Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði leiðara (orðafjöldi 2.245) þremur dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar undir fyrirsögninni „Pólitískur jarðskjálfti skekur Ísland“.

Í leiðaranum fullyrti hann að þjóðin ætlaði ekki að kyngja bankasölunni.

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir á vefsíðu sinni bjorn. is: „Sé þessi skoðun ritstjórans borin saman við niðurstöðuna sést að hann lét stjórnast af eigin óskhyggju.“ Bendir Björn síðan á að Sjálfstæðisflokkurinn sé enn með gríðarlega sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu, fulltrúarnir séu nú 110 og hafi einungis fækkað um 7 eða tæplega 6%.

Við þetta má bæta að VG hélt sínum 9 sveitarstjórnarfulltrúum í kosningunum og þriðji ríkisstjórnarflokkurinn Framsókn, bætti við sig 22 mönnum, fór úr 45 í 67. Þetta þýðir að þrátt fyrir allt bættu ríkisstjórnarflokkarnir við sig 15 sveitarstjórnarmönnum í heildina. Þeir eru nú 186 en voru 171, sem er tæplega 9% fjölgun. Til samanburðar missti Samfylkingin ríflega 10% sinna sveitarstjórnarfulltrúa, fór úr 29 í 26.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.