*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Leiðari
24. maí 2018 15:34

Ráða smáturnarnir úrslitum í Reykjavík?

Banna á pólitíkusum að skreyta sig með skattfé og skrifa undir fjárskuldbindingar rétt fyrir kosningar. Það er óábyrgt og ósanngjarnt gagnvart öðrum framboðum.

Dagur B. skrifaði í gær undir 300 milljóna króna samning við knattspyrnufélagið Víking.
Aðsend mynd

Íslendingar ganga enn og ný að kjörborðinu á laugardaginn. Verður það í fimmta skiptið á sex árum sem þeir gera það. Vegna upplausnar í landsmálunum hefur þjóðin þrisvar kosið til Alþingis á þessu tímabili en nú á laugardaginn eru það sveitarstjórnarkosningarnar. Sem betur fer hefur meiri stöðugleiki verið á þeim vettvangi.

Líkt og oft áður beinist athyglin að höfuðborginni. Lýðræðið hefur náð nýjum hæðum eða lægðum, fer eftir því hvernig á það er litið, því nú eru sextán framboð til borgarstjórnar í Reykjavík. Hér á þessum vettvangi hefur áður verið viðruð sú skoðun að við þessu þurfi að bregðast með einhverjum hætti. Ástæðulaust er að hafa tuttugu og þrjá borgarfulltrúa í ráðhúsinu og reyndar er það líka óþarfa fjáraustur. Í dag eru fimmtán borgarfulltrúar og flestir af þeim eru ósýnilegir, hvað getur þú nefnt marga þeirra með nafni?

Fyrsta skrefið væri því að fækka aftur borgarfulltrúum í fimmtán. Viðskiptablaðið ítrekar líka þá skoðun sína að til bóta væri að fjölga meðmælendum framboða verulega og jafnvel krefja þau um tryggingarfé, sem rennur í borgarsjóð ef þau fá innan við 1% atkvæða.

Í þessari kosningabaráttu í borginni hefur mikið verið rætt um turnana tvo. Að valið standi fyrst og síðast um það hvort kjósandinn vilji Dag B. Eggertsson í stól borgarstjóra eða Eyþór Arnalds.

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt fremur erfitt uppdráttar hefur Samfylkingin siglt seglum þöndum í kosningabaráttunni og mælist í flestum könnunum nálægt 31,9% kjörfylgi sínu. Eini fylgikvillinn er að borgarstjórinn er líklega kominn með sinaskeiðabólgu, svo mörg samkomulög og samninga hefur hann undirritað fyrir hönd borgarinnar á síðustu vikum. Fyrir nokkrum dögum skrifaði hann undir samning um byggingu 260 leiguíbúða fyrir stúdenta og félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar og í gær skrifaði hann undir 300 milljóna króna samning við knattspyrnufélagið Víking um byggingu nýs gervigrasvallar í Fossvoginum. Svona svo tvö nýleg dæmi séu tekin.

Annað dæmi um það hvernig meirihlutinn hefur auglýst sig á kostnað borgarbúa er að fyrir fáeinum dögum kom út blaðið „Miðborgin í myndum – fyrir og eftir framkvæmdir“. Mátti sú útgáfa ekki bíða þar til eftir kosningar?

Auðvitað á að banna á svona lagað í aðdraganda kosninga. Pólitíkusar í meirihluta eiga ekki að fá að koma fram opinberlega fyrir hönd borgarinnar síðustu vikurnar fyrir kosningar og skrifa undir hundruð milljóna króna fjárskuldbindingar. Það er bæði óábyrgt og ósanngjarnt gagnvart öðrum framboðum, sem geta ekki nýtt skattfé almennings til að auglýsa sig á lokasprettinum. Það er vel hægt að setja einhverjar skynsamlegar siðareglur um þetta. Þetta á líka við í landsmálunum.

Meirihlutinn í borginni hefur haldið velli í nánast öllum könnunum, nánar tiltekið í öllum nema könnun Fréttablaðsins 10. apríl. Síðustu vikur hefur hann verið að mælast með 13 manna meirihluta en nú eru blikur á lofti því gær birti Morgunblaðið könnun, sem Félagsvísindastofnun gerði dagana 17. til 21. maí. Samkvæmt henni hangir meirihlutinn á bláþræði, með 12 borgarfulltrúa af 23. Það merkilega við þá könnun er að fylgi stóru flokkanna er ekki mikið að breytast heldur eru sveiflurnar hjá þeim minni. Píratar mælast með 8% og tvo borgarfulltrúa og VG 7,4% og sömuleiðis tvo borgarfulltrúa.

Kannski snúast þessar kosningar alls ekki um turnana tvo heldur smáturnana alla í kring. Í fyrsta skiptið er í sögunni er hart sótt að VG frá vinstri. Miðað við könnun Félagsvísindastofnunar þarf ekki mikið að gerast svo Vinstri græn missi einn borgarfulltrúa. Flokkur fólksins er sömuleiðis alveg við þröskuldinn — mjög nálægt því að koma inn manni. Miðflokkurinn, sem mælist með 6,5% og einn borgarfulltrúa, er líka mjög nálægt því að bæta við sig manni. Það skyldi þó aldrei vera að við fáum að upplifa spennandi kosninganótt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.