Samfélagsmiðillinn TikTok hefur verið helsta afþreying ungmenna í heimsfaraldrinum. Forritið er einhvers konar nútíma frístælkeppni Tónabæjar og um leið ný aðferð til að deila fyndnustu heimamyndböndunum. TikTok hefur lengi vermt toppsætið í amerísku App Store utan nokkurra daga í lok júní þegar hið íslenska Trivia Royale hrifsaði þann heiður til sín.

Aldrei fyrr hefur kínverskt smáforrit náð viðlíka útbreiðslu á alþjóðavísu. Víða hafa vaknað áhyggjur af því að forritið sé í kínverskri eigu. Ekki dró úr þegar nýlega kom í ljós að forritið safnar upplýsingum af klippispjaldi símanna og stjórnvöld víða um heim hafa risið upp á afturlappirnar.

En eru þessi viðbrögð að einhverju leyti knúin áfram af pólitík og sérhagsmunum? Indversk stjórnvöld bönnuðu forritið í kjölfar landamæradeilu við Kínverja og utanríkismálaráðherra Bandaríkjastjórnar viðraði hugmyndir um að banna forritið í kjölfar þess að TikTok notendur eyðilögðu kosningafund Donald Trump.

Í raun hefur ekkert komið fram sem sker TikTok frá öðrum sambærilegum smáforritum fyrir utan kínverska eignarhaldið. TikTok er t.d. ekki eitt um að lesa gögn í klippispjaldi notenda án skýrrar ástæðu. Komið hefur fram að slíkt gera meira en 50 önnur vinsæl öpp eins og Linkedin, Economist, Fox News og Hotels.com.

TikTok safnar miklu magni af gögnum um notendur sína, notar sjálft og selur öðrum en hið sama gera aðrir samfélagsmiðlar sem enginn talar um að banna eins og Facebook, Instagram og Twitter.

Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort sé verra að vestræn eða kínversk fyrirtæki safni viðkvæmum gögnum en uppákomur eins og þessar eru holl áminning um það mikla magn persónuupplýsinga sem stöðugt safnað er í gegnum símana okkar í hvert sinn sem við opnum Facebook eða dönsum „renegade“ dansinn með börnunum okkar.

Höfundur er viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi.