hans stríðsrekstur. Það má vel vera. En það mun líka hafa veruleg áhrif á sigurlíkur Trumps hver staða efnahagsmála verður vestra. Viðskiptastríð gætu haft mjög neikvæð áhrif á hinn venjulega Bandaríkjamann og margt sem bendir til þess að hann eigi ekki mörg tæki eftir til þess að hvetja bandarískt efnahafslíf til frekari dáða í bráð. Snerrur hans við Seðlabanka Bandaríkjanna eru ekki heldur mjög traustvekjandi. 

 Íslensk ferðaþjónusta er líklega sá þáttur íslensks efnahagslífs sem berskjaldaðastur er gagnvart umheiminum. Ferðalög eru munaður fyrir flesta og meðal hins fyrsta sem fólk dregur úr í neyslu þegar harðnar í dalnum. Bandaríkjamenn eru um 40% allra ferðamanna á Íslandi og ef það þrengir að vestra er öruggt að íslensk ferðaþjónusta finnur fljótt fyrir því. Eins og fram kemur í Peningamálum fækkaði flugferðum til og frá landinu um fjórðung milli ára á öðrum fjórðungi ársins og á sama tíma komu 19% færri ferðamenn til landsins. Sætaframboð Icelandair var svo enn minna í sumar en áætlað var í maí vegna kyrrsetningar Max-þotanna. 

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom til Íslands í gær, eins og þeir sem þurftu að leggja leið sína í Borgartún urðu varir við, án þess þó að íslenskt fjármálalíf hafi lamast. Ýmsir urðu raunar til að amast við umstanginu, lífvörðunum og vopnaburðinum, jafnvel Pence sjálfum, sem hefur víst aðrar skoðanir á ýmsu en margir Íslendingar. Um það mátti fræðast mjög í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum í gær. Færri hafa hins vegar velt því fyrir sér eða komið með sannfærandi skýringar á því hvers vegna varaforsetinn lagði þessa lykkju á leið sína frá Írlandi.

Óðinn er sannfærður um að megintilgangurinn sé sá að efla tengsl Bandaríkjanna við Ísland á ný, treysta Leifslínuna gömlu. Meginástæðan er tæplega sérstakt dálæti á landi og þjóð, heldur geópólitísk. Annars vegar að minna Rússa á að Bandaríkin líti enn á Norður-Atlantshaf sem hluta af áhrifasvæði sínu, en hins vegar og ekki síður til þess að koma í veg fyrir að Kínverjar, kínversk fyrirtæki og stjórnvöld byggi upp aukin tengsl við Ísland, enda eru stjórnmál og athafnalíf þar eystra samofin með allt öðrum hætti en vaninn er á Vesturlöndum.

Segja má að með því sé verið að taka upp gamlan þráð, Leifslínuna, sem trosnaði mjög í upphafi aldarinnar þegar ríkisstjórn Bandaríkjanna ákvað einhliða brottflutning Varnarliðsins árið 2006. Enn fremur má segja að sá bláþráður hafi slitnað þegar Bandaríkin ákváðu að skilja Ísland, eitt Norðurlanda, eftir eitt á báti í fárviðri fjármálakreppunnar, og neitaði landinu um gjaldmiðlaskiptasamninga, sem þá hefðu getað riðið baggamun. 

 Að því leyti eru Bandaríkjamenn nú að reyna að flétta þá taug til Íslands aftur, að valda stöðu sem þeir skildu eftir í reiðileysi fyrir 13 árum.

Þeir sem stjórna Hvíta húsinu í dag hafa áttað sig á því að líklega voru mistök að hverfa algjörlega frá Íslandi árið 2006. Þótt þeir eyði nokkrum milljörðum í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, þá eru það smápeningar í stóra samhenginu, og nýtast sameiginlegum varnarhagsmunum landanna, sem þrátt fyrir allt hafa enn með sér varnarsamning. Og kannski þeir átti sig á því að ræktarleysi þeirra í hruninu var bæði lélegt gagnvart gömlum bandamanni og óskynsamlegt í ljósi þess sem eftir sigldi. Jafnvel svo að peningaleg samvinna landanna verði bætt og bundin samningum.

 En Íslendingar eiga ekki að taka þátt í viðskiptastríði sem kemur þeim ekki við. Ekki frekar en glórulausum viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna við Rússa, þar sem Íslendingar báru óvenjumikinn skaða af. Íslendingar eiga að leggja áherslu á að eiga viðskipti við alla. Það er líklegasta leiðin til friðar í heiminum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.