*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Týr
19. apríl 2020 09:08

Plágan, flugið og ferðaþjónustan

Það er tóm tjara að ferðaþjónustan muni taka annað en allmörg ár, 3-5 í það minnsta, að taka aftur til starfa eins og frá var horfið.

Haraldur Guðjónsson

Tý finnst eins og það sé nánast eins og í gær, sem Isavia og Aton birtu undursamlega spádóma þess efnis að eftir 20 ár myndi tíundi hver starfandi Íslendingur vinna á Keflavíkurflugvelli, sem þá gæti vel verið kölluð „Airport City" eins og þekktist víða erlendis.

                                                                 ***

En nei, það var víst fyrir fjórum árum, sem þeir órar um hina nýju stóriðju birtust litprentaðir á lúxuspappír. Í fyrragær birtust hins vegar fréttir um að Isavia ætti laust fé til fimm mánaða ef ekki rættist úr, Kínaplágan gengi yfir og eðlilegar flugsamgöngur hæfust á ný.

Til samanburðar var nefnt að nú yfir páskahátíðina hefðu 99 farþegar farið um KEF, en í fyrra hefðu þeir verið um 84 þúsund. Þegar hefur verið sagt upp 100 manns á Keflavíkurflugvelli og einstaklega ósennilegt að ekki þurfi að segja upp mun fleirum. Eins blasir við að allar fjárfestingaráætlanir Isavia eru í uppnámi og er þá vægt til orða tekið.

                                                                 ***

Samt er það nú svo að Týr hefur engar áhyggjur af Isavia og KEF, a.m.k. í samanburði við þær áhyggjur sem hann hefur af öðrum þáttum íslenskrar ferðaþjónustu. Það er enginn að skafa utan af hlutunum þegar núverandi vandi ferðaþjónustunnar er ræddur, en margir eru einkennilega loðnir í máli þegar talið berst að framtíðinni. Tala jafnvel eins og ferðaþjónustan muni bara taka aftur til starfa þegar plágan er um garð gengin, svo framarlega sem hún er varin falli nú.

                                                                 ***

Það er kannski sagt af tillitssemi við viðkvæmar sálir, en það er tóm tjara. Ferðaþjónustan eins og við höfum þekkt hana síðustu misseri er búin að vera. Vel má vera að hana megi byggja upp á ný, en þangað til eru allmörg ár, 3-5 ár hið minnsta.

Ferðamennska er mjög háð ráðstöfunarfé fólks, en ljóst má vera að í heimsfaraldrinum hefur mjög grynnkað á því hjá þorra fólks og efnahagshremmingarnar rétt að hefjast. Jafnvel þó svo að það gengi skjótt yfir þá eru hin sálrænu áhrif ekki til þess að ýta undir ferðalög á framandi slóðir. Fyrir íslenska ferðaþjónustu er þá aðalviðfangsefnið að setja fjárfestingarnar í salt, verja þær og framlengja fjármögnun.

                                                                 ***

Milljarðsdollaraspurningin er hins vegar hvað eigi að gera við flaggflugfélagið. Er hægt að bjarga því? Eða kannski frekar, hvort minnsta ástæða sé til þess að reyna. Samgöngur til og frá landinu velta ekki á því hvaða fáni er á vélunum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Isavia ferðaþjónusta Covid 19
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.