*

föstudagur, 21. janúar 2022
Óðinn
24. nóvember 2021 11:15

Peningamál Seðlabankans – sögð og ósögð orð

Óðinn fjallar um sögð og ósögð orð Peningamála Seðlabankans og galnar launahækkanir opinberra starfsmanna.

Haraldur Guðjónsson

Mikil átök hafa verið í stéttarfélaginu Eflingu eins og flestir vita. Formaðurinn Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson sagði starfi sínu lausu. Óðinn ætlar sér ekki að blanda sér í innanfélagsmál stéttarfélagsins í þessum pistli. Það er hins vegar mikið bjartsýnistal, sem Óðinn hefur orðið var við hjá sumum atvinnurekendum, að byltingarsinnuðu sósíalistarnir - réttu nafni kommúnistar - séu hættir tilraunum sínum til að koma á upplausn á íslenskum vinnumarkaði.

* * *

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í gær í kjölfar hækkunar stýrivaxta um 0,5% í 2% að launahækkanir á Íslandi væru úr takti við efnahagslegan veruleika.

Svar Ásgeirs við kröfu hógværari arms verkalýðshreyfingarinnar - eins fráleitt eins og það er að kalla þetta ágæta fólk það - um að launahækkanir mæti stýrivaxtahækkunum í næstu kjarasamningum var einfalt.

„Tveir plús tveir eru fjórir. Það er ákveðinn efnahagslegur raunveruleiki sem ræður því hvaða lífskjör við getum haft í þessu landi. Við getum ekki farið út fyrir það. Við höfum það hlutverk hér að tryggja það að það sem er samið um í kjarasamningum að það haldi sínu verðgildi. Okkar hlutverk er að tryggja það að íslenska krónan haldi sínu verðgildi og að allir aðilar sem semja í þessu landi geti reitt sig á það að hún haldi stöðugu verðgildi. Verkalýðsfélögin eða hverjir aðrir."

* * *

Peningamál og leyndarmál

Þetta er hárétt hjá seðlabankastjóranum. Peningamál seðlabankans komu einnig út í gær samhliða tilkynningu um vaxtahækkun. Þar er sitthvað áhugavert að finna um vinnumarkaðinn, atvinnuþátttöku og launaþróun.

Launafólki hefur einnig fjölgað hratt það sem af er þessu ári. Tölur úr staðgreiðsluskrá benda til þess að í faraldrinum hafi liðlega 18.000 störf tapast en að í ágúst í ár höfðu 16.700 störf orðið til á ný. Flest þeirra voru í ferðaþjónustu og hefur greinin endurheimt um helming þeirra starfa sem töpuðust í faraldrinum. Þá voru störf í atvinnugreinum sem að mestu endurspegla opinbera þjónustu orðin tæplega 7.000 fleiri en á árinu 2019.

Þetta eru svo sem ekki ný tíðindi að opinberi geirinn sé að blása út og að því virðist án nokkurs viðnáms þeirra sem stjórna stofnunum ríkisins.

* * *

Umfjöllun starfsmanna seðlabankans um launahækkanir síðasta misserið eru einnig áhugaverðar.

Á fyrri hluta þessa árs hækkaði vísitala heildarlauna um 9,6% frá sama tíma í fyrra eða um 0,6 prósentum meira en launavísitalan. Það bendir til þess að breytt samsetning launa eða vinnumagns hafi verið til þess fallin að hækka laun á vinnustund. Það kemur nokkuð á óvart að ekki megi greina slíka þróun á síðasta ári þegar láglaunastörfum fækkaði mikið.

Óðinn skilur hins vegar ekki hvers vegna einskis er getið um gríðarlegar launahækkanir hjá hinu opinbera í riti seðlabankans, að seðlabankastjóri skuli ekki fjalla sérstaklega um þær í kynningum og hvers vegna fjölmiðlar spyrjast ekki fyrir um þessar gölnu hækkanir.

* * *

Galnar hækkanir

Það er nefnilega ekki lengur svo - þó það verði án efa fyrr en síðar  - að starfsmenn Icelandair valdi launaskriði á Íslandi. Það eru opinberir starfsmenn.

Frá janúar 2019 til júní 2021 hafa laun samkvæmt launavísitölu hagstofunnar hækkað um 16,8% á almenna vinnumarkaðnum, 19,2% hjá ríkisstarfsmönnum og 25,2% hjá sveitarfélögunum.

* * *

Hafa ber í huga að þessar tölur ná yfir tvö og hálft ár. Á sama tímabili var verðbólga 8,8% sem er töluvert umfram verðbólgumarkmið og helgast aðallega af veikara gengi krónunnar í kjölfar Covid-19, hækkunum á hrávörumarkaði og hækkun íbúðaverðs.

* * *

Þessi verðbólga er líklega tímabundin þó að Óðinn sé fullviss um að íbúðaverð muni valda verðbólgu áfram næstu misserin vegna íbúðaskorts sem er tilkominn vegna lóðaskorts. Vaxtahækkanir seðlabankans munu aðeins gera það að verkum að íbúðir munu hækka minna í verði en ella.

* * *

Fyrir þessum launahækkunum sem fram koma í tölum Hagstofunnar er engin innistæða og munu þær að öllum líkindum halda atvinnuleysinu háu lengur en seðlabankinn spáir. Svo há laun og svo miklar launahækkanir hafa valdið því að fyrirtæki leggja mun meira kapp á sjálfvirknivæðingu en áður.

* * *

Eini aðilinn í hagkerfinu sem ekki mun huga að launakostnaðinum er sá sem getur velt honum beina leið yfir á herðar annarra - yfir á herðar skattgreiðenda.

* * *

Blýantsnögurum fjölgar

Óðinn hefur skoðað framsetningu opinberra stofnana á ýmsu talnaefni og virðist nánast hver stofnun hafa sína hentisemi með hvaða upplýsingar eru birtar um rekstur þeirra. Hjá sumum er auðvelt að finna nákvæman fjölda starfsmanna og ársverk, til dæmis hjá Háskóla Íslands, og hjá sumum kemur þetta hvergi fram eða er vel falið.

* * *

Þetta er til að mynda til fyrirmyndar á vef Seðlabankans þó að áhugavert hefði verið að sjá nákvæmari þróun fjölda starfsmanna á hverju ári frá stofnárinu 1961.

Í lok fyrsta starfsársins voru starfsmenn 61. Næstu árin fjölgaði þeim nokkuð, reyndar alveg fram undir 1990, þegar þeir voru um 150. Eftir það dró úr ýmissi starfsemi bankans, m.a. í tengslum við gjaldeyriseftirlit, auk þess sem bankaeftirlit var flutt frá bankanum þegar Fjármálaeftirlitið var stofnað. Starfsmönnum fjölgaði nokkuð í kjölfar þeirra erfiðleika sem riðu yfir í efnahagsmálum haustið 2008 og í árslok 2018 voru starfsmenn 181. Með sameiningu við Fjármálaeftirlitið í ársbyrjun 2020 fjölgaði starfsmönnum bankans talsvert en þá urðu þeir samtals 298, 155 karlar og 143 konur. Meðalaldur starfsmanna var þá 46 ár.

Óðinn skilur ekki hvernig stendur á því að starfsmannafjöldi Seðlabankans sé tvöfalt meiri en árið 1990. Þá voru bankastofnanir miklu fleiri, fjöldinn allur af sparisjóðum um allt land og tölvur mjög frumstæðar miðað við það sem er í dag. Vissulega höfum við flutt inn gríðarlegt magn reglna frá Evrópusambandinu. En fyrr má nú rota en dauðrota.

* * *

Ónógar upplýsingar

Hvers vegna er ekki fjallað ítarlegar um rekstur stofnana ríkisins og sveitarfélaga? Fjölda starfsmanna og ársverk, launakostnað, ferðakostnað, fríðindi, launaþróun, meðallaun svo eitthvað sé nefnt. Í dag er hugbúnaður sem hið opinbera notar það fullkominn að þetta gætu verið rauntímaupplýsingar í hverjum mánuði. Hvað ætli komi í veg fyrir þetta?

* * *

Gæti það verið að embættismannaveldið á Íslandi vilji þetta ekki því völd þeirra myndu minnka og raunverulegt framlag þeirra þyrfti að aukast vegna þess að almenningur myndi þar með hafa vopn til að veita aðhald?

* * *

Að þetta embættismannakerfi vilji hreinlega að svarið um hversu margir vinna hjá viðkomandi ríkisapparati sé áfram „um það bil helmingurinn" - og þá meðtaldir þeir sem eru á gríðarlega mikilvægu ferðalagi fyrir hönd ráðuneytisins eða stofnunarinnar erlendis?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.