*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Huginn og muninn
2. apríl 2021 11:06

Pínu-pons svekktir

Um leið og nýju sóttvarnareglurnar voru kynntar heyrðist mikið harmakvein frá leikskólakennurum.

Færði Þórólfur góð rök fyrir þeirri ákvörðun að loka grunnskólum.
Kristinn Magnússon

Í síðustu viku voru sóttvarnareglur enn á ný hertar. Á meðal aðgerða sem gripið var til var að loka grunn- og framhaldsskólum. Færði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir góð rök fyrir þessari ákvörðun. Sagði hann rannsóknir í nágrannalöndunum sýna að börn á grunnskólaaldri væru í aukinni smithættu vegna breska afbrigðisins svokallaða, sem numið hefur land hérlendis.

Um leið og nýju reglurnar voru kynntar heyrðist mikið harmakvein frá leikskólakennurum, sem þrátt fyrir röksemdir Þórólfs, gagnrýndu harðlega að leikskólar ættu að vera opnir. Með fullri virðingu fyrir því mikilvæga starfi sem leikskólakennarar sinna þá læðist að hröfnunum ákveðinn grunur.

Áður en lengra er haldið er ágætt að hafa sama formála og ágætur maður í Vatnsmýrinni hafði áður en hann tók pinnann úr sprengjunni í Kastljósi á dögunum. „Svo er annað í þessu sem má ekki ræða, sem er svolítið erfitt." Hrafnarnir telja að þeir leikskólakennarar sem hæst kveinuðu hafi bara verið pínu-pons svekktir að komast ekki í páskafrí á sama tíma og grunnskólakennarar.

Númer 8 í röðinni

Sumir í stéttinni tóku djúpt í árinni og sögðu að starfsfólk á leikskólum væri nú sett í framlínuna og töluðu jafnvel fyrir því að vegna þessa ætti það að fara framar í bólusetningarröðina. Eins og staðan er í dag þá eru leikskólakennarar númer 8 í röðinni af 10, rétt á eftir fólki með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem eru númer 7.

Hrafnarnir geta því ekki alveg verið sammála þessum kröfum og furða sig raunar á því að fyrir utan veikt fólk séu nánast eingöngu opinberir starfsmenn í forgangi þegar kemur að bólusetningu. Það skilja allir að heilbrigðisstéttirnar séu þar en af hverju eru t.d. fangaverðir númer 4 í röðinni? Ef það eru einhverjir sem ættu að eiga auðvelt með að virða tveggja metra regluna þá eru það fangaverðir.

Afhverju eru það alltaf opinberu starfsmennirnir sem reka upp ramakvein á meðan varla heyrist stuna úr einkageiranum? Starfsfólk matvöruverslana vinnur bara sína vinnu þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir að það umgangist þúsundir ókunnugra viðskiptavina og séu í miklu meiri smithættu heldur en leikskólakennarar, svo ekki sé nú talað um fangaverði.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.