*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Huginn og muninn
3. maí 2020 10:02

Pólitískur áróður ÁTVR

Sérhagmunagæsla opinberra stofnana ríður ekki við einteyming.

Nýtt áfengisfrumvarp liggur fyrir Alþingi.
Haraldur Guðjónsson

Á stundum er hlutverk opinberra stofnana gagnrýnt eins og sjálfsagt er í lýðræðislegu þjóðfélagi. Sú var tíðin að forsvarsmenn stofnana svöruðu fyrir þá gagnrýni í fjölmiðlum en nú hefur orðið veigamikil breyting þar á.

Eins og áður hefur verið fjallað um í þessu blaði þá notar Samkeppniseftirlitið (SKE) sína eigin heimasíðu og samfélagsmiðla til að halda uppi vörnum í hinum og þessum málum. Hikar stofnunin ekki við að ýta undir útbreiðslu sinna sjónarmiða með því að nota skattfé til að dreifa efninu t.d. á Facebook. Þetta þykir hröfnunum varhugaverð þróun, svo það sé afar pent orðað.

Nýlegt dæmi um þetta er þegar Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, svaraði gagnrýni sem birst hafði í bæði Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu með grein í Kjarnanum. Fyrir utan hvað það er bogið að svara gagnrýni sem borin var fyrir lesendur tveggja miðla í þriðja miðlinum þá var enn furðulegra að horfa á Eftirlitið dreifa grein Kjarnans á sinni eigin Facebook-síðu.

Nýtt áfengisfrumvarp liggur fyrir Alþingi. Miðar frumvarpið m.a. að því að rýmka áfengislöggjöfina þannig að einkaaðilar geti rekið vefverslanir með áfengi. Þetta á að auðvitað að vera hið sjálfsagðasta mál, þar sem Íslendingar geta í dag keypt áfengi af erlendum netverslunum og fengið það sent heima að dyrum.

Sérhagsmunagæsla opinberra stofnana ríður ekki við einteyming því ÁTVR birtir á sinni vefsíðu fréttir og greinar, þar sem oftar en ekki er verið að mæla gegn afnámi einkasölu ríkisins. Þar er að finna frétt undir fyrirsögninni „Kostnaður og ávinningur af einkasölu“. Einnig er þar frétt undir fyrirsögninni „Stýrð áfengissala betri kostur“ og frétt með yfirskriftinni „Afleiðingar þess að leggja niður einkaleyfi á sölu áfengis“. Hrafnarnir vilja benda Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, og hennar samstarfsfólki á að hlutverk þeirra er að selja áfengi en ekki standa í pólitík með áróðursgreinum dulbúnum með lýðheilsustimpli.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.