Tilkynnt var á vef Stjórnarráðsins nú í morgun að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsæki Kænugarð í Úkraínu á morgun.

Í tilkynningunni segir að markmið heimsóknarinnar sé að sýna úkraínsku þjóðinni og stjórnvöldum samstöðu og ræða áframhaldandi stuðning Íslands við Úkraínu.

Þetta hljóta að vera stórkostlegar fréttir fyrir úkraínsku þjóðina og algert reiðarslag fyrir Rússa.

Hrafnarnir eru samt dáldið hugsi yfir heimsókninni. Því það er nefnilega svo að ráðamenn í Úkraínu eru svolítið uppteknir. Þeir eru nefnilega í stríði. Aftur og aftur hafa þeir sagt að þá vanti aðeins eitt. Vopn til að verjast Rússum. Helst skriðdreka og herþotur. Þeir hafa ekki verið að biðja um fleiri fundi.

En Katrín Jakobsdóttir getur útskýrt fyrir Úkraínumönnum að við Íslendingar getum þar verið betri en enginn. Við eigum nefnilega vopn. Og þökk sé fyrirspurn Katrínar í lok árs 2014 á Alþingi þá vitum við nokkurn veginn hvað við eigum. Við eigum 92 vopn í vörslum Landhelgisgæslunnar sem virka. Eða virkuðu að minnsta kosti þá.

Við hefðum reyndar átt töluvert meira ef Vinstri grænir hefðu ekki misst vitið árið 2014 þegar Norðmenn ætluðu að gefa okkur gömul vopn sem þeir voru hættir að nota.

Katrín getur líka farið yfir kosti þess að búa í herlausu landi og jafnvel nýtt þekkingu sína úr Vinstri grænum, sem áður hét Alþýðubandalagið, Sósíalistaflokkurinn og Kommúnistaflokkurinn, og lýst fyrir Selenskí og hans mönnum reynslunni að eiga náin tengsl og samvinnu við Rússa.

Íslenskir ráðamenn eru mjög uppfinningasamir þegar kemur er að ferðalögum. Það eru fáeinir mánuðir síðan Þórdís Kolbrún var í Kænugarði. Það var í lok nóvember. Það fór alveg framhjá hröfnunum hverju sú ferð skilaði. En hún hlýtur að hafa skilað gríðarlegum árangri fyrst Þórdís Kolbrún tekur Katrínu nú með sér.

En ekki er öll sagan sögð. Morgunblaðið greinir frá því að nokkrir aðstoðarmenn ráðherranna verði með í för, sem og fréttamenn ríkismiðilsins. Um eina af heimsóknum ríkisútvarpsins til Úkraínu var lítillega fjallað í Viðskiptablaðinu en þar var Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri rannsóknarþáttarins Kveiks var í aðalhlutverki.

Fyrst íslenskur forsætisráðherra, utanríkisráðherrann íslenski, aðstoðarmenn ráðherranna og sjálf íslenska ríkisfréttastöðin verða saman í Kænugarði hlýtur eitthvað að gerast. Íslenskir skattborgarar hljóta í það minnsta að hafa væntingar um slíkt enda fer allur þessi hópur út á kostnað skattborgaranna.

Það hefði vel verið hægt að lýsa yfir samstöðu með samtali á Skype og sýna stuðning í verki með því að leggja andvirði ferðakostnaðarins inn á reiknings úkraínska ríkisins.

Huginn og muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.