Já hæ. Hvernig væri nú að taka saman sjö algengustu afsakanirnar þegar konum gengur illa í prófkjörum? Þá er þetta bara allt til á einum stað fyrir næsta prófkjör:

Þær eru of reynslulitlar: Þetta er vitanlega vegna þess að allir karlar sem nokkurn tímann hafa fengið góða kosningu í prófkjöri á Íslandi eru 8000 ára gamlir og lögðu gatnakerfi Reykjavíkur með berum höndum og byggðu Ráðhúsið með tönnunum.

Konur fást bara ekki til að vera á lista: Fyrir hvert einasta prófkjör, hvar sem er á landinu, hverfa konur ofan í jörðina og koma ekki upp fyrr en búið er að kjósa og karlarnir eru komnir til valda. Hvers vegna konurnar hverfa svona er ekki almennilega vitað en talið er að náttúrufyrirbærið ógurlega, Sinkholes, gæti verið orsökin. Það er þegar jörðin gefur sig, opnast og gleypir fólk og hluti. Og þegar prófkjör nálgast á Íslandi? Þá gleypa Sinkholes konur á Íslandi.

Við erum að kjósa einstaklinga, ekki kyn: Í prófkjörum á Íslandi verður fólk í framboði skyndilega kynlaust þannig að fólk sér ekki kynið heldur bara einstaklinginn. Þess vegna er ómögulegt að saka nokkurn um að kjósa einhvern bara því hann er karl. Eða að ásaka einhvern um að sniðganga konu. Þetta er allt eitt stórt hvorugkyn.

Þær eru víst þarna á listanum: Þetta er allt í lagi, það eru alveg nöfn í sjö efstu sætunum á listanum eftir prófkjörið sem enda á dóttir. Þið verðið bara að byrja að lesa eftir þriðja sætið. Þær eru samt þarna. Enda er alveg fínt að hafa konur á listanum og bara svaka flott hjá þeim að ná inn á topp sjö listann. Líka eins gott, annars brjálast öfgafeministarnir.

Þetta er lýðræðið, svona virkar það nú: Lýðræðið virkar þannig að allir mega kjósa það sem þeir vilja. Svo þá er svo fínt að halda bara áfram að kjósa karlana. Hvert er vandamálið? Hatarðu lýðræðið?

Konur í stjórnmálum eru frekjulegar og brosa ekki nóg: Þarna kemur sér vel að hafa karla í framboði því þeir eru, allir með tölu, svo ljúfir, háttvísir, kurteisir og tala með svo bljúgri röddu. Stundum mætti ætla að þeir séu andsetnir og að Marilyn heitin Monroe sé að hvísla afmælissönginn í gegnum þá þegar þeir tala. Hver vill ekki heyra slíkt hjal þegar fjárlögin eru rædd í staðinn fyrir gjammið í skrækum kvenmanni sem er með allt á hornum sér og sennilega á túr, eða þaðan af verra, ólétt og á leið í orlof.

Er hún ekki aðeins of ung? Aldur skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að framboði. Þess vegna er svo heppilegt að allir karlmenn sem hafa nokkurn tímann unnið kosningu á Íslandi skuli vera 97 ára eða eldri. Þetta vita bara svo fáir því þeir halda sér alveg fáránlega vel þökk sé lágkolvetnakúrnum og engifer- og hveitigrasdrykkju. Skál strákar. Skál í pungaboðinu.