*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Týr
6. janúar 2019 19:04

Pópúlisminn

Kannski var þó skrýtnast í Kryddsíldinni, eftir alla þessa umræðu um hinn uggvænlega pópúlisma, að loks var leiddur fram maður ársins að mati fréttastofunnar.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og maður ársins að mati fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar.
Haraldur Guðjónsson

Áramótaávörpin voru fremur vanabundin, mestan part þægilegar hugvekjur um landsins gagn og nauðsynjar. Þar mátti greina ýmsa sameiginlega þræði, ekki síst hvað varðar umræðuhefðina, sem hefur einkennst af nokkru skefjaleysi hin síðari ár. Að sumu leyti má eflaust rekja það til bræði og bráðræðis áranna eftir hrun, en ekki er heldur að efa að þar hefur uppgangur samfélagsmiðlanna skipt miklu máli með tilheyrandi hrópræði, bergmálsherbergjum og pólitískri skautun.

***

Sú skautun er ekki endilega til hægri og vinstri, heldur má nú orðið ekki síður benda á tvö horn lýðræðislegs frjálslyndis annars vegar og pópúlískra viðhorfa hins vegar. Sá pópúlismi beinist iðulega gegn viðteknum stjórnkerfum, elítunum svonefndu, en þversögnin er sú að lausnirnar felast oftast í auknu stjórnlyndi og valdboði. Það má heita alþjóðleg þróun og hennar hefur einnig gætt á Íslandi.

***

Það var sérlega athyglisvert að fylgjast með Kryddsíldinni á Stöð 2, þar sem pópúlismann bar töluvert á góma, en ekki leyndi sér að umsjónarmennirnir voru engir stuðningsmenn pópúlisma. Þeir áttu að vísu einkennilega erfitt með að koma sér að efninu og þurftu að vísa til umfjöllunar í breska blaðinu Guardian um að hugsanlega væru stjórnmálaflokkar á borð við Pírata, Miðflokkinn og Flokk fólksins afsprengi pópúlisma. Auðvitað eru þeir það og ekkert annað, þó þeir vilji fæstir við kannast. Allir hafa þeir uppi orðræðu um óvinveitt öfl, rangindin sem þeir einir geti upprætt og misóljósar patentlausnir á heimsins böli.

***

Kannski var þó skrýtnast í Kryddsíldinni, eftir alla þessa umræðu um hinn uggvænlega pópúlisma, að loks var leiddur fram maður ársins að mati fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Það var Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem að öðrum ólöstuðum má kalla holdgerving pópúlisma í landinu. Borin fram gegn ráðandi öflum, liggur ekki á skoðunum sínum um hverjir séu þjóðníðingar, talar í nafni alþýðunnar gegn auðstéttinni ógurlegu, gerir fullkomlega óraunhæfar kröfur þrátt fyrir fordæmalausa kaupmáttaraukningu og einn mesta jöfnuð í þróuðum hagkerfum heims og virðist hafa ófrið á vinnumarkaði að sjálfstæðu markmiði, svona í bland við kommúnískt þjóðskipulag! Og komu þá ekki beinskeyttar spurningar um það? Ónei, ekki ein.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.