*

föstudagur, 16. apríl 2021
Huginn og muninn
7. febrúar 2021 09:22

Pósturinn færðist ofar í neðsta sætinu

Pósturinn var „Hástökkvari ársins“ í ánægjuvoginni og stökk úr síðasta sætinu í það neðsta í sínum flokki.

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, nýráðinn forstjóri Póstsins.
Aðsend mynd

Rekstur Íslandspósts hefur mikið verið í fjölmiðlum undanfarin ár enda fyrirtækið verið rekið með viðvarandi tapi og reglulegur gestur á teppi Samkeppniseftirlitsins. Síðustu misseri hefur verið tekið til í rekstrinum þó fáir séu þeirrar skoðunar að tímabært sé að fagna eða hvað?

Pósturinn birti á dögunum auglýsingu á Linkedin undir fyrirsögninni „Hástökkvari ársins“. Var verið að vísa í að fyrirtækið hafi verið hástökkvari ársins í Íslensku ánægjuvoginni og hækkað um heil 10 stig á milli ára. Í ánægjuvoginni er Pósturinn ásamt 16 öðrum fyrirtækjum í flokknum smásöluverslun. Pósturinn situr þar í 17. sæti.

Pósturinn ýtti einnig úr vör auglýsingaherferðinni „Komdu með það!“ Í auglýsingunni eru lesin skilaboð frá ósáttum viðskiptavinum, sem flestir eru að kvarta yfir kostnaði. Er viðskiptavinum síðan bent á að Pósturinn ráði „því miður ekki opinberum gjöldum eða tollum“.

Hrafnarnar hafa miklar efasemdir um að það að gera lítið úr viðskiptavinum sínum sé vænlegt til árangurs. Hvað sem öðru líður þá er ljóst að ærið verkefni bíður Þórhildar Ólafar Helgadóttur, nýráðins forstjóra.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.