*

miðvikudagur, 23. september 2020
Ósk Heiða Sveinsdóttir
30. ágúst 2020 13:33

Peppaða röddin var að hringja, til í spjall?

Tækifærin eru endalaus til að búa til eitthvað spennandi og einstakt sem getur skapað þínu fyrirtæki sterkan stað í hugum viðskiptavina.

epa

Markaðsmál eru mögnuð og í þeim geta falist verðmæt tækifæri fyrir fyrirtæki. Þau geta varpað ljósi á spennandi nýjungar og komið þinni rödd, vöru og þjónustu á framfæri við þá sem það skiptir máli. Tækifærin eru endalaus til að búa til eitthvað spennandi og einstakt sem getur skapað þínu fyrirtæki sterkan stað í hugum viðskiptavina. Þá skiptir máli að nota tækifærið rétt.

Hversu föst/fastur ert þú í að gera hlutina alltaf eins?

Um leið og sagt er: „þetta hefur alltaf verið svona“, þá þarf að ýta á stopp og skoða hlutina upp á nýtt. Ákvarðanafælni í bland við fastheldni er ein allra besta leiðin til þess að drepa niður frumkvæði og ástríðu, bæði hjá þér og teyminu þínu. Það vill kannski enginn viðurkenna að vera á þeim stað, en ef þú hefðir alveg frjálsar hendur, tækir út af borðinu öll verkefni sem búið væri að teikna upp og byrjaðir með alveg hreint blað – hvað myndir þú gera?

Í alvörunni, hvað myndir þú gera ef þú hlustaðir á ekkert nema háværu markaðs- og viðskiptaröddina í hausnum á þér og tilfinninguna sem kemur svo sterkt þegar tækifæri myndast. Þú veist hvaða rödd þetta er. Þetta er peppaða röddin sem öskrar á þig hugmyndir en þú þaggar sífellt niður í sökum annríkis.

Ef grunnurinn er sterkur, stefna, tilgangur, markmið og persónuleiki vörumerkisins alveg á hreinu, þá er mitt ráð til þín þetta: prófaðu og láttu vaða. Markhópurinn þinn hefur engan tíma eða þolinmæði fyrir innihaldslausri froðu eða stífri söluáherslu. Þú veist betur en svo. Grunnurinn er alltaf sá sami – gott samband við viðskiptavininn og þá eru ekki endalaus tækifæri gefin. Sem viðskiptavinur hefur þú væntingar til þeirra fyrirtækja sem þú velur að eiga viðskipti við og hikar ekki við að leita annað standist þær ekki.

Persónuleiki vörumerkis skiptir öllu í samtali við viðskiptavini. Þess vegna skiptir miklu að öll skilaboð sem fyrirtækið sendir frá séu í takt og innihaldi í grunninn sömu rödd en aðlagaðan tón fyrir hvern flöt og miðil. Það þarf ekki alltaf að vera partý, stundum eru málefnin alvarleg en þarf ekki að vera leiðinlegt eintal. Það hefur enginn eins mikinn áhuga á þér og þú, þannig að ef þú ert kominn með leiða á því sem fyrirtækið þitt hefur fram að færa, þá er viðskiptavinurinn þinn fyrir löngu hættur að hlusta.

Þar kemur efnismarkaðssetning sterk inn, og það besta er að slík stefna þarf ekki að vera flókin eða kostnaðarsöm en hér verður að vera til staðar áhugi, ástríða og metnaður til að vanda til verka. Áhersla á efnismarkaðssetningu getur líka verið góður byrjunarpunktur fyrir fyrirtæki sem hafa áhuga á að auka samtal við viðskiptavini og hafa áhugaverða sögu að segja. Markmiðið með slíku samtali er að byggja upp og styðja við ímynd fyrirtækisins sem traustrar uppsprettu upplýsinga og gæða.

Eitt af því sem efnismarkaðssetning getur gert er að færa áhersluna af sölumennsku og söludrifnum skilaboðum yfir í að deila upplýsingum, ráðum og að eiga raunverulegt samtal við viðskiptavini. Forðastu að troða upp á viðskiptavini þína því sem þú heldur að þeir vilji heyra  heldur leggðu vinnu í að skilgreina það virði sem þú getur veitt þínum hóp. Settu þig í spor þeirra, er efnið sem þú ert að birta áhugavert, aðgengilegt og hefur eitthvert virði fyrir þann sem því er beint að? Ekki? Slepptu því þá að birta og farðu aftur að teikniborðinu. Samfélagsmiðlar eru frábær leið til þess að hlusta á viðskiptavininn, sjá hverju hann hefur áhuga á og hvaða spurningar brenna á honum.

  • Ef þú vilt ekki fá svarið, ekki spyrja spurningarinnar. Ef þú vilt ekki heyra frá þínum viðskiptavinum, þeirra skoðun á þér og þinni þjónustu, þá ertu ekki á góðum stað. Sama hversu glitrandi kynningarefnið þitt er bætir það ekki upp áhugaleysi á viðskiptavininum.
  • Samræmd upplifun, útlit og tilfinning hvar sem fyrirtækið birtist; vefur, þjónustuver, afhending o.s.frv. Gott að hafa í huga ferðalag viðskiptavinarins (e. customer journey), þar sem litið er á samskipti við viðskiptavin sem ferðalag og hugað er að öllum snertiflötum. Gögn skipta miklu máli. Notaðu þau til ákvarðanatöku.
  • Fylgistu með nýjustu straumum í stafrænni þróun, hlustar á markaðinn og leitar leiða til að geta betur? Nýttu nýja strauma og ekki úreldast. Það eru ekki endalausir sénsar gefnir, en þú færð tækifæri á meðan þú ert að bæta þig og ert heiðarleg/ur með það.

Notaðu tækifærið einmitt núna til þess að hlusta á peppuðu röddina, hráu hugmyndirnar og verkefnin sem þú veist að eiga eftir að hafa raunveruleg áhrif og keyra árangurinn upp í hæstu hæðir. Notaðu þekkinguna sem til staðar er í fyrirtækinu þínu, byggðu á reynslu en hafðu þor til að breyta og gera hlutina á ferskan og kraftmikinn hátt.

Höfundur er forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.