*

fimmtudagur, 28. október 2021
Týr
10. janúar 2021 15:04

Ráðgjafafylking Katrínar

Hætta þarf þessu bulli með fjölbreytta og skrautlega starfstitla á pólitískt skipuðum ráðgjöfum en Katrín er nú með 6.

Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra Íslands og formaður VG.
Gígja Einarsdóttir

Fyrir ári síðan upp á dag, 7. janúar 2020, var tilkynnt að Lára Björg Björnsdóttir hefði látið af störfum sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Það er pólitísk staða og forsætisráðherra hefur frjálsar hendur með ráðningar í stöðuna, líkt og ráðherrar hafa með aðstoðarmenn.

Sama dag var tilkynnt að Rósa Guðrún Erlingsdóttir, þá sérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu, hefði verið ráðin, án auglýsingar, í nýtt starf upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins (sem er annað starf en það sem Lára Björg gegndi). Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sá ekki ástæðu til að auglýsa þessa nýju stöðu.

                                                                       ***

Í mars 2020 var tilkynnt að Róbert Marshall, fv. þingmaður Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, hefði verið ráðinn í pólitíska stöðu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Mánuði síðar sneri Lára Björg aftur til starfa, þá sem „aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála". Halla Gunnarsdóttir, nú framkvæmdastjóri ASÍ, gegndi þeirri stöðu áður.

Í lok september var tilkynnt að Henný Hinz, fv. hagfræðingur ASÍ, hefði verið ráðin sem „aðstoðarmaður ríkisstjórnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftlagsmála". Til viðbótar við þennan hóp hefur forsætisráðherra, eins og flestir ráðherrar, tvo aðstoðarmenn.

                                                                       ***

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra sá vefmiðill hér í bæ ástæðu til að fjalla sérstaklega um það að hann hefði sér innan handar sjö ráðgjafa og aðstoðarmenn. Samhliða var því velt upp hver kostnaður skattgreiðenda væri við þessa „aðstoðarmanna- og ráðgjafafylkingu".

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og tímabundinn verkefnastjóri við losun fjármagnshafta voru þá taldir með. Með sömu rökum mætti segja að aðstoðarmanna- og ráðgjafafylking Katrínar telji sex manns og laun aðstoðarmanna hafa hækkað umtalsvert frá því að Sigmundur Davíð var forsætisráðherra.

                                                                       ***

 Nú er Týr reyndar á þeirri skoðun að ráðherrar eigi almennt að hafa nokkurt svigrúm til að ráða ráðgjafa og aðstoðarmenn, innan hæfilegra marka. Það mætti þó hætta þessu bulli með fjölbreytta og skrautlega starfstitla á pólitískt skipuðum ráðgjöfum, sem fyrst og fremst sinna pólitískri ráðgjöf og gæta að ímynd og ásýnd ráðherrans

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.