*

föstudagur, 28. janúar 2022
Týr
4. desember 2021 17:02

Ráðherra úti á rúmsjó

„Þessi rök hafa aldrei verið notuð í yfir 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins, svo Týr viti."

Það kom mörgum á óvart að Jón Gunnarsson yrði fyrir valinu sem einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Eftir að valið var tilkynnt spurði Ríkisútvarpið Jón hvort hann hefði sóst hart eftir því að verða ráðherra. „Ekkert harðar en bara svona gengur og gerist meðal þingmanna. Ég tel mig vera ágætlega að þessu kominn. Hef sterkt umboð úr síðustu kosningum og mínu kjördæmi," svaraði Jón að bragði.

* * *

Nú er ekki víst að þetta sé Íslandsmet í þvælu, en það lætur nærri. Í fyrsta lagi vita allir sem eitthvað vita um innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins að Jón Gunnarsson sóttist gríðarlega hart eftir því að verða ráðherra, ásamt nokkrum stuðningsmanna sinna. Þar voru notuð þau rök að í raun væri enginn ráðherra úr kjördæminu, því Bjarni Benediktsson væri ráðherra vegna stöðu sinnar sem formaður flokksins. Þessi rök hafa aldrei verið notuð í yfir 90 ára sögu Sjálfstæðisflokksins, svo Týr viti.

* * *

Svo er það stuðningurinn. Jón fékk 23,8% atkvæða í annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi sem fór fram í júní. Til samanburðar er gagnlegt að skoða niðurstöðu prófkjörs í Suðurkjördæmi. Guðrún Hafsteinsdóttir fékk 48,2% atkvæða í fyrsta sæti listans. Hún bauð sig gegn sitjandi þingmanni í kjördæminu en almennt er talið að sitjandi þingmenn hafi forskot í prófkjörum.

* * *

Það er því í besta falli algjört rugl að halda því fram að Jón Gunnarsson hafi notið einhvers sérstaks stuðnings. Reyndar væri hægt að halda því fram að stuðningurinn hafi verið mjög lítill fyrir sitjandi þingmann til 14 ára og ritara flokksins. Í raun alveg ömurleg niðurstaða fyrir Jón.

* * *

Það kunna að vera aðrar málefnalegar ástæður fyrir valinu á Jóni Gunnarssyni og ástæða til að óska honum farsældar í starfi. En hvorki hann né formaður flokksins eiga að fara með ósannindi um þær – frekar að sleppa því að ræða þær.

* * *

Að mati Týs missti Sjálfstæðisflokkurinn af ágætu tækifæri. Í fyrsta sinn í sögu hans lá beinast við að meirihluti ráðherra Sjálfstæðisflokksins yrðu konur. Ekki vegna þess að þær eru konur, heldur af því að þær eru oddvitar í sínum kjördæmum og hæfar. Týr skilur bara alls ekki hvers vegna þetta tækifæri var látið fara forgörðum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.