*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Huginn og muninn
19. júlí 2020 09:25

Plebbalegt eða flott?

Sitt sýnist hverjum um Íslandsherferð bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi.

Íslenskt samfélag er líklega ekki á þeirri vonarvöl sem óttast var þegar COVID-faraldurinn stóð sem hæst hér á landi í vor. Batamerkin sjást einna helst á því að deilumál síðustu vikna hafa snúist um kynningarmyndbönd á landi og þjóð. Fyrst var það kynningarmyndband á nýjum landsliðsbúningi sem sumir netverjar sáu í fasískt myndmál.

Nú er uppþot vikunnar vegna Íslandskynningar bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi. Þó var búið að deila töluvert um valið á stofunni. Í herferðinni býðst COVID-þreyttu fólki að taka upp eigin öskur sem spilað er í íslenskri náttúru. Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason sagði athæfið plebbalegt á Facebook og rigndi yfir hann skilaboðum frá þeim sem tóku undir þau orð.

Einna lengst gekk fegurðardrottningin og athafnakonan Linda Pétursdóttir, sem veit eitt og annað um landkynningu, og sagði herferðina endemis vitleysu.

Svo hart var sótt að herferð Bretanna að bæði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður ferðamálaráðherra, þurftu að skerast í leikinn og fullvissa gesti á Facebook-veggi Egils að kynningin væri í raun og veru mjög flott.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.