*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Leiðari
11. ágúst 2017 15:18

Perlur fyrir svín

Ljóst er að Ísland er orðið eftir á þegar kemur að uppbyggingu gagnavera og lítið virðist gert til að senda önnur skilaboð til erlendra fjárfesta að mati leiðarahöfundar.

„Framleiðslukostnaður á rafmagni er líklegast sá lægsti í heiminum auk þess sem veðurskilyrði á Íslandi gera það að verkum að hægt er að tryggja ókeypis kælingu allan ársins hring.“
Aðsend mynd

Fjölmargar nágrannaþjóðir okkar líta á uppbyggingu gagnavera sem eitt af stóru vaxtartækifærum framtíðarinnar og það ekki að ástæðulausu. Af mörgum mögulegum dæmisögum má nefna að árið 2015 voru heildarefnahagsleg áhrif slíkrar starfsemi í Svíþjóð til að mynda 13 milljarðar sænskra króna eða sem nemur tæpum 152 milljörðum íslenskra króna. Sama ár voru 2.100 full stöðugildi tengd starfseminni, það er því ekki að furða að hinar ýmsu þjóðir sýni slíkri uppbyggingu áhuga enda miklir hagsmunir í húfi.

Það er óumdeilt meðal sérfræðinga víðs vegar að á Íslandi eru frá náttúrunnar hendi kjöraðstæður fyrir uppbyggingu gagnavera. Framleiðslukostnaður á rafmagni er líklegast sá lægsti í heiminum auk þess sem veðurskilyrði á Íslandi gera það að verkum að hægt er að tryggja ókeypis kælingu allan ársins hring. Sá orkusparnaður sem hlýst af veðráttu Íslands getur þýtt umtalsverðan sparnað við rekstur gagnavers á Íslandi samanborið við önnur lönd. Loks er landfræðileg lega Íslands einnig ákjósanleg og gætum við verið í kjörstöðu ef hér væri gagnatenging beint við Norður-Ameríku, þ.e. án viðkomu langt uppi á vesturströnd Grænlands. Ísland er þannig staðsett mitt á milli tveggja stórra markaða, meginlands Evrópu og Bandaríkjanna.

Svo virðist hreinlega vera sem Íslendingar hafi þarna fengið óvænta gjöf upp í hendurnar, gjöf sem gæti skipt sköpum fyrir íslenskt þjóðarbú, aukið fjölbreytni á tiltölulega einhæfum atvinnumarkaði og það á nokkuð umhverfisvænan máta. Það þarf hins vegar lítils háttar áræðni til að hagnýta slíka auðlind og eins og er virðist sem perlum hafi hér verið kastað fyrir svín.

Nágrannar okkar í Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Írlandi og á fleiri svæðum hafa sett það á oddinn hjá sér að laða til sín erlenda fjárfesta, þar á meðal fyrirtæki sem hafa það að markmiði að opna gagnaver á svæðunum. Hefur það verið gert með miklum mannafla og fjölmörgum aðferðum sem ekki verða tíundaðar hér. Það er skemmst frá því að segja að Ísland kemur illa út í samanburðinum.

Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hefur það hlutverk að sinna slíku markaðsstarfi fyrir hönd stjórnvalda en í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum lýsti Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandstofu, því að það væru þrjú og hálft stöðugildi að vinna í því að laða til landsins erlenda fjárfestingu. Starf tengt uppbyggingu gagnavera væri þar innifalið, ekki traustvekjandi það.

Áhugaleysi stjórnvalda er hins vegar hvergi jafn átakanlega áberandi og þegar litið er til þess skorts sem virðist vera á nauðsynlegum innviðum til að hagnýta þessa auðlind sem við fengum algerlega fríkeypis upp í hendurnar. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins sem fjallar um hagræn áhrif gagnavera kemur fram að gagnatengingar við Ísland séu mikilvægasta vaxtarforsenda iðnaðarins á Íslandi. Tengingar landsins eru hins vegar þannig að alþjóðlegar spár gera ekki ráð fyrir Íslandi sem þátttakanda í framtíðarvexti greinarinnar. Sláandi niðurstöður sem virðist þó ekki hafa hreyft við sérstaklega mörgum.

Hér er ekki um að ræða smávægilegan galla eða meinsemd í umhverfinu, hér er einfaldlega um að ræða forsendubrest sem gerir það að verkum að Ísland er ekki samkeppnisfært. Það sést best í óbirtri skýrslu sem unnin var fyrir Íslandsstofu en þar kemur fram að 12 af 14 gagnaverafyrirtækjum sem rætt var við töldu að skortur á gagnastrengjum við landið væri vandamál og það sem helst stæði landinu fyrir þrifum.

Nútímatækniumhverfi er ekki flókið hvað þetta varðar, annaðhvort tileinkar maður sér nauðsynlegar tæknibreytingar eða situr eftir á meðan aðrir fylgja þróuninni. Ljóst er að Ísland er orðið eftir á í þessu tilviki og lítið virðist gert til að senda önnur skilaboð til erlendra fjárfesta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.