*

þriðjudagur, 15. október 2019
Leiðari
17. júní 2019 15:05

Ráðast þarf að rótum vandans

Breytingar á fjármálastefnu stjórnvalda leysa ekki þann undirliggjandi vanda sem niðursveiflan framundan afhjúpar.

Fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar vinnur nú að breytingum á fjármálastefnu í fjórða sinn á fjórum árum.
Haraldur Guðjónsson

Þegar allt leikur í lyndi er hætt við að allkyns rugl og vitleysa fái að viðgangast án þess að nokkur veiti því sérstaka athygli. Um leið og harðnar á dalnum kemur ruglið hins vegar bersýnilega í ljós þannig að ómögulegt er að horfa framhjá vitleysunni. Þessu kynntust Íslendingar til dæmis ágætlega á hrunárunum.

Þetta kemur upp í hugann nú þegar ný fjármálaáætlun og fjármálastefna liggja enn einu sinni fyrir Alþingi, en þetta er í fjórða sinn sem stefnan er tekin til endurskoðunar á fjórum árum. Endurskoðun stefnunnar hefur hins vegar ekki farið hátt enda fyrst nú sem skórinn kreppir síðan lög um fjármálastefnuna voru samþykkt árið 2015.

Tíð endurskoðun stefnunnar er til marks að það hefur legið fyrir nokkuð lengi að lögin voru ekki vandkvæðalaus. Hins vegar voru vandkvæðin fyrst um sinn lúxusvandamál. Of mikið af því góða getur vissulega verið vandamál en hins vegar er hvatinn til aðgerða lítill ef enginn finnur fyrir afleiðingum vandans. Tilgangur laganna um fjármálastefnu var vissulega góður og markmiðið göfugt, en margur hefur siglt í strand undir fagurri leiðarstjörnu.

Vandinn hingað til hefur endurspeglast fyrst og fremst í óhóflegum vexti ríkisútgjalda í þeirri fordæmalausu þenslu sem hér hefur ríkt síðustu ár. Tekjur ríkisins hafa næstum vaxið um helming síðan 2011 og svigrúm hins opinbera til að auka útgjöld því verið gríðarlegt á undanförnum árum. Fjármálastefnan og sú einfalda afkomuregla sem liggur henni til grundvallar sló ekki á útgjaldavöxtinn sem hélt áfram þrátt fyrir að afkomureglunni hefði verið fylgt.

Niðurstaðan þegar farið er yfir reynslu síðustu ára er að útgjöld ríkisins juku á þensluna í góðærinu og var þó enginn skortur á vísbendingum um ofhitnun. Það er ekkert nýtt að útgjöld hins opinbera aukist á toppi hagsveiflunnar og að í niðursveiflu sé ýtrasta aðhaldi beitt. Í raun má segja að þetta sé hin klassíska íslenska leið bæði hjá ríkinu og sveitarfélögum. Auðvitað ætti þetta að vera þveröfugt. Hið opinbera á að gæta aðhalds á góðæristímum og auka útgjöld í niðursveiflunni – þá er einmitt tími til að fara í framkvæmdir til að halda hinum margfrægu hjólum atvinnulífsins gangandi. Því miður hefur oft verið misbrestur á þessu og handbremsan nánast rifin af þegar harðnar á dalnum með þeim afleiðingum að niðursveiflan verður dýpri og lengri en hún hefði þurft að vera. Það er algjört lykilatriði að auka fjárfestingu í niðursveiflu að ekki sé nú talað um í kreppu. Við búum við þann veruleika að hagsveiflur eru normið – óhjákvæmilegar. Í stað þess að miða öll viðbrögð við spár á að viðurkenna tilvist þessara sveiflna með því að búa í haginn í uppsveiflu.

Að þessu sögðu er hins vegar rétt að hrósa þeirri stefnu stjórn- valda að setja niðurgreiðslu skulda í forgang og fagna þeim mikla árangri sem náðst hefur á því sviði. Útlitið nú væri grafalvarlegt ef ekki væri fyrir það mikla svigrúm sem skuldalækkunin hefur skapað.

Nú þegar hagkerfið siglir inn í samdráttarskeið er eðlilegt að gallar fjármálastefnunnar veki meiri áhyggjur. Óttinn er að vandamál síðustu ára endurtaki sig nema nú með öfugum formerkjum og að stefnan auki á niðursveifluna og dragi hana á langinn, rétt eins og hún bætti olíu á þenslueldinn í uppsveiflunni. Þetta eru réttmætar áhyggjur.

Það er miður að stjórnvöld hafi ekki ráðist að rótum þessa vanda heldur reddað sér fyrir horn með skammtímalausnum. Samtök atvinnulífsins hafa bent á einfalda leið til að leysa vandann og hvatt til þess að í stað fastrar og einfaldrar afkomureglu verði afkomureglan hagsveifluleiðrétt með tilliti til stöðunnar í hagkerfinu hverju sinni. Aðferð sem flest vestræn þróuð lönd nota og reynst hefur vel. Með því að fresta því að leysa vandann eru stjórnvöld að viðhalda óvissu og vantrausti sem er ekki gott veganesti á leið inn í samdráttarskeið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.