*

laugardagur, 18. september 2021
Týr
17. janúar 2021 13:12

Ráðgjafi VR og RÚV

Það kom Tý nokkuð á óvart að efnahagsráðgjafi VR væri kynntur til leiks sem álitsgjafi um sölu Íslandsbanka.

Guðrún Johnsen, lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og efnahagsráðgjafi VR.
Haraldur Guðjónsson

Týr fagnar því mjög að Oddný Harðardóttir, þá fjármálaráðherra, skyldi árið 2012 hafa frumkvæði að því að setja lög þess efnis að ríkið gæti selt hlut sinn í bönkunum. Eftir þeim lögum er starfað í dag og nú stendur til að setja hlut ríkisins í Íslandsbanka í opið söluferli. Ríkið seldi hlut sinn í Arion banka fyrir örfáum árum og tókst það söluferli mjög vel þegar erlendir aðilar keyptu hlutinn.

* * *

Ríkissjónvarpið sagði frá því í sjónvarpsfréttum á þriðjudagskvöld að skiptar skoðanir væru á fyrirhugaðri sölu, bæði í pólitíkinni en líka meðal fagfólks. Í ljósi þess síðarnefnda kom það Tý nokkuð á óvart að Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR, væri þá kynnt til leiks sem álitsgjafi um þetta mál. Hún var að vísu ekki kynnt þannig heldur sem lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Til að gæta sanngirni má þó hafa í huga að Guðrún hefur nokkra reynslu af bankastarfsemi. Hún skrifaði heila bók um bankahrunið og sat í stjórn Arion banka frá 2010-2017. Hún var um tíma varaformaður stjórnar, sat í áhættunefnd og sem formaður lánanefndar bankans sem lánaði meðal annars fjármagn til United Silicon, Wow air og Primera. Til að bæta ofan á þetta hefur hún einnig reynslu af gerð starfslokasamninga.

* * *

Haft var eftir Guðrúnu að hætta væri á því ekki fengjust fjárfestar sem hefðu áhuga á venjulegri bankastarfsemi heldur gætu laðast að fjárfestar sem sé áhættusamt fyrir ríkið að séu eigendur að banka. Í framhaldinu fór hún yfir aðkomu Baugs að Glitni fyrir hrun sem að hennar sögn nýtti bankann til þess að auka lánagreiðslu til sín, „og það er akkúrat það sem við viljum ekki,“ bætti hún við.

* * *

Það er reyndar rétt hjá henni, en kona með hennar miklu þekkingu og reynslu hefði þó mátt nefna að í dag gilda aðrar reglur um bankastarfsemi en voru í gildi fyrir hrun – þannig að það er ekki hægt að tæma bankana innan frá.

* * *

En svo hefði ríkisfjölmiðillinn líka geta fundið faglegan og hlutlausan álitsgjafa.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Johnsen Guðrún
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.