Frændum okkar í Danmörku hefur verið mikið niðri fyrir að undanförnu vegna dóma í Se og hør hneykslinu svonefnda. Þar var Henrik Qvortrup, fyrrverandi ritstjóri blaðsins, dæmdur til 15 mánaða fangelsisvistar, en þar af voru 3 mánuðir óskilorðsbundnir.

Málið má rekja til afhjúpana þess að blaðið hafði greitt fyrir persónulegar fjárhagsupplýsingar danskra slebba af ýmsu tagi, allt frá kóngafólki til viðrina úr raunveruleikasjónvarpi.

Se og hør greiddi kerfisstjóra hjá greiðslumiðlun reglulega fyrir kortaupplýsingar um ótal fólk, frá árinu 2008 til 2012.

Sumir hafa lýst yfir áhyggjum af þessu. Það sé almennt og yfirleitt kvíðvænlegt ef blaðamenn eru settir í tugtið fyrir skrif sín, en hvað þetta mál varði sé auðvitað ekkert grín þegar blaðamenn fái dóma fyrir að fylgja fyrirmælum yfirboðara sinna um að nálgast gögn um fréttnæmt fólk og vinna úr þeim.

Það kunni að reynast hvers kyns rannsóknarblaðamennsku hættulegt, blaðamenn verði tregari til að takast á við og rannsaka erfið mál eigi þeir það á hættu að vera gerðir ábyrgir fyrir því sem miðillinn birtir. Það sé ranglátt að dæma hásetana fyrir yfirsjónir skippersins, eins og einhver orðaði það.

En það er ekki rétt athugað að með dóminum hafi hásetarnir verið gerðir ábyrgir fyrir því sem blaðið birti, heldur voru þeir dæmdir fyrir að taka þátt í ólöglegu athæfi á vegum blaðsins.

Stundum er það svo að starfsmenn fjölmiðla fara yfir mörk hins löglega í störfum sínum, það er t.d. ekki óþekkt að ljósmyndarar hafi farið yfir hraðatakmörk á leið á vettvang. Það er heldur ekki óþekkt að fjölmiðlar ætlist til skjótra viðbragða af því taginu og borgi því hraðasektirnar. En ljósmyndararnir bera eftir sem áður refsipunktana.

Þannig má einnig hugsa sér að blaðamenn geti réttlætt hnýsni, sem varðar við bankaleynd, lög um persónuvernd eða ámóta. En þá þurfa að vera ríkir og skýrir almannahagsmunir fyrir því. Þær upplýsingar þurfa að eiga beint og brýnt erindi við almenning, ganga gegn lögum eða almennri siðferðiskennd, og vera nauðsynlegar til þess að sýna fram á efni fréttarinnar.

Það gæti t.d. átt við eyðslu embættismanna á almannafé í eigin þágu, fjárhag glæpamanna, kaup trúarleiðtoga á krystal og kynlífsþjónustu eða ámóta (svo nokkur raunveruleg dæmi frá liðnum árum séu nefnd).

Í tilviki Se og hør var því ekki til að dreifa. Þar var aðeins verið að leggjast á skráargatið hjá misfrægum Dönum til þess að tíunda eyðslumynstrið og draga af því ályktanir. Tilefni og réttlæting þessara „frétta“ var aðeins frægð umfjöllunarefnanna, frægð sem í sumum tilvikum mátti helst rekja til fyrri umfjöllunar Se og hør!

Nei, þessi dómur snerist ekki um prentfrelsið, heldur einmitt hitt, að blaðamenn og fjölmiðlar eru ekki yfir lögin hafnir.

* * *

Stundum er því haldið fram að hinir eða þessir fjölmiðlar eða fjölmiðlamenn séu til salgs, of handgengir hagsmunaöflum eða ámóta. Sennilegast hafa menn þó ekki átt von á því að svoleiðis hórarí væri boðið út á vegum Ríkiskaupa.

Á útboðsvef Ríkiskaup var það þó gert á dögunum, en samkvæmt því ætlar utanríkisráðuneytið að greiða íslenskum fjölmiðli tíu milljónir króna til að fjalla um þróunarmál á sérstakri vefgátt í eitt ár með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum, til eins árs í senn.

Tilgangurinn er m.a. sagður sá „að auka umfjöllun frjálsra fjölmiðla um þennan málaflokk“. Fjölmiðlarýni grunar að kansellíið sé ekki með það fullkomlega á tæru hvað „frjálsir fjölmiðlar“ eru.

Hjá Ríkiskaupum er það tíundað nokkuð nákvæmlega hvað sé í boði og hvers ráðuneytið væntir af sínum frjálsa fjölmiðli varðandi útbreiðslu, staðsetningu frétta, fjölda þeirra og flettinga, en það greiði vitaskuld „fyrir veitta þjónustu og verði miðlinum innan handar um ráðgjöf og upplýsingar um efni,“ en tekur samt fram að „ritstjórnarlegt frelsi verði að fullu hjá viðkomandi fjölmiðli“.

Ritstjóri : Já einmitt, takk fyrir ritstjórnarfrelsið!

Ráðherra : Það var ekkert.

* * *

Mörgum þótti þetta óformlega fjölmiðlaútboð skrýtið, ekki síst fjölmiðlafólki. Sem er út af fyrir sig bæði lofsvert og gleðilegt. Það er ekki alltaf sem menn gera athugasemdir við ókeypis peninga frá ríkinu fyrir.

Sem minnir á það að árlega tekur Umhverfisráðuneytið sig til og verðlaunar af náð sinni fjölmiðil eða fjölmiðlafígúru fyrir að hafa fjallað um umhverfismál á þann hátt, sem valdhafinn hefur velþóknun á. Til þessa hefur enginn verðlaunahafa neitað þessum stjörnustimpli og útskýrt fyrir ráðuneyti og ráðherra að þau séu ekki í lagi.