Nú eru liðin tvö ár síðan sú brellna og brögðótta setti allt á annan endann hér á landi og neyðarstig almannavarna var sett á vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þetta var rifjað upp í ágætri umfjöllun Elísabetar Ingu Sigurðardóttir um þessi tímamót í kvöldfréttum Stöðvar 2 á sunnudag.

Í umfjölluninni leit Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir yfir farinn veg. Þar lét hann áhugaverð orð falla, sem ekki vöktu mikla athygli, enda hafa fjölmiðlar fyrst og fremst verið uppteknir af því að fjalla um hvort Þórólfur sé á leiðinni til Tenerife og hverjir verði með í för.

Þórólfur sagði í samtali við fréttastofuna að þegar hann liti um öxl þætti honum merkilegt hversu margir hefðu ekki viljað setja heilsu þjóðarinnar í forgang á meðan á faraldrinum stóð: „Það sem kom mér á óvart líka hversu margir af frammá fólki í samfélaginu hefur ekki alveg viljað forgangsraða heilsu og heilbrigði landsmanna þannig það kom mér svolítið á óvart líka." Og svo bætti hann við að eitt umfram allt annað hefði þó valdið honum mestu vonbrigðunum: „Hvað margir hafa ekki viljað hlusta á raddir heilbrigðiskerfisins, raddir spítalakerfisins, raddir frá Landspítala um hvernig staðan væri og það eru margir sem viljað horfa fram hjá því og jafnvel sumir gert lítið úr því sem heilbrigðiskerfið og Landspítalinn hafa sagt og það hefur valdið mér svolitlum vonbrigðum."

***

Þetta eru afar áhugaverð ummæli hjá sóttvarnalækninum svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Í fyrsta lagi vekur það furðu að Þórólfur líti svo á að það hafi verið háværar raddir málsmetandi fólks sem hafi krafist þess að heilsu landsmanna yrði kastað fyrir róða til að ná fram einhverjum öðrum markmiðum en þeim að sigla út úr faraldrinum með sem minnstum skaða fyrir þjóðina. Á meðan á faraldrinum stóð sýndu kannanir mikinn stuðning við almennar sóttvarnaraðgerðir.

En hafa verður í huga að þegar sá stuðningur fór minnkandi hélst það í hendur við minnkandi trúverðugleika þeirra aðgerða sem sífellt var gripið til á nýjan leik eftir að þeim hafði verið aflétt án þess að augljóst orsakasamhengi væri milli þeirra og framþróunar faraldursins. Það voru gagnrýnisraddir sem bentu á að ekki væri augljóst hvort aðgerðirnar væru að skila tilætluðum árangri en ekki raddir sem kölluðu eftir að lýðheilsu landsmanna væri fórnað. Raddir sem bentu á seinni stigum faraldursins á að lækning sóttvarnaryfirvalda væri hugsanlegi verri en sjálfur sjúkdómurinn og virðast nú hafa haft nokkuð til síns máls.

Seinni ummælin eru ekki síður áhugaverð. Þar harmar sóttvarnalæknir að „raddir heilbrigðiskerfisins", eins og hann orðar það, hafi orðið fyrir gagnrýni meðan á faraldrinum stóð. Einn af þráðunum sem liggja gegnum tveggja ára faraldursástand er að nánast daglega mátti heyra eina af þessum röddum heilbrigðiskerfisins í fjölmiðlum vara við því að Landspítalinn væri að hruni kominn og álagið væri honum um megn. Styrkur þessara radda í fjölmiðlum var ávallt hinn sami óháð því hver staðan á heilbrigðiskerfinu var hverju sinni á meðan faraldurinn geisaði.

Það er því ekki að furða að margir hafi klórað sér í hausnum yfir þessum viðvarandi varnaðarorðum um að allt væri á vonarvöl þegar staðreyndir sögðu annað. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að aðeins eru nokkrar vikur liðnar síðan þjóðina rak í rogastans þegar Þórólfur sóttvarnalæknir lagði það til við stjórnvöld í allra fúlustu alvöru að þau íhuguðu alvarlega að grípa til allsherjarútgöngubanns til að vernda heilbrigðiskerfið. Var það mjög í takt við þann tón sem sóttvarnaryfirvöld slógu þegar ómíkron-afbrigðið fór að breiðast út eins og eldur í sinu fyrr í vetur. Það var enn og aftur varað við því að enn og aftur myndi heilbrigðiskerfið riða til falls og ekki ráða við að sinna fársjúku fólki nema gripið yrði til harðra samkomutakmarkana. „Raddir heilbrigðiskerfisins" sungu svo í takt í fjölmiðlum og gerðu sitt besta til að hræða fólk vegna hinnar skuggalegu þróunar sem fram undan væri.

Síðan hefur ekkert breyst nema að sóttvarnaraðgerðum hefur verið aflétt, raddir heilbrigðiskerfisins hafa þagnað og læknar einbeita sér að störfum sínum í stað þess að skrifa tilfinningaþrungnar færslur á Facebook. Smitum heldur áfram að fjölga, fólk veikist og lífið gengur sinn vanagang.

Þegar horft er til baka á þessum tímapunkti ættu vonbrigðin að felast í því að gagnrýnin var ekki háværari en raun bar vitni.

***

Annars er áhugavert að sjá hvernig orðræða forsvarsmanna Landspítalans úr faraldrinum er farin að bergmála á öðrum sviðum samfélagsins. Þannig var sagt frá því í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins á mánudag að álagið hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli hefði aukist mikið síðustu daga og vikur. Haft er eftir yfirlögregluþjóni landamærasviðs ríkislögreglustjóra „að móttökukerfi flóttamanna á landamærum sé komið að þolmörkum. Svo gæti farið að kerfið fari af óvissustigi yfir á hættustig gangi spár um fjöldaflóttamanna eftir".

Þetta hljómar kunnuglega og vafalaust þarf ekki langur tími að líða þangað til brugðist verður við þessu með því að banna áhorfendur á íþróttaleikjum og takmarka opnunartíma skemmtistaða.

***

Það reynir á fjölmiðla á stríðstímum. Eins og minnst var á á þessum vettvangi í síðustu viku hafa íslenskir fjölmiðlar komist að stærstum hluta ágætlega frá því að segja frá hinni ömurlegu innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og þeim hörmungum sem henni fylgja.

Það kvað hins vegar við annan tón þegar skrúfað var frá Síðdegisútvarpi Rásar 2 á miðvikudaginn 2. mars. Þar var flutt viðtal við Jónas Tryggvason, sem er búsettur í Moskvu og starfar þar sem framkvæmdastjóri. Jónas þuldi upp óhindrað þann áróður sem hefur dunið á Rússum gegnum ríkismiðlana þar í landi. Það gengur ekki að menn sem eiga viðskiptahagsmuni í Rússlandi þar sem vitað er að þung viðurlög eru gegn því að tala með frjálsum hætti um hina ömurlegu innrás fái drottningarviðtal á borð við þetta. Að minnsta kosti ekki án þess að spyrlar undirbúi sig og hafi lágmarksþekkingu á málefninu til að geta hrakið þær staðreyndavillur sem þarna komu fram.

Niðurlag viðtalsins var síðan dæmalaust. Þá var framkvæmdastjórinn spurður hvernig hann teldi að mál myndu þróast. Hann svaraði: „Ég vil að Úkraína gefist upp núna. Þetta er tilgangslaus barátta. Þeir eru litli bróðir og stóri bróðir er lagstur ofan á þá. Hann er björninn og er búinn að taka loftherinn úr gildi og allar hafnir úr gildi. Þetta er bara tímaspursmál."

Að lokum var hann spurður hvort hann héldi að þessi atburðarás raungerðist. Þá svaraði Jónas því til að hann væri bjartsýnismaður sem tryði því að skynsemin myndi ráða för.

Það er Ríkisútvarpinu til minnkunar að bjóða hlustendum upp á svona grímulausan áróður úr ranni Pútíns og réttlætingu á tilefnislausri innrás í fullvalda ríki með þeim hörmungum og mannfalli sem því fylgir. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga að viðtal við fólk í sömu stöðu og Jónas séu tekin. Sést það meðal annars á því að bæði Morgunblaðið og Stundin ræddu einnig við hann í síðustu viku. Í viðtalinu í Morgunblaðinu var fjallað um áhrif viðskiptaþvingana á rekstur fyrirtækja í Rússlandi og hafði Jónas eðli málsins samkvæmt eitt og annað áhugavert um það að segja. Viðtalið við Stundina var hins vegar á sömu nótum og það sem var flutt á Rás 2. Munurinn var sá að blaðamaður hafði nægilega þekkingu til að benda á það sem orkaði tvímælis í málflutningi hans. Fyrirsögnin á því viðtali fangaði umfjöllunarefnið ágætlega: Íslenskur Moskvubúi endurómar sjónarmið Pútíns um Úkraínu."