*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Óðinn
30. maí 2019 18:03

Plastbankamálið

Skýrsla Seðlabankans um þrautarvaralán til Kaupþings þarf að taka með fyrirvara því þarna er bankinn að rannsaka sjálfan sig.

Haraldur Guðjónsson

Skýrsla Seðlabankans um þrautarvaralán til Kaupþings var birt í vikunni. Skýrsluna þarf að taka með fyrirvara því þarna er bankinn að rannsaka sjálfan sig. Sérstaklega þegar kemur að atriðum er varða starfsmenn hans og bankann sjálfan. Ekki síst í ljósi snúðugs fyrirvara um að bankinn hafi nú ýmsu þarfara að sinna.

***

Það er ekki einsdæmi að opinberar stofnanir setji upp slík leikrit. Í plastbarkamálinu svokallaða voru tilteknir starfsmenn Háskóla Íslands og Landsspítalans sakaðir um lögbrot. Þá brugðu rektor háskólans og forstjóri spítalans á það ráð að skipa sjálfir rannsóknarnefnd og kölluðu hana sjálfstæða.

***

Það tók Seðlabankann ekki nema fjögur ár að rita skýrsluna. Í formála seðlabankastjóra kemur fram að skýrslan væri langt frá því að vera forgangsmál.

***

„Mikið efni liggur fyrir um söluna á FIH og þær breytingar á samningnum um hana sem gerðar voru á árunum á eftir. Það er hins vegar ekki auðhlaupið að túlka það efni og setja saman í aðgengilegan texta án töluverðrar aðkomu þeirra sem stóðu í samningunum. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða starfsmenn sem hafa verið mjög önnum kafnir í öðrum verkum. Reynt hefur verið að fylgja þeirri meginreglu í starfi Seðlabankans á undanförnum árum að úrlausnarefni nútíðar og framtíðar hafi forgang umfram málefni fortíðarinnar.“

***

Þetta er kostuleg afsökun fyrir drættinum. Seðlabankinn var lengst af skúffa í Landsbanka Íslands. Í dag starfa 180 manns hjá bankanum, en samt er bankinn nánast ófær um að taka saman skýrslu, sem minnir um margt á miðlungserfitt verkefni í háskóla, á eðlilegum tíma. Af því einu virðist sem stjórnsýsla bankans sé í jafnvel enn meiri molum en menn hafa óttast.

***

Umfjöllun um lánveitinguna til Kaupþings heitins má skipta í fernt: Aðdraganda lánveitingarinnar, lánveitinguna sjálfa, sölu danska FIH bankans og ráðstöfun lánsfjárins.

***

Kaupþing Búnaðarbanki keypti FIH (FinansieringsInstituttet for Industri og Håndværk A/S) árið 2004 fyrir einn milljarð evra, sem um flest voru mjög skynsamleg kaup.

***

Árið 2008, þegar lausafjárkreppa var hafin, sóttist mikill fjöldi banka um allan heim eftir aðstoð frá seðlabönkum síns myntsvæðis eða ríkis. Íslensku bankarnir voru þar engin undantekning. Til að mynda sóttist Glitnir formlega eftir láni í Seðlabankanum að fjárhæð 600 milljónir evra 25. september 2008. Gjaldeyrisforði Seðlabankans var töluverður en í engu samræmi við risastóran efnahag stóru viðskiptabankanna þriggja. Ómögulegt hefði verið að bjarga öllum þremur bönkunum, en hugsanlega einum.

***

Þrautavaralán og regla Bagehot

Annað mál er hvort það hefði verið rétt að reyna það með öllum freistnivandanum, mismunun í fyrirgreiðslu og siðferðislegum álitaefnum öðrum. Fyrir nú utan hvað það er, sem seðlabankar mega gera við þessar aðstæður og hvað þeir eiga að gera, sem er hreint ekki alltaf hið sama.

***

Hin gullna regla Walters Bagehot, sem hann setti fram í hinni sígildu bók sinni um fjármálamarkaði, Lombard Street (London, 1873), og ætti að vera öllum bankamönnum skyldulesning, var á þann veg að í fjármálakreppu ættu seðlabankar að vera örir á fé til þess að afstýra uppnámi eða verra á fjármálamörkuðum. Ekki þó skilyrðislaust. Þeir ættu að lána snemma og eins mikið og þörf væri talin vera á, en við mjög háum vöxtum, þeir ættu aðeins að lána til gjaldfærra fjármálastofnana og einungis við öruggum tryggingum.

***

Vandinn í aðdraganda bankahrunsins var hins vegar sá, eins og áður var rakið, að efnahagsreikningur viðskiptabankanna þriggja var í engu samræmi við burði íslensks efnahagslífs og lá raunar að megninu til erlendis og í erlendri mynt, sem Seðlabanki Íslands hvorki gat snarað fram né hefur sérstakt hlutverk til þess að sinna.

***

Það er miður að aðdragandi og forsendur lánveitingarinnar til Kaupþings falla að mestu leyti utan skýrslunnar. Óðinn hefur ítrekað bent á að þann hluta málsins þurfi að rannsaka sérstaklega. Ekki með platrannsókn, eins og plastbarkamálinu og nú þessu máli, heldur með vandaðri og opinberri alvörurannsókn, sem Seðlabankinn tekur af alvöru, hvað sem líður handvömm í yfirstjórninni.

***

Símtal Davíðs og Geirs

Eins og sést á endurriti af símtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde um lánsumsókn Kaupþings, vildi annar lána en hinn ekki. Þetta gerðist örlagaríka daga og nætur, þegar hrikti í stoðum íslensks samfélags og einstaklinga. Í því samhengi er ekki unnt að líta hjá því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins og staðgengill forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, átti verulegra persónulegra hagsmuna að gæta, þar sem eiginmaður hennar var meðal æðstu stjórnenda Kaupþings, átti umtalsverðan hlut í Kaupþingi og fjárhagur þeirra hjóna verulega undir afdrifum Kaupþings komið.

***

Davíð: „Halló.“

Geir: „Sæll vertu.“

Davíð: „Sæll. Það sem ég ætlaði að segja þér, sko, sko… við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónir evra, en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja 4-5 daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.“

Geir: „Nei.“

Davíð: „Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi.“

Geir: „Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi, allavega þessir Morgan [Stanley] menn.“

Davíð: „Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir 4-5 daga en ég held að það séu ósannindi… eða við skulum segja óskhyggja.“

***

Að loknu samtali Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar hafði Davíð samband við Hreiðar Má Sigurðsson, þáverandi bankastjóra Kaupþings, en enn fremur var leitað ráða hjá tveimur bankastjórum danska seðlabankans um hvort FIH væri traust veð fyrir láninu. Þeir töldu svo vera.

***

Eftir á að hyggja virðist ljóst að Seðlabankamenn (og sennilega hagfræðingurinn Geir H. Haarde líka) höfðu reglu Bagehot í huga varðandi lánveitinguna. Ekki þó í einu og öllu, því aðferðin og skilyrðin voru misvel uppfyllt.

***

Bagehot talaði um að þrautavaralán skyldu veitt snemma og af örlæti, en beiðni Kaupþings kom ekki fyrr en allt var komið í hreinustu óefni og Davíð hafði augljóslega efasemdir um að upphæðin hrykki til. Kannski hann hefði viljað vera örlátari, en Seðlabankinn átti einfaldlega ekki meira til. Sömuleiðis hafði Bagehot það að skilyrði að lánin skyldu bera háa vexti, að lántakar yrðu að vera gjaldfærir og að veðin yrðu að vera mjög trygg. Um gjaldfærni bankans var vitaskuld alger óvissa, en aftur taldi Davíð hana mikla óskhyggju. Um þetta lét hann þó hið pólitíska yfirvald hafa síðasta orðið, honum hefði vart verið stætt á öðru, en í ljósi sögunnar má vel spyrja hvort Seðlabankinn ætti ekki einmitt að geta boðið framkvæmdavaldinu byrginn um það. En jú, vextirnir voru háir þó þeir væru varla refsandi, og veðið var ákaflega tryggt. Alveg þar til arftaki Davíðs, Már Guðmundsson, eyðilagði það.

***

Danskir lífeyrissjóðir kaupa

Seðlabankinn tók veðið ekki formlega yfir vegna ákvæða í lánasamningum FIH, en átti þess í stað samstarf við skilanefnd Kaupþings. Tilraunir voru gerðar til að selja bankann þegar í stað, en það var vonlaust á þeim dögum. Sumarið 2009 birti þó ögn til þegar PFA Pension, næststærsti lífeyrissjóður Danmörku, sýndi bankanum áhuga.

***

Tvö tilboð bárust í bankann síðla árs 2010. Í hópnum, sem lagði fram hærra tilboðið, voru stærstu lífeyrissjóðir Danmerkur. Tilboðsfjárhæðin var 5.000 milljónir danskra króna og var gengið að því. Aðeins 38% kaupverðsins var þó staðgreiddur, en 62% með seljandaláni, sem myndi lækka í takt við afkomu bankans fram til ársins 2014.

***

Í raun má segja að þessi samningur sé ömurlegur. Seðlabankinn bar í raun alla áhættu í viðskiptunum og var þar algerlega undir ytri aðstæður kominn, sem hann gæti ómögulega brugðist við. Til að gera illt verra var hann um leið galopinn fyrir aðgerðum kaupenda til þess að reyna að lækka endurgreiðsluskyldu sína, eins og á daginn kom.

***

Hjá hinu verður þó ekki litið að markaðsaðstæður voru sömuleiðis ömurlegar, fjármálakerfi víða um heim á heljarþröm, og því alls óvíst að betri samning hafi verið að fá. Mun betra hefði verið fyrir Seðlabankann að lækka kaupverðið verulega og fá það greitt að fullu. Í skýrslunni segir að kaupendurnir hafi ekki viljað það.

***

Már Guðmundsson seðlabankastjóri féll frá kröfum í þrotabú Kaupþings vegna þrautavaralánsins gegn því að Seðlabankinn fengi eignarhlutinn í FIH framseldan, en skilanefndin fengi í sinn hlut söluverð bankans umfram 550 milljónir evra.. Umfjöllun um þetta er fábrotin í skýrslunni og Óðinn sér ekki rökin fyrir þessari eftirgjöf Seðlabankans. Vissulega var ekki bjart útlit um endurheimtur, en þær urðu á endanum yfir 30% eða í námunda við það hlutfall, sem bankinn fengi örugglega út úr sölunni á FIH. Þar með færðist áhætta Seðlabankans alfarið á hlutabréfin í FIH.

***

Það má segja að kaupsamningurinn sem var gerður hafi verið eins vondur og hugsast gat fyrir Seðlabankann. En aftur, bankanum til málsbóta, voru aðstæður erfiðar, dönsk stjórnvöld notuðu, eða misnotuðu, stöðu sína dönsku lífeyrissjóðunum í hag á kostnað íslenska Seðlabankans. Aðallega var það gert í gegnum fjármálaeftirlitið danska (sem vekur margháttaðar spurningar um samhæfingu og samstarf í reglubindingu evrópskra fjármálamarkaða). Niðurstaðan var sú að aðeins um 260 milljónir evra fengust upp í 500 milljóna evra höfuðstól kröfunnar.

***

Miklar sögusagnir, að ekki sé talað um samsæriskenningar, hafa verið um hvert andvirði lánsins rann. Í skýrslunni er að finna stærstu einstöku færslurnar þessa raunadaga. Þar er ekkert að finna sem styður sögusagnir um að eigendur eða stjórnendur Kaupþings hafi misfarið með lánið frá Seðlabankanum.

***

Gagnsemi þrautavaralána

Óðinn hefur miklar efasemdir um að seðlabankar eigi að veita þrautavaralán, en í kringum bankahrun virtust margir (og alls ekki aðeins á Íslandi) telja að allar fjármálastofnanir hefðu réttinn til þeirra nánast meitlaðar í stein af Sínaífjalli. En það er ekki svo, því þrautavaralán snúast um það að bjarga markaðnum frá óþarfa áföllum, ekki að bjarga lélegum bönkum í vondum málum.

***

Seðlabankar mega veita þrautavaralán samkvæmt fyrrnefndri reglu Bagehots og þeim ströngu skilyrðum, sem þar eru sett. En þau þurfa þá að vera trygg, þjóna markmiðum seðlabankans og hagsmunum heilbrigðs fjármálamarkaðar, þau þurfa að hrökkva til og vera til þess fallin að afstýra ofsahræðslu á markaði. Eðli málsins samkvæmt eru slík lán áhættusöm, en ef rétt er á haldið eiga þau ekki að vera það: seðlabankinn viðheldur gjaldfærum, virkum og lífvænlegum fjármálamarkaði með tryggum og ábatasömum lánum. Um leið þurfa hins vegar slæmu bankarnir að sigla sinn sjó til Nástranda (að breyttu breytanda í röð kröfuhafa, innstæðutrygginga o.s.frv.). Vegna sérstöðu seðlabanka á skuldabréfamarkaði, peningaprentunarvalds og með ríki og þjóð að bakhjarli, getur hann beitt sér af alefli á heimavelli. Og þeir fjármunir eru eins þolinmóðir og vill.

***

Hlutverk Seðlabanka á örlagatímum sem þessum er sem fyrr segir að viðhalda virkni og trúverðugleika fjármálamarkaða, standa vörð um myntina og greiðslumiðlunarkerfið. Það gera þeir ekki síst með myndugleika og staðfestu. Eins og tókst raunar eins vel til og óska mátti í bankahruninu og erlendir sérfræðingar ljúka miklu lofsorði á nú. En þegar Már Guðmundsson fór á taugum og setti FIH á brunaútsölu sýndi hann að SÍ var plastbanki, ekki seðlabanki.

***

Það gerði svo illt verra, að þar var Már ekki aðeins að bregðast við óhagstæðum og ófyrirséðum ytri skilyrðum, heldur bliknaði hann fyrir dönskum kollegum í betur pússuðum skóm (í „hinu alþjóðlega seðlabankasamfélagi“!), sem tóku einfaldlega snúning á sveitamanninum. Það varð ekki til þess að auka trúverðugleika Seðlabankans út á við. Mátti hann þó ekki við miklu á þeim dögum.

***

Vandinn er auðvitað sá að í opnu og alþjóðlegu fjármálaumhverfi eiga einstakir seðlabankar nær ekkert í ógnaröfl hins alþjóðlega fjármálamarkaðar. Spyrjið bara Kínverjana um það þessa dagana og þá fara menn nærri um hvers Seðlabanki Íslands var megnugur haustið hræðilega 2008.

***

Í þeim efnum kemur æðruleysisbænin sterk inn: Guð — gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.

***

Seðlabankastjórinn Davíð Oddsson hafði enda verulegar efasemdir um lánveitinguna á sama tíma og forsætisráðherrann Geir Haarde reyndi að tína til rök fyrir henni og hafði úrslitaáhrif um hana. Það eitt og sér er rannsóknarefni, en ekki þó síður hvernig og fyrir hverra tilverknað það allt gekk til.

***

Annað rannsóknarefni bíður svo nýs seðlabankastjóra, en það er að taka til athugunar viðbúnað, aðgerðir og ráðgjöf Seðlabankans í bankahruninu og aðdraganda þess. Óðin grunar að hún muni leiða í ljós að þar hafi þrekvirki verið unnið, sem verði bankanum og stjórnendum hans til ævarandi sæmdarauka. Og hins vegar stefna, stjórnsýsla og vinnubrögð í endurreisnarstarfinu: samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, gjaldeyrisvarasjóður, eignastýring, skuldabréfakaup, fjármagnshöft, gjaldeyriseftirlit, gengisstefna, peningamál, vextir og þar fram eftir götum. Óðin grunar að að sú saga verði ekki jafnglæsileg.

Ráðstöfun Kaupþingslánsins Lán

Seðlabankans var greitt inn á reikninginn 6. október 2018. Aðrar inngreiðslur á reikninginn námu samtals 698 milljónum evra. Staðan í upphafi dags, 6. október, var neikvæð um 387 milljónir evra. Útgreiðslur af evrureikningi félagsins frá þeim tímapunkti og til dagsloka 8. október 2008 voru sem hér segir (samandregið):

  • Útgreiðslur til innstæðueigenda í Kaupþing EDGE að fjárhæð €225M.
  • Greiðsla til norræns seðlabanka að fjárhæð €170M.
  • Greiðsla til tveggja erlendra félaga að fjárhæð €50M vegna útgáfu lánshæfistengdra skuldabréfa (e. CLN).
  • Greiðsla vegna veðkalls í tengslum við endurkaupasamning (e. REPO) til tveggja evrópskra banka að fjárhæð €47M.
  • Greiðslur vegna gjaldeyrisviðskipta að fjárhæð €203M.
  • Smágreiðslur (lægri en €10M), 4-500 talsins, í heild að fjárhæð €114,5M.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.