*

mánudagur, 1. júní 2020
Leiðari
8. nóvember 2019 13:03

Play í kastljósinu

Eftir fundinn var tilfinningin sú að forsvarsmenn Play hefðu getað veitt betri upplýsingar, verið skýrari í svörum og nýtt kastljósið betur.

Stofendur félagsins; Þóroddur Ari Þóroddsson, Bogi Guðmundsson, Arnar Már Magnússon og Sveinn Ingi Steinþórsson.

Þriðjudaginn 5. nóvember í fyrra var tilkynnt um samningaviðræður Wow air og Icelandair. Eins og margir muna þá runnu þær viðræður út í sandinn þremur vikum síðar. Þann 21. mars síðastliðinn tóku félögin reyndar upp þráðinn á nýjan leik en upp úr slitnaði þremur dögum síðar og þann 28. mars fór Wow í þrot.

Mjög fljótlega eftir fall Wow air fóru að berast fregnir af því að ýmsir hefðu áhuga á að stofna nýtt flugfélag. Í byrjun júlí á þessu ári var greint frá því að hópur fjárfesta, auk tveggja fyrrverandi stjórnenda hjá Wow, hefðu áhuga á að reisa nýtt félag á grunni Wow air. Vinnuheiti þessa félags var WAB air.

Í júlí kom síðan bandaríska athafnakonan Michele Ballarin inn á sjónarsviðið, einnig með áform um að stofna „nýtt“ Wow. Ballarin hélt blaðamannafund á Grillinu á Hótel Sögu í byrjun september þar sem hún sagði meðal annars að jómfrúarflug nýs Wow air yrði í lok október. Nú er kominn nóvember og enn er beðið eftir jómfrúarflugi Ballarin. Þegar tilkynnt er um stofnun fyrirtækja fer myndin yfirleitt að skýrast með tímanum, fyrirætlanir eigenda og þess háttar, en í tilfelli Ballarin er það öfugt.

Í vikunni, eða nánar tiltekið þann 5. nóvember, tóku forsvarsmenn WAB af skarið. Haldinn var kynningarfundur í Perlunni, þar sem greint var frá því að hið nýja félag hefði fengið nafnið Play og einkennisliturinn yrði rauður.

Á fundinum var jafnframt greint frá því að bókunarkerfið væri klárt, heimasíðan komin í loftið og að félagið væri á lokametrunum með að fá flugrekstrarleyfi. Á fundinum sagði Arnar Már Magnússon, forstjóri félagsins, að fjármögnun væri lokið. Um 80% fjárins kæmi erlendis frá en 20% frá Íslandi. Kom fram að breskur fjárfestingarsjóður kæmi m.a. að fjármögnuninni.

Eftir allt sem á undan er gengið þá skaut óneitanlega skökku við að ekki skyldi hafa verið upplýst nákvæmlega hvernig fjármögnuninni væri háttað. Hversu stór hluti væri hlutafé og hversu stór lánsfé, sem og hverjir stæðu á bakvið hið nýja félag. Einnig kom fram að Íslensk verðbréf héldu utan um fjármögnunina. Seinna þann sama dag og kynningarfundurinn var haldinn var Jóhann M. Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, í viðtali á Túrista. Þar greindi hann frá því að grunnfjármögnun Play væri tryggð en þó með fyrirvörum á borð við að flugrekstrarleyfi fáist. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að enn sé stefnt að því að afla 12 milljóna evra eða um 1,7 milljarða króna. Fréttablaðið greindi einnig frá þessu í gær.

Þrautaganga Wow air við sína fjármögnun ætti að vera víti til varnaðar. Neytendur vilja fá upplýsingar um fjármögnun flugfélaga. Ef þessar upplýsingar liggja ekki fyrir er hætta á að þeir veigri sér við að kaupa flugmiða. Brennt barn forðast eldinn.

Eftir kynningarfundinn var tilfinningin sú að forsvarsmenn Play hefðu getað veitt betri upplýsingar, verið skýrari í svörum og nýtt kastljósið betur. Ef flugrekstrarleyfið hefði verið í höfn þá hefðu þeir til að mynda getað hafið miðasölu á sama tíma og fundurinn stóð yfir.

Á meðal forsvarsmanna hins nýja félags eru Arnar Már Magnússon og Sveinn Ingi Steinþórsson en þeir voru báðir lykilstarfsmenn hjá Wow air. Sveinn Ingi var yfirmaður hagdeildar Wow og sat í framkvæmdastjórn félagsins og Arnar Már Magnússon var framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs. Eðli málsins samkvæmt búa þessir menn yfir mikilli reynslu, sem vonandi mun nýtast Play.

Viðskiptablaðið vill hag íslensks atvinnulífs sem mestan. Þó saga íslensks flugrekstrar sé þyrnum stráð eins og örlög Wow, Iceland Express og Arnarflugs bera vitni um þá er rými fyrir nýtt flugfélag á markaðnum enda vöxtur ferðaþjónustunnar verið gríðarlegur á síðustu árum. Vonandi ber stjórnendum Play gæfa til að nýta sér tækifærið til hagsbóta fyrir íslenska neytendur og ferðaþjónustu.

Fáir þekkja betur til flugrekstrar en Arngrímur Jóhannsson stofnandi Air Atlanta. Þegar hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu var hann spurður af blaðamanni hvort hann væri með einhverja sérstaka þekkingu á viðskiptum. „Ég sagði nei en ég veit hins vegar að innkoman verður að vera meiri en útgjöldin.“

Stikkorð: Play
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.