*

laugardagur, 6. júní 2020
Leiðari
6. apríl 2017 10:49

Quis custodiet ipsos custodes?

Hver á að hafa eftirlit með eftirlitinu?

Haraldur Guðjónsson

Eftirlit þarf að sæta eftirliti, sagði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á fundi Félags atvinnurekenda í vikunni. Á fundinum var sérstaklega fjallað um eftirlitsgjöld og var við það tilefni kynnt skýrsla sem félagið lét vinna um slíka gjaldheimtu.

Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana ehf., sagði frá glímu fyrirtækisins við eftirlitsstofnanir á fundinum og greindi m.a. frá því að hver heimsókn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kostaði fyrirtækið um 1,2 milljónir króna. „Þetta er eins og maður sé að keyra í umferðinni á löglegum hraða og lendi í mælingu hjá lögreglunni. Þá fái maður rukkun fyrir mælinguna. Ef lögguna vantar meiri tekjur, þá er bara mælt meira. Þetta er alveg út í hött,“ sagði Kjartan og er óhætt að taka undir þá gagnrýni.

Enn alvarlegra er að Matís, sem annast ýmislegt opinbert eftirlit og rannsóknir, birtir ekki gjaldskrá sína opinberlega og hefur neitað að afhenda hana þegar eftir því hefur verið leitað. Benedikt sagði á fundinum að gjaldskrár opinberra aðila ættu að sjálfsögðu að vera opinberar og sagðist í raun gáttaður á því að opinberir að- ilar vilji ekki birta þær þegar eftir því sé leitað. Þetta stríðir, að sögn Benedikts, ekki aðeins gegn góðri stjórnsýslu, heldur einnig gegn hans grundvallarviðmiðum. Vonandi er að honum takist að fá þessu breytt.

Áhugavert var einnig að heyra hann tala um fjármögnun Fjármálaeftirlitsins, en FME hefur lagt mikla áherslu á sjálfstæði stofnunarinnar. Á hverju ári leggur ráðherra fram tillögu fyrir Alþingi um það hversu há gjöld FME má leggja á eftirlitsskyldar fjármálastofnanir, enda er starfsemi FME fjármögnuð með slíkri gjaldheimtu.

Benedikt segir eftirlitið hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og sagt það vega að sjálfstæði stofnunarinnar. Betra væri að gjöldin hækkuðu sjálfkrafa án aðkomu Alþingis. Hann sagðist ósammála þessu viðhorfi. Eftirlit þurfi líka að sæta eftirliti og einhver þurfi að sýna eftirlitsstofnunum aðhald. Þeir sem sæti sjálfir eftirliti FME þori ekki endilega að segja sitt álit á starfsemi stofnunarinnar, t.d. af ótta við að fá þá ekki einhverja fyrirgreiðslu sem þeir þurfi á að halda í framtíðinni.

Hægt er að taka undir þessi orð ráðherrans. Fjármálaeftirlitið þarf, eins og allar aðrar opinberar stofnanir, að sæta utanaðkomandi aðhaldi og er ekki nema eðlilegt að kjörnir fulltrúar, ráðherra og þingmenn, taki það hlutverk að sér.

Vissulega er mikilvægt að eftirlitsstofnanir á borð við FME liggi ekki undir pólitískum þrýstingi um að afgreiða tiltekin mál á tiltekinn hátt, en það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa þær algerlega eftirlitslausar sjálfar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.